Efnisyfirlit

Formáli 5

1.   Inngangur 6

1.1.   Ábyrgð og hlutverk. 7

2.   Hugtök. 8

3.   Greining á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar 10

3.1.    Greining skipulögð og fest í sessi 10

3.2.   Tilgangur, afmörkun, aðferð og ferli 10

3.3.   Gæðakröfur 11

4.   Almannavarnahringrásin. 12

5.   Framkvæmd greiningarinnar 14

5.1.   Undirbúningur 14

5.1.1.    Þekking. 14

5.1.2.    Greining óæskilegra atvika. 15

5.1.3.    Afleidd atvik. 16

5.1.4.    Mótun sviðsmynda. 18

5.1.5.    Verðmæti í samfélaginu og tegundir afleiðinga. 19

5.2.   Greiningarferill 20

5.2.1.    Lýsing á kerfinu. 20

5.2.2.    Mat á viðkvæmni 21

5.2.3.    Mat á líkum.. 22

5.2.4.    Mat á afleiðingum.. 23

5.2.5.    Mat á óvissu. 23

5.2.6.    Mat á því hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættuþætti 24

5.2.7.    Mat á því hvort hægt sé að yfirfæra atvik á sambærilegar aðstæður annars staðar 24

5.2.8.    Kynning á niðurstöðum greiningarinnar 25

6.   Meðferð og eftirfylgni 26

6.1.1.    Mat á áhættu. 26

6.1.2.    Eftirfylgni og úrbætur 26

7.   Stutt um aðrar greiningaraðferðir 28

7.1.   Viðkvæmnigreining. 28

7.2.   Viðbúnaðargreining. 29

8.   Gildismat á upplýsingum.. 31

Heimildir 32

Lög og reglugerðir 34

Viðaukar 35

Viðauki 1: Aðilar sem geta komið að greiningu á áhættu og áfallaþoli stærri eininga  35

Viðauki 2: Ýmsar upplýsingar 36

Viðauki 3: Gagnasöfn, kort og tölfræði 38

Viðauki 4: Innihald í yfirliti yfir mikilvægar aðstæður 39

Viðauki 5: Dæmi um áhættuþætti og tegundir atvika. 40

Viðauki 6: Áhættustjórnun. 42

Viðauki 7: Gæðakröfur 44

 

 

 


 

Formáli

 

Könnun stofnana og annara stærri eininga s.s. sameinaðra almannavarnanefnda á áfallaþoli byggir á megin­regl­unni um sviðsábyrgð; að það stjórnvald sem almennt vinnur á tilteknu sviði skuli framkvæma hættumat og skipuleggja viðbrögð við utanaðkomandi hættu. Grunnur að góðu almannavarnastarfi er góð þekking á áhættu og viðkvæmni sem fæst með greiningu á áhættu og áfallaþoli. Greiningin er undirstaða fyrir markvissa vinnu við að draga úr áhættu og viðkvæmni en það er gert með forvarnastarfi og fyrirbyggjandi aðgerðum, efldum viðbúnaði og aukinni hæfni við neyðarstjórnun.

Tilgangur þessara leiðbeininga um greiningu á áhættu og áfallaþoli fyrir stofnanir og aðrar stærri einingar, svo sem sameinaðar almannavarnanefndir, er að gefa ítarlega lýsingu á aðferð við útfærslu og eftirfylgni af greiningu á áhættu og áfallaþoli sem uppfyllir þær kröf­ur sem gerðar eru til þessara aðila, eins og fram kemur í lögum nr. 82/2008 um al­manna­varnir. Leiðbeiningarnar eru staðfærsla og þýðing Almannavarna á norsku skýrsl­unni Veileder for Fylkesmannens arbeid med risiko- og sårbarhetsanalyser (fylkesROS).

Hulda Vigdísardóttir sá um yfirferð á málfari.

 

Reykjavík, október 2021

Elísabet Pálmadóttir verkefnastjóri


 

1.  Inngangur

 

Sýslumenn[1] fara með framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, hver í sínu um­dæmi, eftir því sem lög og reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Í þessu felst sú meginstefna að skrifstofur sýslumanna séu stjórnsýslumiðstöðvar ríkisins í hér­aði. Eins og aðrar undirstofnanir ráðuneyta þurfa sýslumenn að kanna áfallaþol þess hluta ís­lensks samfélags sem fellur undir starfssvið þeirra. Hafi almannavarnanefndir ver­ið sam­ein­aðar, þarf að gera sameiginlega greiningu á áhættu og áfallaþoli fyrir það lands­svæði sem um ræðir. Einnig þarf að koma til samvinnu einstakra sveitarfélaga vegna sam­eigin­legrar hættu.

Aðrar undirstofnanir hafa sambærilegar skyldur, bæði á landsvísu og í héraði. Nærtæk dæmi um það eru t.d. Samgöngustofa með ábyrgð á samgönguöryggi, Orkustofnun vegna orku­búskapar og Fjarskiptastofa vegna fjarskipta og netöryggis.

Tilgangur þessara leiðbeininga er að leiðbeina um gerð greiningar á áhættu og áfallaþoli fyr­ir stærri einingar og landssvæði, bæði fyrir ferli og aðferðafræði. Leiðbeiningarnar gefa góð ráð við undirbúning greiningarnar og hjálpa til við að nálgun á henni verði samræmd og einsleit fyrir stærri einingar. Mark­hópur leiðbeining­anna er t.d. sýslumaður, samein­að­ar almannavarnanefndir og aðrir aðilar sem koma að því að sam­ræma vinnu við að trygg­ja öryggi borgaranna og viðbúnað í stærri einingum eða á stærra landssvæði.

Að lokum innihalda leiðbeiningarnar stutta umfjöllun um aðferðir sem geta verið gagn­legar ef bæta þarf við grein­inguna á áhættu og áfallaþoli nánari greiningum á sér­stakri við­kvæmni eða þörf á viðbúnaði. Báðar þessar aðferðir geta m.a. hentað vel í starfi við að efla eigin undirbúning.

Nánari lýsingu á verklagi við greiningu á áhættu og áfallaþoli má finna í eftirfarandi skjöl­um:

   Greining hættusviðsmynda (Almannavarnir 2021)

   Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallaþoli í sveitarfélaginu (Almannavarnir 2021)

Þessi skjöl fjalla um áhættugreiningar á landsvísu og í sveitarfélögum. Þó að lýsingar á ferl­um í þessum skjölum séu í meginatriðum þær sömu og þær sem koma fram hér (þ.e. í Leiðbeiningum fyrir greiningu á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar), þá er samt nokk­ur munur á. Ástæðan er sú að greiningarnar eru gerðar á mismunandi stigum í stjórn­sýsl­unni og það hlutverk sem þær eiga að þjóna er heldur ekki það sama.

1.1.    Ábyrgð og hlutverk

Greining á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar er sameiginlegur grunnur fyrir alla að­ila innan einingarinnar sem vinna með að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Í því sam­hengi er mikilvægt að meðal aðilanna sé sameiginlegur skilningur um hvaða áskoranir eru til staðar og hvaða hlutverk og ábyrgð hvíli á hvaða aðilum. Sameinaðar almanna­varna­nefndir eru í lykilstöðu til að hafa góða yfirsýn yfir viðkvæmni og getu svæðisins í heild.

Greining á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar er unnin eftir leiðbeiningum Almanna­varna í nánu samstarfi við alla þá opinberu aðila og einkaaðila sem hafa hlutverk í að tryggja öryggi borgaranna. Skýrslan um greiningu á áhættu og áfallaþoli, vinnan við hana og eftirfylgni með henni stuðla að skilvirkara samstarfi og samræmingu innan land­svæðis­ins með því að gefa:

   þekkingu á áhættu og áfallaþoli á landssvæðinu

   sameiginlega mynd af áhættu og viðkvæmni fyrir stærra landssvæði og reglubundið endurmat á þeirri stöðu er varðar öryggi borgaranna

   yfirlit yfir ábyrgð aðila á landssvæðinu, áskoranir og innbyrðis tengsl

   grunn að samstarfi um eftirfylgni með vinnu við að tryggja öryggi borgaranna í lands­skipulagi og skipulags­áætlunum

   leiðbeiningar fyrir sveitarfélög í vinnu við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað

   bakgrunn fyrir samhæfingu viðbúnaðar og æfinga á landssvæðinu

   grunn undir yfirlit yfir þörf fyrir viðbúnað og viðbragð á landssvæðinu

Í Viðauka 1 er að finna lista yfir viðeigandi aðila sem geta mögulega tekið þátt í grein­ing­unni á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar.

Á grundvelli greiningar á áhættu og áfallaþoli þarf að útbúa fjögurra ára framkvæmda­áætlun. Í framkvæmda­áætl­un­inni þarf að lýsa hvaða ábyrgð embættið ber á eftirfylgni greiningarinnar á áhættu og áfallaþoli. Fram­kvæmda­áætlun­in er einnig grundvöllur fyrir drifkrafti embættisins í eftirfylgni annarra aðila sem hafa hlutverk í að tryggja öryggi borg­aranna og viðbúnað. Framkvæmdaáætlunina þarf að festa í sessi í stjórnun embættisins.

Þegar framkvæmdaáætlunin er rædd í neyðarstjórn[2] þarf að leggja áherslu á hver ábyrgð svæðisbundins starfs við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað er; þ.e. hvaða lög­bundnu og faglegu skyldur hvíla á einingunni. Einnig þarf að benda á ábyrgð á eigin við­bún­aði. Eftir það þurfa aðilar að viðkomandi neyðarstjórn að tryggja að úrbætur (forvarnir og ráðstafanir) séu festar í sessi í stjórnun og skipulagi í eigin starfsemi.

Framkvæmdaáætlunina þarf að uppfæra árlega, bæði innanhúss í embættinu og með yfir­ferð á stöðu í neyðar­stjórn.

2.  Hugtök

 

Eftirfarandi hugtök eru notuð í þessum leiðbeiningum:

Afleiðingar: Hugtakið á við um áhrif atviks á samfélagsleg verðmæti. Afleiðingar eru gerð­ar mælanlegar með því að skilgreina flokka afleiðinga og viðmið.

Áhætta: Hugtakið fjallar alltaf um eitthvað sem getur gerst í framtíðinni og býr þar með yf­ir óvissu. Óvissan tengist því hvort tiltekið óæskilegt atvik muni eiga sér stað og hvaða af­leið­ingar það muni hafa. Til að lýsa áhættu eru hugtök eins og líkur, afleiðingar, við­kvæmni og óvissa notuð. Þannig er hugtakið byggt á þeim skilningi að um sé að ræða mögu­leg óæskileg atvik með tilheyrandi afleiðingum fyrir verðmæti. Óvissa ríkir um hvort at­vikið eigi sér stað og hvaða afleiðingar það muni hafa, þ.e. áhætta er möguleiki á að óæski­leg atvik gerist og að tjón verði af því.

Forvarnir: Hugtakið er notað yfir úrbætur (þ.e. ráðstafanir) til að draga úr möguleika á óæski­legu atviki eða til að draga úr afleiðingum mögulegs atviks áður en það á sér stað.

Greining á áhættu og áfallaþoli: Slík greining felst í mati og lýsingu á hversu líklegt atvik er, þ.e. hvort það muni eiga sér stað og hvaða afleiðingar það kann að hafa. Greining á áhættu og áfallaþoli er alltaf huglæg og fer eftir þeirri þekkingu sem til er um efni grein­ing­arinnar og þeim sem greina. Óvissunni í greiningunni er lýst með því að útskýra stöðu þeirrar þekkingar sem er grundvöllur greiningarinnar og næmi niðurstaðna fyrir breyt­ing­um á forsendum. Greiningin þarf einnig að innihalda mat á áhættu og tillögur um úr­bætur (þ.e. forvarnir og ráðstafanir) til að draga úr áhættunni.

Kerfi: Hugtakið getur t.d. verið notað um almannavarnaumdæmi, orkudreifing á afmörk­uðu landssvæði, sveitar­félag, fyrirtæki eða eitt tölvukerfi. Innan kerfis geta verið undir­kerfi eins og raforkudreifing, dreifing heits vatns, vegir o.s.frv.

Líkur: Hugtakið er notað yfir mælikvarða á hversu líklegt  tiltekið atvik er talið, miðað við þá þekkingu sem er til staðar.

Samfélagslega mikilvæg verkefni: Verkefni eru skilgreind sem mikilvæg ef missir þeirra gæti haft alvarlegar afleiðingar. Þau eru nauðsynleg til að sinna grunnþörfum íbúa og sam­fé­lags og öryggistilfinningu íbúanna. Grunnþarfir eru skilgreindar sem matur, vatn, hiti, ör­yggi og þess háttar. Aðstaðan og kerfin sem nauðsynleg eru til að viðhalda mikil­vægum verk­efnum samfélagsins eru kallaðir mikilvægir innviðir en samfélagslega mikilvægum verk­efnum er lýst nánar í skýrslunni Mikilvægu verkefnin í samfélaginu. Þau einkennast af því að ef bilun eða brestir koma upp, gæti það fljótt leitt til tjóns eða missis á starfsemi og því er sérstaklega mikilvægt að forðast truflanir.

·   Tímatakmarkanir: Hugtakið er eingöngu notað um verkefni sem samfélagið get­ur ekki verið án í sjö daga eða skemur án þess að það ógni öryggi íbúa og/eða öryggiskennd þeirra.

·   Gert er ráð fyrir að atvik komi upp sem hafa í för með sér þörf fyrir viðbún­að­ar­úrræði á þessu sjö daga tímabili.

Starfsgeta (e. functional capability of society): Hugtakið á við mikilvæga virkni en orðið geta er yfirleitt notað í sömu merkingu og hæfni[3] en í því felst hæfileiki og frammistaða.[4] Á sviði almannavarna gefur starfsgeta til kynna hvað samfélagið verður að gera ráð fyrir að geta viðhaldið, nánast sama hvað gerist.

Verðmæti í samfélaginu: Í samfélaginu eru ýmis verðmæti sem það vill vernda en í skýrsl­unni Greining hættusviðsmynda (Almannavarnir, 2021) eru eftirfarandi flokkar sam­fé­lags­legra verðmæta sem taka mið af þörfum borgaranna notaðir:

·   líf og heilsa

·   náttúra og menning

·   efnahagur

·   stöðugleiki

·   lýðræðisleg gildi og stjórnun

Flokkarnir geta gegnt hlutverki útgangspunkts fyrir mat á því hvaða verðmæti eigi að nota sem grunn í greiningu á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar.

Viðbúnaður (e. preparedness): Hugtakið á við um skipulagðar og undirbúnar ráðstafanir sem gera ráðuneyti eða viðkomandi aðila kleift að takast á við óæskileg atvik og neyð svo að afleiðingarnar verði sem minnstar og endurreisn sem hröðust.

Viðkvæmni: Hugtakið er notað um þann vanda sem kerfi verður fyrir þegar óæskilegt atvik verður og gerir því erfitt fyrir um að starfa eðlilega sem og þau vandamál sem tengjast endurreisn eðlilegrar starfsemi eftir að atvikið hefur gerst. Viðkvæmni í kerfinu getur bæði haft áhrif á líkur á atviki og afleiðingarnar þess.

Öryggi samfélagsins: Geta samfélagsins til að vernda samfélagið og borgarana sem og takast á við atvik sem ógna grundvallarverðmætum og -verkefnum og stofna lífi og heilsu í hættu. Slík atvik geta átt upptök sín í náttúrunni, verið afleiðing tæknilegra eða mann­legra mistaka eða vísvitandi aðgerða.


 

3.  Greining á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar

 

3.1.    Greining skipulögð og fest í sessi

Ábyrgðaraðili greiningarinnar (þ.e. yfirstjórnandi þeirrar stærri skipulagseiningar sem um ræðir) leiðir verkið með greiningu á áhættu og áfallaþoli. Eignarhald ferlisins og skjalsins verður að vera skýrt í skipulagi einingarinnar. Almannavarnir mæla með því að verkið sé skipulagt sem verkefni. Einn af stjórnendum einingarinnar þarf að hafa hlutverk sem eigandi verkefnisins. Að auki skipar ábyrgðaraðili verkefnisstjóra og verkefnahóp. Í verk­efna­hópnum þurfa ýmis fagsvið að eiga sinn fulltrúa. Þetta gefur þverfaglega nálgun og góða festingu í sessi á svæðinu sem á í hlut. Mikilvægir samstarfsaðilar þurfa einnig að geta tekið þátt í verkefnahópnum en það er mikilvægt að hópurinn verði ekki of stór.

Greiningin fer fram í nánu samstarfi við svæðisbundna aðila. Neyðarstjórn þarf að taka þátt og sömuleiðis aðilar sem ekki eru hluti af þeirri stjórn. Dæmi um slíka aðila eru önnur yfir­völd, mikilvæg sveitarfélög, sjálfboða­liða­samtök og einkafyrirtæki.

Einnig er hægt að stofna innri eða ytri stýrihóp. Ef farin er sú leið að hafa innri stýrihóp, þarf að setja á laggirnar utanaðkomandi viðmiðunarhóp. Sameinuð almannavarnanefnd get­ur t.d. verið utanaðkomandi stýrihópur eða utanaðkomandi viðmiðunarhópur.

3.2.    Tilgangur, afmörkun, aðferð og ferli

Eigandi verkefnisins þarf að útbúa umboð fyrir verkið. Í umboðinu þurfa að koma fram skýrt mótaður tilgangur og afmörkun fyrir greininguna, tímaáætlun og lýsing á skipulagi starfsins. Að auki þarf umboðið að nefna aðrar for­sendur sem eigandi verkefnisins byggir á. Þetta getur t.d. átt við um hverjir eiga að taka þátt, hvernig þátttakan á að eiga sér stað og hvaða kröfur eru gerðar til skýrslugerðar.

Verkefnahópurinn þarf í upphafi að:

   koma sér saman um skilning á hugtökunum áhætta og viðkvæmni

   velja aðferð við greininguna

   ákveða hvað viðeigandi þekking sé

   búa til fundaáætlun og áætlun um aðkomu ýmissa utanaðkomandi aðila

   festa vinnuna í sessi hjá utanaðkomandi aðilum og tryggja þátttöku þeirra

   taka ákvörðun um aðferðafræðilegar spurningar eins og hvernig setja eigi fram líkur og hvaða samfélagslega mikilvægu verkefni og flokka afleiðinga eigi að leggja til grund­vallar greiningunni

Mynd 1 hér að neðan sýnir skrefin í framkvæmd áhættugreiningar en þeim er lýst nánar í 5. kafla.

Mynd 1: Skrefin í greiningu á áhættu

Áherslur og nýting auðlinda í hinum ýmsu skrefum á Mynd 1 fer eftir því hvers konar viðfangsefni á að greina, hve margir koma að greiningunni og hverjir hafa þá hæfni sem nauð­synleg er til að hægt sé að gera greininguna. Í mörgum tilfellum eru skil milli skref­anna óljós.

Hluta greiningarinnar þarf að vinna á greiningarfundum, þar sem aðilar með mismunandi þekkingu og reynslu taka þátt. Mikilvægi greiningarfundarins (eða greiningarfundanna) fer eftir því hversu flókin málin sem á að skoða eru. Almennt má segja að ef málin eru tiltölulega einföld og hæfni meðal þeirra sem taka þátt í greiningarfundinum er mikil, þá er hægt að gera mikið af greiningunni á fundinum sjálfum. Ef um er að ræða flóknari mál þar sem þekkingu er ábótavant eða hún dreifist yfir mörg fagsvið, verður vinna við að afla upplýsinga bæði fyrir og eftir greininguna mikilvæg.

Í Viðauka 1 er listi yfir aðila sem geta komið að greiningu á áhættu og áfallaþoli stærri eininga.

3.3.    Gæðakröfur

Til þess að greining á áhættu og áfallaþoli hafi tilætluð gæði og notagildi er mikilvægt að:

   greiningin á áhættu og áfallaþoli sýni heildarmynd af öllum áhættum fyrir eininguna sem þýðir að ekki má sleppa neinum atvikum þar sem samanlögð áhætta verður mikil

   greiningin innihaldi mat á viðkvæmni fyrir samfélagslega mikilvæg verkefni

   áhættu og viðkvæmni sé lýst á samræmdan hátt, svo að hægt sé að setja ólík óæskileg atvik í samhengi en greiningin þarf að gefa grunn fyrir mat og röðun áhættu (og þar með viðkvæmni)

   um sé að ræða greiningu en ekki bara lýsingu á staðreyndum en greiningin þarf að benda á hvaða þættir stuðli að áhættunni og hún þarf að leiða af sér tillögur um eftirfylgni

   matið sem gert er sé gegnsætt, þ.e. að þekkingin og upplýsingarnar sem eru notaðar og forsendur matsins séu skýrar

Í Viðauka 7 koma fram nánari upplýsingar um væntingar til gæða í þeirri vinnu sem gerð er við greiningar á áhættu og áfallaþoli.

4.  Almannavarnahringrásin

 

Almannavarnahringrásin sýnir heild og samhengi almannavarnastarfsins. Greining á áhættu og áfallaþoli er hluti af fyrsta lið hringrásarinnar en hún er mikilvæg til að fá fram nægjan­lega yfirsýn og þekkingu til að vinna með aðra þætti hringrásarinnar. Niðurstöður grein­ingarinnar á áhættu og áfallaþoli leiða til úrbóta sem eiga að koma í veg fyrir óæski­leg atvik og eru forsenda þess að koma á fót viðbúnaði sem og á annan hátt styrkja getuna til viðlaga­stjórn­unar ásamt hæfninni til skjótrar endurreisnar eftir atvik.

 

Chart, bar chart

Description automatically generated

Mynd 2: Almannavarnahringrásin - Greining á áhættu og áfallaþoli tilheyrir liðnum Yfirlit

Forvarnir snúast um að draga úr líkum á að óæskileg atvik gerist. Forvarnir geta einnig ver­ið miðaðar að því að draga úr afleiðingum atviksins, ef það gerist engu að síður. Dæmi um forvarnaraðgerðir eru viðhorfsskapandi vinna, landsskipulag, skipulagsáætlanir og örygg­is- og varnarráðstafanir.

Viðbúnaður snýst um að auðvelda gott viðbragð vegna atviksins, ef það á sér stað, svo að af­leið­ingarnar verði sem minnstar. Viðbúnaðaraðgerðir geta t.d. verið áætlanir um við­vör­un, neyðaráætlanir, fyrirkomulag vakta, geymsla tækja og efna. Æfa verður viðbúnað og viðbragð og meta æfingarnar. Matið stuðlar aftur að eflingu þekkingar.

Áhættustýring er hugtak sem notað er á ýmsum sviðum, t.d. innan markmiðs- og ár­angursstjórnunar sem og fjár­mála­stjórnunar en hugtakið er einnig notað á sviði al­mannavarna. Greiningar á áhættu og áfallaþoli eru hluti af áhættu­stjórnunarferlinu en áhættustjórnun gerir ráð fyrir að greinandinn hafi tól til að geta haft áhrif á áhættuna. Þeg­ar kemur að því að tryggja öryggi borgaranna er ábyrgð á aðgerðum gjarnan dreift á nokkra aðila. Þess vegna get­ur ábyrgðaraðili greiningarinnar aðeins sinnt áhættustjórnun innan síns ábyrgðarsviðs. Í tengslum við aðra að­ila hefur ábyrgðaraðili greiningarinnar ein­göngu hlutverk tengd leiðsögn og samhæfingu.

Hægt er að lesa meira um áhættustjórnun í staðlinum ISO 31000 Risk management – Guide­lines. Aðferðinni er lýst í Viðauka 6.

5.  Framkvæmd greiningarinnar

 

5.1.    Undirbúningur

5.1.1.    Þekking

Vinnan við greininguna þarf að byrja á því að safna upplýsingum sem skipta máli fyrir mat á áhættu og viðkvæmni á landssvæðinu. Upplýsingarnar þurfa að gefa greinagóða lýsingu og mynda grunn að kortlagningu á hættunni og ógnunum sem geta haft áhrif á kerfið[5].

Þekkingin getur t.d. falist í eftirfarandi:

   þemakort frá ríkisstofnunum, t.d. yfir skriður og flóð

   þekking á fyrirtækjum sem sinna samfélagslega mikilvægum verkefnum eða starfsemi sem getur skapað hættu fyrir umhverfið, t.d. starfsstöðvar sem falla undir stór­slysa­reglu­gerðina

   yfirlit yfir mikilvæga innviði:

·   flutningskerfi og dreifiveitur vegna rafmagnsdreifingar og dreifingar heits vatns

·   tengi- og skiptipunkta netvirkja og stafræn grunnvirki

·   mikilvæg samgöngumannvirki (vegir, línur, fyrir flugumferð, fyrir umferð á sjó)

·   vatnsveitur sem þjónusta mörg sveitarfélög (og aðrar stórar vatnsveitur)

   lýðfræðilegar aðstæður

   veðurskilyrði

   áhrif loftslagsbreytinga

   jarðvegsaðstæður

   greiningar á áhættu- og viðkvæmni frá sveitarfélögum og ríkisstofnunum

   annað viðeigandi áhættu- og viðkvæmnimat sem og mat á ógnum

   önnur skjöl sem veita mikilvægar bakgrunnsupplýsingar um kerfið

Í Viðauka 2 og Viðauka 3 er að finna yfirlit yfir hvaðan upplýsingar koma. Í Viðauki 4 eru dæmi um aðstæður sem hægt er að setja í lýsingu á kerfum.

Nauð­synlegt er að leggja mat á þær upplýsingar sem er safnað. Upplýsingar sem er bæði sann­gjarnt og eðlilegt að fara leynt með, þarf að flokka sem slíkar; sjá nánar áttunda kafla þess­ara leiðbeininga.

5.1.2.    Greining óæskilegra atvika

Byggt á lýsingu kerfisins (þ.e. landssvæðinu) þarf að bera kennsl á möguleg óæskileg atvik og síðan greina þau. Hægt er að flokka möguleg atvik eftir því hvaða tegund atvika þau til­heyra (t.d. hvort þau eru óviljandi, viljandi, náttúruvá, slys eða afleidd atvik). Að auki þarf að taka fram hvaða tegundir afleiðinga (þ.e. tjón á verðmætum) á að greina.

Greining á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar þarf bæði að innihalda atvik sem geta átt sér stað hjá viðkom­andi einingu og afleiðingar atvika sem eru á landsvísu, eru alþjóð­leg eða eiga upptök á öðru landssvæði. Lands­svæði sem verða fyrir atvikunum sem fara yf­ir landfræðileg mörk einingarinnar geta sameinast um að greina slík atvik. Af­leið­ing­un­um þarf þó engu að síður að lýsa fyrir hverja einingu fyrir sig.

Heimildir til að bera kennsl á óæskileg atvik geta verið:

   skýrslan Greining hættusviðsmynda (Almannavarnir, 2021)

   annað mat á viðkvæmni og ógnum sem unnið hefur verið í viðkomandi lögreglu­um­dæmi

   greining á áhættu og áfallaþoli í sveitarfélögum

   greining á áhættu og áfallaþoli fagstofnana, t.d. Geislavarnir ríkisins, Orkustofnun, Fjar­skipta­stofa og Land­helgis­gæsla Íslands

   greining á áhættu og áfallaþoli annarra opinberra aðila og einkaaðila

   aðrar greiningar sem innihalda upplýsingar um áhættuþætti

   eftirlitsskýrslur og mat á æfingum og atvikum

Greining hættusviðsmynda fjallar um og greinir atvik á landsvísu. Sum atvik sem fjallað er um þar, t.d. heimsfar­aldur eða kjarnorkuslys erlendis, geta haft jafnmikil áhrif á allt land­ið, önnur atvik geta verið mismunandi eftir lands­svæðum, meðan enn önnur, t.d. skriður, eiga við á sumum landssvæðum en ekki öðrum. Þegar borin eru kennsl á óæskileg atvik er mikilvægt að vera meðvitaður um þróun hættu og ógna. Atvik sem tengjast t.d. lofts­lags­breytingum og því að samfélagið verður sífellt háðara stafrænni starfsemi og þjónustu verða æ líklegri.

Yfirferð á þeim upplýsingum sem eru tiltækar gefur grundvöll til að teikna upp grófa mynd af áhættunni til bráða­birgða. Hugsanleg atvik eða áhættuaðstæður er auðveldlega hægt að flokka saman. Þetta geta t.d. verið veður, skriður, smitsjúkdómar, stafræn atvik o.s.frv. Inn­an hvers áhættusviðs eru síðan valin atvik til frekari greiningar. Þessi atvik eru greind nánar í greiningu á áhættu og áfallaþoli.

Viðmið sem hægt er að nota til að velja atvik til ítarlegri greiningar eru t.d. eftirfarandi:

   Þörf er á aukinni þekkingu um áhættu tengda atvikinu.

   Áhættan er talin tiltölulega mikil.

   Atvikið getur haft miklar afleiðingar fyrir íbúa.

   Atvikið hefur áhrif á fleiri en eitt málefnasvið/ábyrgðarsvið og þarfnast samræmingar.

   Atvikið er áskorun fyrir daglegan viðbúnað í sveitarfélögunum og fyrir viðbragðsaðila í landshlutanum.

   Mikil óvissa er tengd orsökum, framvindu og afleiðingum atviksins.

   Íbúar hafa áhyggjur af atvikum af þessu tagi.

   Atvikið getur ógnað samfélagslega mikilvægum verkefnum.

   Atburðarásin er flókin og hefur mörg möguleg afleidd atvik.

   Áhrif núverandi hindrana (þ.e. forvarna, ráðstafana) eru óviss.

   Þörf er á uppfærðu áhættumati vegna breyttra forsendna.

5.1.3.    Afleidd atvik

Af markmiðum laga um almannavarnir má ráða að brestir í samfélagslega mikilvægum verkefnum þurfa að vera með í greiningunni. Almannavarnir hafa skilgreint fjórtán slík verkefni og sundurliðað þau í fjörutíu hluta sem kallaðir eru starfsgetur en í skjalinu Mikilvæg verkefni í samfélaginu (Almannavarnir 2021) er að finna tilheyrandi skýringar og afmörkun hverrar getu fyrir sig. Geta á við um hæfni eða hæfileika til að standa undir þjónustu, viðbúnaði eða viðbragði  

Viðkvæmni í samfélagslega mikilvægum verkefnum er í mörgum tilfellum einnig innifalin sem þáttur í greiningu á tegundum atvika eða sviðsmyndum.

Samfélagslega mikilvægt verkefni

Geta

Samfélagslega mikilvægt verkefni

Geta

1. Stjórnun og viðlagastjórn

1.1 Ríkisstjórn, ráðuneyti, stofnanir og stjórnsýsla

6. UT-öryggi

6.1 Öruggar skrár,
skjalasöfn o.s.frv.

1.2. Viðbúnaður og viðlagastjórn

6.2 Persónuvernd

2. Þjóðaröryggi

2.1 Eftirlit og upplýsingaöflun

6.3 Stjórnun atvika
í upplýsinga- og samskiptakerfum

2.2 Forvarnir

7. Náttúra og umhverfi

7.1 Mengunarviðbúnaður

2.3 Varnir ríkisins

7.2 Veðurþjónusta

3. Lög og regla

3.1 Réttaröryggi

7.3 Vöktun á jarðskjálftum, landrisi, flóða- og skriðuhættu

3.2 Barátta gegn glæpum

8. Afhendingaröryggi

8.1 Matarframboð

3.3 Rannsókn og saksókn

8.2 Eldsneytisframboð

3.4 Friður og regla

9. Vatn og frárennsli

9.1 Framboð á neysluvatni

3.5 Landamæraeftirlit

9.2 Meðhöndlun frárennslis

3.6 Öryggi fangelsa og stofnana

4. Heilsa og velferð

4.1 Heilbrigðisþjónusta

10. Fjármálaþjónusta

10.1 Fjármálamarkaðurinn

10.2 Fjármálaviðskipti

10.3 Greiðslumiðlar

4.2 Velferðar- og félagsþjónusta

11. Dreifing á heitu vatni og rafmagni

11.1 Dreifing á rafmagni

4.3 Lýðheilsuþjónusta

11.2 Dreifing heits vatns

4.4 Geislavarnir

12. Fjarskiptanet og þjónusta

12.1 Netþjónusta
(Ecom-þjónustur)

5. Björgunarþjónusta

5.1 Björgunarviðbúnaður

12.2 Öryggi í rafrænum samskiptum

5.2 Slökkvilið

13. Samgöngur

13.1 Flutningsgeta

5.3 Almannavarnir

13.2 Örugg flutningskerfi

13.3 Öruggar samgöngur

5.4 Viðbúnaður við efnaslysum og sprengiefnaslysum

14 Gervihnattaþjónusta

14.1 Gervihnattaþjónusta

Tafla 1: Yfirlit yfir samfélagslega mikilvæg verkefni og getu, byggt á skjalinu Mikilvæg verkefni í samfélaginu (Almannavarnir 2021)

Sennilega eru langtímabrestir og langtímabilanir í raforkudreifingu og rafrænum samskiptum þau atvik sem hafa mestar afleiðingar og því þurfa þau að vera með í öllum greiningum á áhættu og áfallaþoli.

Almannavarnir telja að almennt sé þörf fyrir aukna vitund um viðkvæmni sem tengist því að samfélagið verður æ háðara stafrænni þjónustu og stafrænum virðiskeðjum. Einnig er mikilvægt að þróun á áhættum sem tengjast loftslagsbreytingum fái næga athygli.

Auk þess verður ábyrgðaraðili greiningarinnar að vera meðvitaður um ábyrgð einingarinnar innan samfélagslega mikilvæga verkefnisins stjórnun og viðlagastjórn.

Ábyrgðaraðili greiningarinnar verður einnig að ákveða hvernig greiningin fjallar um atvik tengd þjóðaröryggis­mál­um. Slík mál geta haft áhrif á greininguna í ýmsu samhengi. Notkun erlends ríkis á herafla gegn íslensku yfirráða­svæði væri hægt að taka með sem eina gerð atvika í greiningunni. Sama gildir um árásir á samfélagslega mikilvæg verkefni með svokallaðri blandaðri (e. hybrid) valdbeitingu þar sem aðgerðirnar beinast fyrst og fremst gegn virkni samfélagsins.

Greiningin þarf að fela í sér mat á svæðisbundinni áhættumynd þjóðaröryggismála. Ýmsar stofnanir hafa mikil­vægt hlutverk fyrir þjóðaröryggi landsins og þörf getur verið á að hafa í huga samstarf aðila vegna þessa mála­flokks.

Greininguna á áhættu og áfallaþoli þarf að nota til að kortleggja þær þarfir sem eru fyrir stuðning vegna atvika sem tengjast þjóðaröryggismálum og neyð sem varðar þjóðar­öryggi sem og hugsanleg vopnuð átök á viðkomandi landssvæði. Að auki þarf greiningin að innihalda mat á því hvaða afleiðingar atvik af þessu tagi muni geta haft fyrir samfélagið.

Önnur atvik og sviðsmyndir þarf að velja út frá aðstæðum á svæðinu og þeim viðmiðunum sem lýst er hér að framan.

5.1.4.    Mótun sviðsmynda

Almannavarnir mæla með að greining á áhættu og áfallaþoli fyrir stærri einingar fari fram sem greining á sviðsmyndum. Sviðsmynd er lýsing á einu tilteknu atviki innan áhættu­sviðs, sbr. Mynd 3. Með því að nota sviðsmyndir fæst betri grundvöllur til að greina mögu­leg afleidd atvik og setja stærðargráður á afleiðingarnar en með almennari nálgun. Ókost­ur­inn er sá að matið tengist þeim forsendum sem lagðar eru til grunns og á því aðeins full­komlega við fyrir þetta eina atvik. Hægt er að bæta úr þeim ágalla með því að leggja mat á hvort hægt sé að yfirfæra atvikið á sambærilegar aðstæður annars staðar á lands­svæðinu, þ.e. með því að setja atvikið í samhengi. Þá er t.d. hægt að hafa hugfast á hve mörg­um öðrum stöðum á landssvæðinu þetta getur atvik átt sér stað og hvaða aðrar svip­aðar aðstæður þurfi að undirbúa viðbúnað fyrir. Í kafla 5.2.7 má finna umfjöllun um mat á því hvort hægt sé að yfirfæra atvik á sambærilegar aðstæður annars staðar.

Mynd 3 sýnir tengsl áhættusviðs, atviks og sviðsmyndar. Á áhættusviði geta verið nokkrar gerð­ir atvika. Innan hverrar gerðar atviks er hægt að lýsa einni eða fleiri sviðs­mynd­um.

Það fylgja ýmsar áskoranir því að hanna sviðsmyndir. Innan allra gerða atvika eru alvarlegustu atvikin ólíklegust og öfugt. Mikilvægt er að gera ráð fyrir að sviðsmyndirnar sem valdar eru, ögri getunni til að ráða við atvikið. Á sama tíma mega líkurnar ekki að vera of litlar. Í hverju tilviki þarf að ákveða hvar leggja á línuna. Erfitt er að meta lík­ur­nar á vísvitandi atvikum og þær geta breyst hratt og óvænt.

Mynd 3: Samhengi milli áhættusviðs, atviks  og sviðsmyndar

 

Í skjalinu Greining hættusviðsmynda (Almannavarnir 2021) hefur greiningum á tuttugu og fimm mismunandi atvikum verið safnað. Sú skýrsla getur verið útgangspunktur fyrir val á gerðum atvika fyrir greiningu á áhættu og áfallaþoli. Í sumum sviðsmyndunum skýrsl­unnar eru áhrif atvikanna nánast eins, sama hvar á landinu þau gerast. Slíkar sviðsmyndir er hægt að nota óbreyttar fyrir hvaða svæði sem er. Fyrir aðrar sviðsmyndir er hægt að draga úr umfangi atviks og laga að aðstæðum eftir því sem við á. Líkurnar á að atvik eigi sér stað á ákveðnu landssvæði eru í mörgum tilfellum verulega minni en á landsvísu eða á því svæði sem notað er sem dæmi í skýrslunni. Ef útgangspunkturinn er atvik í greiningu á áhættu og áfallaþoli hjá sveitarfélagi er þessu öfugt farið. Atvikið er þá líklegra til að gerast á stærra svæði. Í slíkum tilvikum getur þurft að auka umfang atviksins.

Lýsing á sviðsmynd þarf að fela í sér eftirfarandi:

   lýsing á aðalatviki (þ.e. styrkur, tímalengd og umfang)

   upphafsatvik, atvik sem gerast samtímis og afleidd atvik

   landfræðileg staðsetning og lýsing á viðkomandi svæði sem verður fyrir áhrifum (þ.e. stað­setning, umfang, uppbygging, íbúar o.s.frv.)

   tími atviks (þ.e. árstíð, vinnudagur/almennur frídagur, tími) að því marki sem það getur haft áhrif á líkur og/eða afleiðingar

   veðurskilyrði að því marki sem það getur haft áhrif á afleiðingar

Að auki verður lýsingin á sviðsmynd að innihalda aðrar mikilvægar forsendur greining­ar­innar. Lýsingin verður að vera svo ítarleg að hún gefi góðan grunn til að ákvarða líkur og af­leið­ing­ar á áþreifanlegan og eins mælanlegan hátt og mögulegt er. Hins vegar geta nýjar upp­lýs­ing­ar komið fram síðar sem geta haft áhrif á niðurstöður greiningar­innar en slíkt á sér­stak­lega við með tilliti til afleiddra atvika, viðkvæmni og mögulegra úrbóta.

5.1.5.    Verðmæti í samfélaginu og tegundir afleiðinga

Afleiðingar óæskilegra atvika þarf að mæla út frá tjóni á samfélagslegum verðmætum. Til að ákveða hvaða afleiðingar á að meta í greiningunni á áhættu og áfallaþoli þarf að skil­greina hvaða samfélagslegu verðmæti á að vernda. Lýsa þarf afleiðingunum sem áþreif­anlegum stærðum sem auðvelt er að skilja og sjá, t.d. fjölda, umfangi og tímalengd. Fyrir not­endur skýrslunnar er erfiðara að taka afstöðu til óskilgreindra samheita eins og litlar, með­alstórar eða miklar afleiðingar gefa til kynna.

Í greiningu á áhættu og áfallaþoli verður að vera ljóst hvaða verðmæti og tegundir afleið­inga eru lagðar til grund­vallar greiningunni.

Hér að neðan er yfirlit yfir samfélagsleg verðmæti og tegundir afleiðinga sem notaðar eru í Greining hættu­sviðsmynda (sjá Töflu 2). Þeim sem ber ábyrgð á greiningunni er frjálst að velja tegundir afleiðinga og hvernig afleiðing­arnar eru skilgreindar en Almannavarnir mæla með því að a.m.k. samfélagslegu verðmætin líf og heilsa, nátt­úra og umhverfi, efna­hagur og félagslegur stöðugleiki séu notuð í greiningu á áhættu og áfallaþoli og að þau séu notuð í gegnum alla greininguna og við mat á öllum atvikum.

Upplýsingar um tegundir afleiðinga og flokkun þeirra er að finna í skjalinu Greining hættusviðsmynda (Almanna­varnir, 2021) og í skjalinu Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallaþoli í sveitarfélaginu (Almannavarnir 2021).

Verðmæti í samfélaginu

Tegundir afleiðinga

Líf og heilsa

Fjöldi látinna

Fjöldi alvarlega slasaðra og veikra

Náttúra og umhverfi

Langtíma skemmdir á umhverfi

Skemmdir á menningarumhverfinu

Efnahagslíf

Beint fjárhagslegt tjón

Óbeint fjárhagslegt tjón

Stöðugleiki í samfélaginu

Félagsleg og sálfræðileg viðbrögð

Álag í daglegu lífi

Lýðræðisleg gildi og stjórnarhættir

Tap á lýðræðislegum gildum og þjóðstjórn

Missir stjórn á landsvæði

Tafla 2: Verðmæti í samfélaginu og flokkar afleiðinga í skjalinu Greining hættu­sviðs­mynda

 

5.2.    Greiningarferill

Í þessum kafla förum við yfir meginhluta greiningarferilsins, þ.e. mat á viðkvæmni, líkur, af­leiðingar, óvissu, hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættuþætti og hvort hægt sé að yfir­færa atvik á aðrar sambærilegar aðstæður annars staðar á svæðinu.

5.2.1.    Lýsing á kerfinu

Til að skilgreina hvað á að vera með í greiningu þarf að gera kerfislýsingu. Lýsingin gefur yfir­lit yfir mikilvæga þætti samfélagsins, verkefni eða innviði sem greiningin snýst um.

Horft er eftir atriðum sem geta haft áhrif á eftirfarandi:

   hvort atvik eigi sér stað

   atburðarás

   afleiðingar atviks

Þetta felur í sér hvaða hindranir hafa verið settar upp til að draga úr líkum á atvikinu, hvaða afleiddu atvik atvikið getur kallað fram og hvaða hindranir geta dregið úr um­fangi af­leið­inganna. Kerfislýsingin leggur grunninn að mati og lýsingu á viðkvæmni, sbr. kafla 6.3.2.

Kerfislýsing felur einnig í sér mat á því hvað háð því sem brestur eða bilar; t.d. hvaða önnur samfélagslega mikilvægu verkefni það hefur þetta áhrif á ef rafmagn fer og hvaða afleiðingar það getur haft.

Á Mynd 4 er að finna slaufuskýringarmynd sem getur verið gott tæki til að skipuleggja greininguna og stuðla að einsleitni í notkun hugtaka í greiningunni. Líkanið sýnir eftirfarandi atburðarás: Á vinstri hluta myndarinnar má sjá upphafsatvik með tilheyrandi hindrunum til að draga úr líkum á að atvikið eigi sér stað en til hægri er að finna afleidd atvik með tilheyrandi hindrunum til að draga úr afleiðingum.

Líkur á að óæskilegt atvik eigi sér stað tengjast bæði umfangi og styrkleika þeirra hindrana sem draga úr líkum. Afleiðingar atviksins tengjast umfangi og styrkleika þeirra hindrana sem draga úr afleiðingum og eru til hægri á myndinni. Viðkvæmnin er að miklu leyti háð því að til séu nægar, áreiðanlegar og áhrifaríkar hindranir í kerfinu. Þannig verður viðkvæmni hindrananna mikilvægur hluti þess sem skoða þarf í áhættugreiningu.

5.2.2.    Mat á viðkvæmni

Greiningarvinna þarf að hefjast á því að fara yfir þær hindranir sem komið hefur verið á til að draga úr möguleik­anum á að óæskilegt atvik eigi sér stað og draga úr afleiðingum þess ef það kemur fyrir. Að hve miklu leyti geta hindranirnar komið í veg fyrir að tiltekið skaðlegt atvik geti átt sér stað eða haft alvarlegar afleiðingar? Hversu sterkar eru hindranirnar? Eru þær gerðar fyrir atvik af þeirri stærð sem verið er að skoða? Eru þær háðar því að tæknikerfi vinni rétt? Geta þær haft minni áhrif vegna mannlegra mistaka?

Hindranir geta tekið á sig ýmsar myndir. Þær geta verið t.d. verið eftirfarandi:

   stjórnun, t.d. í formi takmarkana á byggð eða starfsemi á svæðum þar sem hætta er á skriðum

   verklag, t.d. í formi skógareyðingar undir og meðfram raflínum

   varnargarðar fyrir hleðslur og aðrar manngerðar varnir, t.d. í formi flóðvarna

   viðbúnaður eins og viðvörunarkerfi og greining á mannafla og búnaðarþörf slökkviliðs og björgunarsveita

Þættir sem eru háðir hver öðrum eru mikilvægur hluti greiningar á viðkvæmni. Flugvellir eru t.d. bæði háðir rafmagni og samskiptum en að auki eru aðrir inntaksþættir eins og flugbrautir, eldsneyti og starfsfólk. Bilanir eða annmarkar á slíkum þáttum sem starfsemi er háð eða eru forsendur hennar geta verið það sem kemur atvikinu af stað svo að atvikið í miðju slaufuskýringarmyndarinnar gerist (sbr. Mynd 4).

Ef samfélagslega mikilvægt verkefni fellur út, getur leitt til þess að önnur verkefni bresta en slíkt er kallað keðjuáhrif eða afleidd áhrif. Við greininguna verður að skoða að hve miklu leyti hindrunum hefur verið komið upp, sem geta komið í veg fyrir slík keðjuáhrif. Hafa þeir sem bera ábyrgð á samfélagslega mikilvægum verkefnum t.d. komið upp vara­afli?

Slík greining á viðkvæmni er mikilvæg til að geta gefið til kynna bæði hversu líklegt er að atvik muni eiga sér stað og hversu miklar afleiðingar það getur haft ef það gerist.

Diagram

Description automatically generated

Mynd 4: Mat á áhættu og viðkvæmni á keðju atvika; viðkvæmni kerfisins (samfé­lags­ins) sem verður fyrir atvikinu hefur áhrif á líkur þess að atvikið eigi sér stað og af­leið­ing­arnar sem það hefur

5.2.3.    Mat á líkum

Líkur á að tiltekið óæskilegt atvik eigi sér stað eru háðar því að hve miklu leyti forsendur at­viks eru fyrir hendi. Það þarf að kortleggja hvaða forsendur það eru og að hve miklu leyti þær geta komið fyrir í kerfinu sem verið er að greina.

Almannavarnir mæla með að líkur séu gefnar til kynna með tölum en það er hægt að gera á nokkra vegu. Tölfræðilega er líkum oft lýst á kvarða frá 0 til 1, þar sem 0 táknar fullkom­lega ómögulegt og 1 táknar alveg víst. Einnig er hægt að lýsa líkum sem prósentum yfir tíma­bil (t.d. yfir eitt ár eða hundrað ár). Algengt er að nota líkur sem stærðargráðu (þ.e. líkur sem liggja á einhverju ákveðnu bili). Dæmi um þetta er að finna í viðauka við aðferða­lýs­ingu í skjalinu Greining hættusviðsmynda (Almannavarnir, 2021) Stærðargráðuna (þ.e. bil­in) þarf að aðlaga að svæðisbundnu áhættumyndinni til að draga fram muninn á líkum á milli mismunandi sviðsmynda.

Í skjalinu Greining hættusviðsmynda eru líkur á að atvik eigi sér stað metnar innan hundrað ára tímabils í prósentum. Þetta gefur stærri og auðskiljanlegri tölur en ef notast væri við líkur á ári. Tafla sem sýnir umreikning úr líkum á ári yfir í líkur innan hundrað ára er í viðauka við skjalið Greining hættusviðsmynda.

Erfitt er að bera saman líkur á vísvitandi og óviljandi atvikum. Líkur á vísvitandi atvikum eru ekki eins stöðugar og líkur á óviljandi atvikum sökum þess að forsendurnar geta breyst hratt.

Hins vegar er ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að lýsa líkum á vísvitandi atvikum en það er þó mikilvægt að vera meðvitaður um að ekki er hægt að bera líkur á slíkum atvikum saman við líkur á öðrum tegundum atvika á auðveldan hátt.

5.2.4.    Mat á afleiðingum

Þegar afleiðingar eru metnar er útgangspunkturinn í þeim samfélagslegu verðmætum sem á að vernda og þeim tegundum afleiðinga sem hafa verið skilgreindar. Fyrir hverja teg­und afleiðinga verður að tilgreina hvaða tjóni verðmætin verða fyrir.

Líf og heilsa er samfélagslegt verðmæti sem verður líklega grundvöllur allra greininga á áhættu og áfallaþoli sem fjalla um öryggi borgaranna. Missir mannslífs þarfnast ekki frek­ari skilgreiningar. Hins vegar verður að skýra heilsutap nánar. Hversu alvarlegt þarf heilsu­tap að vera til þess að það teljist með? Sumar tegundir afleiðinga getur verið krefjandi að mæla en það á t.d. við tegundir afleiðinga sem ætlað er að fanga viðbrögð íbúa við atvik­inu og að hve miklu leyti atvikið hefur áhrif á persónulegt öryggi og friðhelgi. Ein leið til að mæla slík áhrif er að nota vísbendingar í formi einkenna atviksins.

Í skjalinu Greining hættusviðsmynda (Almannavarnir, 2021) kemur fram hvernig hægt er að afmarka tegundir afleiðinga og hvernig má mæla þær. Í skjalinu Greining hættu­sviðsmynda er einkunn ákvörðuð fyrir afleiðingar á sameiginlegum mælikvarða sem gerir það mögulegt að stilla mismunandi tegundum afleiðinga saman og fá mynd af heildar­afleið­ingum og heildaráhættu. Í þessari einkunn er þó gildisval að því leyti að tap á ákveðnum fjölda mannslífa er lagt að jöfnu við t.d. tiltekið efnahagslegt tjón eða tjón á nátt­úru að vissu marki. Annað gildismat myndi gefa aðra áhættumynd.

Í skjalinu Greiningu hættusviðsmynda felur mat á afleiðingum í sér aðalatvik, öll atvik sem ger­ast samhliða og þau afleiddu atvik sem eru bein afleiðing aðalatviksins. Þetta geta verið afleidd atvik sem eru hluti af sviðsmyndinni eða atvik sem hafa komið fram við grein­ing­arferlið. Atvik sem eru afleiðing af afleiddu atviki eru ekki tekin með.

5.2.5.    Mat á óvissu

Áhættugreiningar eru gerðar vegna þess að óvíst er hvað framtíðin getur haft í för með sér. Með því að meta líkur og afleiðingar hugsanlegra atvika í framtíðinni er hægt að búa til mynd af þeirri óvissu sem lýst er sem áhættu. Þetta mat er í sjálfu sér einnig óvisst vegna þess að þekkingin á bak við það gæti verið takmörkuð. Þessi óvissa er einnig hluti af áhættumyndinni. Í greiningu á áhættu og áfallaþoli þarf að meta og lýsa þessari óvissu en í mati á óvissunni eru eftirfarandi þættir skoðaðir:

   þekking sem liggur að baki mati á líkum og afleiðingum

   hversu viðkvæmar niðurstöðurnar eru fyrir breytingum á forsendum (þ.e. næmi)

Hægt er að meta þá þekkingu sem liggur að baki á grundvelli eftirfarandi þátta:

   aðgengi að viðeigandi gögnum og reynslu

   skilningur á því fyrirbæri og því kerfi sem verið er að greina

   hversu sammála sérfræðingar á þessu sviði eru

Með hugtakinu næmi er átt við að hve miklu leyti greiningarniðurstaðan byggist á óvissum forsendum. Ef grein­ingar­niður­staðan breytist mikið út frá litlum leiðréttingum á for­sendum, bendir það til þess að óvissan sé mikil.

5.2.6.    Mat á því hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættuþætti

Með greiningunni fær verkefnahópurinn mynd af því hvaða hindrunum er mögulega hægt að koma á eða styrkja, til að draga úr líkum á óæskilegu atviki og/eða afleiðingum þess. Þetta getur verið útgangspunktur fyrir mat á því að hve miklu leyti sá sem ber ábyrgð á grein­ingunni og aðrir aðilar geta haft stjórn á áhættuþættinum. Hversu auðvelt er að hrinda í framkvæmd úrbótum sem draga úr líkum á að atvikið eigi sér stað eða draga úr afleið­ingum atviksins ef það gerist? Hvernig er hægt að auka viðbúnað og hversu ár­ang­ur­sríkar geta úrbæturnar verið? Eins getur þetta falið í sér mat á ávinningi úr­bót­anna, mið­að við kostnað og neikvæðar afleiðingar sem þær kunna að hafa. Verk­efna­hópur­inn þarf að leggja fram nægar upplýsingar til að auðvelda þessar umræður bæði inn­an stýri­hópsins og neyðarstjórnarinnar.

Tilgangur þess að meta hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættuþættinum er að veita aðilum viðbótartæki til að for­gangs­raða úrbótum sem eiga að koma í veg fyrir óæskileg atvik, draga úr afleiðingum og efla viðbúnað.

Í skjalinu Greining hættusviðsmynda er hugtakið möguleg minnkun áhættu notað. Hug­tak­ið hefur nokkurn veginn sama innihald og það hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættu­þætt­inum. Í Greiningu hættusviðsmynda er lagt til að kortleggja eftirfarandi atriði til að fá mynd af því hve mikið sé hægt að draga úr áhættu innan svæðisins:

   Að hve miklu leyti eru til nýjar úrbætur (þ.e. ráðstafanir) sem draga úr áhættu?

   Eru til fleiri úrbætur sem eru óháðar hver annarri ?

   Hve mikil áhrif til minnkunar áhættu hafa úrbæturnar ?

   Hversu dýrar eru úrbæturnar ?

   Hvaða jákvæðu og neikvæðu afleiðingar fylgja úrbótunum ?

   Að hve miklu leyti geta fagstofnanir sem bera ábyrgð á verkefninu ákveðið úr­bæt­urnar eða eru þær háðar ákvörðunum annarra ?

   Hve varanlegar og áreiðanlegar eru úrbæturnar ?

5.2.7.    Mat á því hvort hægt sé að yfirfæra atvik á sambærilegar aðstæður annars staðar

Greining á áhættu og áfallaþoli þarf að draga upp mynd af áhættunni sem landssvæðið í heild þarf að geta tekist á við. Það er því mikilvægt að hafa ekki aðeins kastljós á tiltekið atvik sem er staðsett á tilteknum stað, heldur einnig að meta hvort það séu önnur svæði þar sem svipuð atvik geta átt sér stað. Ef líkur á flóði í tilteknu vatnasviði hafa verið metnar er einnig áhugavert að tiltaka hvort önnur vatnasvið með svipaða flóðahættu séu til stað­ar. Ábyrgð­ar­aðili greiningarinnar þarf að taka ákvörðun um hvernig eigi að meta slíka yfir­færslu á sambærilegar að­stæður.

Í þeim greiningum sem fram koma í skjalinu Greining hættusviðsmynda eru tvær mis­mun­andi líkur settar fram. Auk þess að meta líkurnar á að tiltekin sviðsmynd muni eiga sér stað, eru líkurnar á að þessi tegund atvika eigi sér stað á landsvísu gefnar til kynna en slíkt kall­ast yfirfærðar líkur. Ef ábyrgðaraðili greiningarinnar kýs að nota yfir­færðar líkur í grein­ingu sinni á áhættu og áfallaþoli, gefur það til kynna líkurnar á því að atvikið eða sam­bæri­legt atvik eigi sér stað innan landsvæðisins.

5.2.8.    Kynning á niðurstöðum greiningarinnar

Greining á áhættu og áfallaþoli samanstendur af nokkrum undirgreiningum. Greining­arn­ar þurfa að koma fram í texta, helst með fastri uppsetningu eða eyðublaði. Dæmi um slíkt eyðu­blað er að finna í skjalinu Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallaþoli í sveitar­fé­lag­inu (Almannavarnir 2021). Hver undirgreining þarf að lýsa atburðarásinni og meta or­saka­vensl (þ.e. hvað er háð hverju) og viðkvæmni í kerfinu, líkur á atburðarás, allar líkur á svipuðum atvikum á landsvæðinu, afleiðingar innan hverrar tegundar afleiðinga, mat á óvissu, hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættuþættinum og hvort hægt sé að yfirfæra atvik­ið á sambærilegar aðstæður annars staðar og mögulegar úrbætur til að draga úr áhættu.

Ábyrgðaraðili greiningarinnar verður að meta að hve miklu leyti rétt er að taka saman niðurstöður fyrir allar undirgreiningar í töflum og myndum. Slík samantekt getur verið góður útgangspunktur fyrir umræður en því geta líka fylgt ákveðnir veikleikar. Þrátt fyrir að aðferðin sem notuð er í skjalinu Greiningu hættusviðsmynda (Almannavarnir, 2021) auðveldi samanburð á mismunandi sviðsmyndum, þá ráðast niðurstöður slíks saman­burð­ar af valinu sem gert er þegar sviðsmyndir eru skilgreindar. Innan hverrar tegundar atvika eru hugsanleg mörg mis­mun­andi afbrigði, sum mjög alvarleg sem eru ólíkleg, önnur ekki alvarleg sem eru mun líklegri og enn önnur þar á milli. Staðsetning sviðsmyndarinnar í áhættufylki mun því ekki endilega segja mikið um áhættumöguleika þessarar tegundar atvika.

Áhættufylki er einfölduð leið til að sýna niðurstöðu greiningarinnar. En skýr og auðskiljanleg framsetning segir ekki endilega neitt um gæði greiningarvinnunnar sem liggur að baki. Þrjú atriði eru mikilvæg þegar kemur að framsetningu niðurstaðna úr greiningu á áhættu og áfallaþoli:

   Niðurstöðurnar þurfa að gefa skýra heildarmynd sem sýnir mismun á áhættu milli atvika.

   Niðurstöðurnar þurfa að vera rökstuddar.

   Það þarf að vera hægt að miðla heildarmyndinni af áhættum til þeirra sem taka ákvarð­anir og annarra lesenda.

Burtséð frá því hvort kosið er að setja niðurstöður fram í töfluformi og/eða myndformi, mæla Almannavarnir með því að fara yfir og ræða niðurstöður í greiningu á áhættu og áfallaþoli. Hafi það verið hluti af greiningunni hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættunni og hvort hægt sé að yfirfæra atvikið á sambærilegar aðstæður annars staðar, þarf það einnig að koma fram í niðurstöðum. Framsetning í texta auðveldar lýsingu á því hve mikil óvissa ríkir en eins er hægt að leggja mat á það hvernig áhættumyndin mun breytast vegna væntanlegrar þróunar á komandi árum, t.d. er varðar loftslag, lýðfræði og tækni.


 

6.  Meðferð og eftirfylgni

 

6.1.1.    Mat á áhættu

Tilgangur greiningar á áhættu og áfallaþoli er að veita yfirlit yfir mikilvæg málefni sem snúa að áhættu og viðkvæmni. Greining á áhættu og áfallaþoli þarf að vera grunnur undir skipulag og ákvörðunartöku ábyrgðaraðila greiningarinnar fyrir vinnu sem snýr að því að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Sömuleiðis gefur hún Almannavarnanefnd viðkomandi svæðis mikilvægar upplýsingar fyrir þeirra skipulag og ákvarðanir. Greiningunni sjálfri verður að fylgja mat á hve alvarleg þau atriði sem hafa komið í ljós eru. Spurningin um hvaða áhættu samfélagið getur sætt sig við er í grundvallaratriðum pólitísk, þó svo að ábyrgðaraðili greiningarinnar og aðrar fagstofnanir geti haft umboð til að taka ákvarðanir innan hluta af því sviði sem þau bera ábyrgð á. Úrbætur (þ.e. ráðstafanir) sem krefjast reglusetningar eða fjárveitinga þarf að fjalla um hjá þar til bærum aðilum og ákvarðanir þurfa að vera teknar af þeim aðilum sem hafa umboð til þess. Á þessum grundvelli er hlutverk ábyrgðaraðila greiningarinnar og neyðarstjórnar fyrst og fremst að ræða, mæla með og þrýsta á um breytingar.

Áhættu er aldrei hægt að meta einangrað. Þegar forgangsraða þarf úrbótum til að draga úr áhættu verður að taka tillit til þess hvort hægt sé að hafa stjórn á áhættuþættinum; þ.e. að hve miklu leyti til eru áhrifaríkar úrbætur sem eru raunhæfar og fjárhagslega forsvaranlegar í framkvæmd. Þetta felur í sér mat á hve mikið úrbæturnar muni draga úr afleiðingum og hagkvæmni þeirra. Við mat á úrbótum þarf einnig að taka tillit til hliðaráhrifa úrbótanna og hugsanlegra árekstra við önnur markmið.

Ábyrgðaraðili greiningarinnar þarf að fjalla um hvaða áhættuþætti greiningin á áhættu og áfallaþoli hefur leitt í ljós, hversu alvarlegir þeir teljast, hverjar mögulegar úrbætur eru og hverjum þeirra er mælt með að ráðast í. Úrbætur þar sem ekki er þörf á frekari meðferð, t.d. verklag vegna samstarfs, þróun hæfni og miðlun upplýsinga er hægt að taka og fylgja eftir í framkvæmdaáætlun, meðan úrbætur sem krefjast frekari rannsókna, formlegrar meðferðar og/eða ákvarðana á öðru stigi í stjórnsýslu þarf að skoða nánar af þeim sem fara með þá ábyrgð.

Ábyrgðaraðili greiningarinnar ber meginábyrgð á því að kynna greininguna á áhættu og áfallaþoli í sveitar­félögunum og hjá öðrum aðilum á landsvæðinu.

6.1.2.    Eftirfylgni og úrbætur

Á grundvelli greiningar á áhættu og áfallaþoli gerir ábyrgðaraðili greiningarinnar fjögurra ára framkvæmdaáætlun þar sem ábyrgð hans á frekari vinnu kemur fram. Áætlunin þarf einnig að lýsa drifkrafti í eftirfylgni greiningarinnar en framkvæmdaáætlunina þarf að festa í sessi í stjórnun og hana þarf að uppfæra árlega, bæði innanhúss og með stöðufundum í neyðarstjórn.

Ef greining á áhættu og áfallaþoli afhjúpar áhættuþætti sem krefjast úrbóta (ráðstafana) sem liggja utan við ákvörð­unar­vald viðkomandi aðila þarf ábyrgðaraðili greiningarinnar að gefa þeim tækifæri til að meta þá nánar. Mikilvægt er að setja fresti fyrir þessa vinnu, t.d. sex mánuði. Ef ekki er hægt að taka ákvörðun um úrbæturnar innan þessa tímabils þarf e.t.v. að setja þær inn í framkvæmdaáætlunina síðar.

Framkvæmdaáætlun þarf að innihalda yfirlit yfir eftirtalin atriði:

   Hvaða úrbótum er mælt með til að draga úr líkum og afleiðingum?

   Hver er aðalábyrgðarmaður og hverjir aðrir eru hugsanlega ábyrgir fyrir úrbótum (þ.e. ráðstöfunum) að hluta til? Hvaða hlutverk mun ábyrgðaraðili greiningarinnar hafa í eftirfylgninni?

   Á hvaða áhættusviðum þarf hugsanlega að vera til samræmd viðbúnaðaráætlun og hver ber ábyrgð á að hafa frumkvæði að því að hún sé gerð?

   Hvaða áhættusvið/sviðsmyndir ætti að nota sem grunn að æfingum í viðbúnaði og hver ber ábyrgð á að þær æfingar séu haldnar?

   Tímarammi fyrir framkvæmd úrbóta (þ.e. ráðstafana), æfinga og gerð viðbúnaðaráætlana þarf að koma fram í yfirlitinu.

   Verklag fyrir skýrslugerð og lýsingu á stöðu úrbóta vegna framkvæmdaáætlunar þarf að koma fram í yfirlitinu.

Ábyrgðaraðili greiningarinnar þarf að taka virkan þátt í eftirfylgni framkvæmda­áætl­unar­innar, einnig vegna úrbóta sem framkvæmdar verða af öðrum. Þetta er vegna þess að ábyrgð­ar­aðilinn hefur ákveðnu hlutverki að gegna í vinnu við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað á svæðinu vegna síns málefnasviðs.


 

7.  Stutt um aðrar greiningaraðferðir

 

Að lokum eru tvær greiningaraðferðir kynntar stuttlega sem geta fyllt út í greininguna á áhættu og áfallaþoli. Í viðkvæmnigreiningu er samfélagslega mikilvægt verkefni eða þjónusta metin m.t.t. þess hvaða atvik geta leitt til bresta eða bilunar í verkefninu eða þjónustunni. Viðbúnaðargreining er gerð á grundvelli greiningar á áhættu og áfallaþoli til að kanna að hve miklu leyti viðbúnaður innan svæðis eða fagsviðs er nægur til að takast á við ákveðna sviðsmynd annars vegar og hins vegar hvað þarf til að ráða við viðbragð vegna sviðsmyndarinnar.

7.1.    Viðkvæmnigreining

Ef ætlunin er að greina sérstaklega bilun eða bresti í samfélagslega mikilvægum verk­efnum gæti hrein viðkvæmni­greining verið heppileg aðferð. Greiningaraðferðina er t.d. hægt að nota til að greina veikleika sem tengjast eigin getu við neyðarstjórnun.

Viðkvæmnigreining getur verið hluti af eða viðbót við greiningu á áhættu og áfallaþoli. Í slíkri greiningu er gerð könnun á hvað getur framkallað óæskilegt atvik. Greiningin getur verið byggð á sviðsmyndum en þá þannig að niðurstaða hverrar sviðsmyndar sé fyrir fram ákveðin. Útkoman er bilun eða brestir í tilteknu verkefni. Slíkar greiningar geta veitt þekkingu fyrir greiningu á áhættu og áfallaþoli og verið viðbót sem aðrir aðilar sem einnig þurfa að hafa viðbúnað á svæðinu geta notið góðs af.

Í viðkvæmnigreiningu er tekinn útgangspunktur í því hverju ákveðin verkefni eru háð. Greining á viðkvæmni fjarskipta lítur t.d. á hversu háð þau eru rafmagni og flutningi sem og orsakavensl ýmissa upplýsingatæknikerfa sem eru nauðsynleg til að netið geti starfað. Hér er einnig lagt mat á hversu mikil umfremd er í kerfunum sem verkefnið er háð. Þegar búið er að kortleggja hverju verkefnið er háð, eru atvik greind eftir því hvort þau geti haft áhrif á orsakavenslin og hversu sterk þessi áhrif geta verið. Hvað getur valdið rafmagns­leysi og hversu líklegt er það? Hvað getur valdið bresti á flutningi og hversu líklegt er að það gerist?

Greiningin leiðir til yfirlits yfir viðkvæmni sem þarf að meta í næstu umferð. Að hve miklu leyti er sú viðkvæmni sem hefur verð greind ásættanleg? Ef viðkvæmni er ekki viðunandi þarf að skoða úrbætur betur. Úrbæturnar geta í aðalatriðum verið þrenns konar:

   að koma á eða styrkja umfremd

   úrbætur sem geta styrkt getu þjónustunnar sem verkefnið er háð í þeim tilgangi að standast atvikið

   fyrirbyggjandi úrbætur sem miða að því að:

·   koma í veg fyrir bilun eða bresti í þjónustu sem verkefnið er háð því að fá

·   koma í veg fyrir að bilun eða brestir í þeirri þjónustu nái að hafa óæskileg áhrif á verkefnið

Viðkvæmnigreining fyrir starfsemi ábyrgðaraðila greiningarinnar getur t.d. lagt grunn að vinnu til að gera starf­semina betur í stakk búna til að starfa í alvarlegu neyðarástandi. Einn­ig er hægt að nota slíka greiningu til að skýra hvaða mannvirki og innviðir eru sér­stak­lega mikilvægir og þarf að verja komi til þess að hafa þurfi áhyggjur af stöðugleika í sam­fé­laginu.

7.2.    Viðbúnaðargreining

Ábyrgðaraðili greiningarinnar og neyðarstjórn geta fylgt greiningu á áhættu og áfallaþoli eftir með greiningu þar sem þau skoða betur hvort viðbúnaðurinn, sem þau búa yfir, ráði við eina eða fleiri skilgreindar sviðsmyndir. Greiningin þarf að byggja á sviðs­myndum úr greiningu á áhættu og áfallaþoli. Viðbúnaðargreining hentar best til að kanna getu til að takast á við atvik sem þróast yfir tíma og þar sem aðgerðir viðbragðsaðila skipta miklu máli fyrir afleiðingarnar. Systurstofnun Almannavarna í Noregi (DSB) hefur t.d. gert slíka greiningu á aðstæðum með mörgum stórum skógareldum sem gerast samtímis.[6]

A picture containing diagram

Description automatically generated

Mynd 5: Í viðbúnaðargreiningum er atburðarásin skoðuð eftir að óæskilegt atvik hefur átt sér stað. Þá er áhersla lögð á hvers kyns afleidd atvik og hindranir sem eru til staðar eða eru lagðar til og gegna því hlutverki að draga úr afleiðingum (afleiðingarnar og hindranirnar á myndinni eru dæmi).

Í viðbúnaðargreiningu er meðhöndlun atviksins kjarni málsins. Greiningin fer ítarlega í það sem gerist þegar atvikið er orðið staðreynd. Aðalspurningin sem þarf að svara er að hve miklu leyti samfélagið er í stakk búið til að mæta því atviki sem um ræðir. Ábyrgðaraðili greiningarinnar getur byrjað á því að ræða við sína samstarfsmenn um hvaða getu eigi að stefna að til að geta brugðist við. Fer það saman við eina eða fleiri sviðsmyndir í greiningu á áhættu og áfallaþoli eða þyrfti getan að vera meiri eða minni?

Fyrst þarf að skilgreina hversu alvarlegt atvik starfsemin ætlar að vera tilbúin til að takast á við en slíkt er kallað stærðarmótandi atvik.

Síðan er lagt mat á núverandi viðbúnaður, þ.e. hvaða atvik hann er gerður til að ráða við. Eins þarf að meta hvaða getu þarf til að geta tekist á við stærðarmótandi atvikið og að lokum þarf að velta fyrir sér hvaða úrbætur eru nauðsynlegar, til að takast á við stærð­ar­mót­andi atvikið.

Error! Reference source not found. sýnir sambandið á milli áhættu- og viðbúnaðargreininga. Til þess að hægt sé að lýsa stærðarmótandi atviki í viðbúnaðargreiningunni, þarf að vera til áhættugreining sem notuð er til að skilgreina hvað stærðarmótandi atvik er. Meta þarf bæði líkur og afleið­ingar til að geta greint hvers konar atvik á að vera stærðarmótandi fyrir við­búnaðinn.

Graphical user interface, diagram

Description automatically generated

Mynd 6: Mynd tekin úr staðlinum NORSOK Z-013; Greining á áhættu og viðbúnaði

Þegar kortlagningu á því hvaða atvik núverandi viðbúnaður ræður við er lokið, þarf að meta hvort viðbúnaðurinn sé einnig nægjanlegur fyrir stærðarmótandi atvikin. Ef bil er á milli núverandi og nægjanlegs viðbúnaðar, þarf að huga að úrbótum á viðbúnaði. Til þess að stærðarmóta úrbæturnar, þarf að kanna áhrif þeirra. Ef ekki er raunhæft eða fjár­hags­lega mögulegt að ná nægilegu viðbúnaðarstigi, verður að draga úr stærð stærð­ar­mótandi at­vika (draga þarf úr metnaði er snýr að því hve stór atvik viðbúnaðurinn á að ráða við).


 

8.  Gildismat á upplýsingum

 

Meta þarf hvort vernda þurfi þær upplýsingar sem safnað er saman og notaðar eru í vinnunni við greiningu á áhættu og áfallaþoli. Eins þarf að meta hvort þær séu undanþegnar upplýsingalögum þannig að ekki séu allar upplýsingar sem koma fram í greiningunni gerðar opinberar. Það eru aðallega tveir þættir sem geta haft þýðingu fyrir flokkun upplýsinga á þann hátt:

1.  Greining á áhættu og áfallaþoli getur innihaldið sviðsmynd eða upplýsingar sem fengnar eru úr áætlunum lögreglu og annarra viðbragðsaðila sem eru undanþegnar opinberri birtingu eða byggja mat sitt á grundvelli slíkra upplýsinga.

2.  Greining á áhættu og áfallaþoli getur innihaldið upplýsingar um veikleika í sam­fé­lags­lega mikilvægum verkefnum og/eða mikilvægum innviðum sem eru svo ítarlegar að upplýsingarnar geta nýst af erlendum ríkjum eða öðrum aðilum til að ógna öryggi.

Lögreglan þarf að hafa yfirsýn yfir veikleika í samfélaginu. Að auki getur ábyrgðaraðili greiningarinnar haft hlutverk ásamt öðrum aðilum í viðbúnaði við hluti sem þarf að vernda í aðstæðum með hækkuðu ógnarstigi. Yfirferð á því hve háð mikilvæg verkefni og mikil­vægir innviðir eru öðrum þáttum og önnur viðkvæmni þeirra gefur góðan grunn fyrir þessa yfirsýn.

Í greiningu á áhættu og áfallaþoli eru upplýsingar frá mörgum aðilum settar saman. Mikil­vægt er að hafa í huga að upplýsingar sem eru í sjálfu sér ekki undanþegnar opinberri birt­ingu, geta orðið það þegar þær eru teknar saman og felldar inn í heildarmynd.


 

 


Heimildir

 

Almannavarnir. (2021). Greining hættusviðsmynda.

 

Almannavarnir. (2021). Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallaþoli í sveitarfélaginu.

 

Almannavarnir. (2021). Mikilvægu verkefnin í samfélaginu.

 

Beredskabsstyrelsen. (2008). Vejledning i gennemførsel af ROS60. Sótt 10.12.2020 af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/rosmodel/-ros60vejledning-.pdf

 

DSB. (2014). Veileder til helhetlig risiko- og sårbarhetsanalyse i kommunen. Sótt af https://www.dsb.no/veiledere-handboker-og-informasjonsmateriell/veileder-til-helhetlig-risiko--og-sarbarhetsanalyse-i-kommunen/

 

DSB. (2016). Samfunnets kritiske funksjoner. Sótt af https://www.dsb.no/rapporter-og-evalueringer/samfunnets-kritiske-funksjoner/

 

DSB. (2017). Metode for risiko- og sårbarhetsanalyse i planleggingen. Sótt af https://www.dsb.no/veiledere-handboker-og-informasjonsmateriell/veileder-til-helhetlig-risiko--og-sarbarhetsanalyse-i-kommunen/

 

DSB. (2017). Samfunnssikkerhet i kommunens arealplanlegging. Metode for risiko- og sårbarhetsanalyse i planleggingen. Sótt af https://www.dsb.no/veiledere-handboker-og-informasjonsmateriell/samfunnssikkerhet-i-kommunenes-arealplanlegging/

 

DSB. (2019). Analyser av krisescenarioer. Sótt af https:// www.dsb.no/rapporter-og-evalueringer/analyser-avkrisescenarioer-2019/

 

DSB. (2020). Beredskapsanalyse. Skogbrann. Sótt af https://www.dsbinfo.no/DSBno/2020/tema/beredskapsana­lyse-skogbrann/?fbclid=IwAR3iM9Us0BwV7S4wPr7hXoi9gkdeL5i-QCoUJVXXXlmsZBbuLDGP4FFiIi8

 

DSB. (2019). Risikoanalyse på samfunnsnivå – Metode og prosess ved utarbeidelsen av "Analyser av krisescenarioer (AKS)". Sótt af https://www.dsb.no/rapporter-og-evalueringer/risikoanalyse-pa-samfunnsniva---metode-og-prosess-ved-utarbeidelsen-av-analyser-av-krisescenarioer-aks/

 

FOI. (2011). foi:s modell för risk- och sårbarhetsanalys (FORSA). Sótt 10.12.2020 af https://www.foi.se/rapportsammanfattning?reportNo=FOI-R--3288--SE

 

NSM. (2019). Risiko 2019. Krafttak for et sikrere Norge. Sótt af https://nsm.no/getfile.php/133696-1592910347/Demo/Dokumenter/Rapporter/nsm_risiko_2019_final_enkeltside.pdf

 

Ríkislögreglustjórinn, Almannavarnadeild. (2011).  Áhættuskoðun Almannavarna. Sótt 10.12.2020 af https://www.almannavarnir.is/wp-content/uploads/2016/05/Inngangur-%C3%81h%C3%A6ttusko%C3%B0un-og-umd%C3%A6min.pdf

 

Statens strålevern. (2017). Plangrunnlag for kommunal atomberedskap. Sótt af https://dsa.no/atomberedskap/atomberedskap-i-norge/Plangrunnlag_kommunal_atomberedskap_2017.pdf

 

Staðlaráð Íslands. (2018). Risk management - Guidlines ISO 31000:2018. https://stadlar.is/stadlabudin/vara/?ProductName=ISO-31000-2018

 

Standard Norge. (2010). Risk and emergency preparedness assessment (Edition 3) NORSOK Z-013. https://www.standard.no/en/sectors/energi-og-klima/petroleum/norsok-standard-categories/z-risk-analyses/z-0132/

 

 


 

 


Lög og reglugerðir

 

·       Lög um almannavarnir nr. 82 /2008. Sótt af https://www.althingi.is/lagas/150c/2008082.html

 

·       Lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði nr 50/2014. Sótt af  https://www.althingi.is/lagas/146b/2014050.html

 

·       Lög um lögreglusamþykktir nr. 36/1988 Sótt af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1988036.html

 

·       Lögreglulög nr. 90/1996. Sótt af  https://www.althingi.is/lagas/150c/1996090.html

 

·       Reglugerð um efni og gerð viðbragðsáætlana nr. 323/2010. Sótt af https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/323-2010

 

·       Reglugerð um flokkun almannavarnastiga nr. 650/2009. Sótt af  https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/650-2009

 

·       Reglugerð um lögreglusamþykktir nr. 1127/2007. Sótt af https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/domsmalaraduneyti/nr/8962

 

·       Reglugerð um skipulag og störf stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar og viðbragðsaðila almannavarna nr.100/2009. Sótt af https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/100-2009

 

·       Upplýsingalög nr. 140/2012. Sótt af https://www.althingi.is/lagas/nuna/2012140.html

 


 

Viðaukar

 


Viðauki 1: Aðilar sem geta komið að greiningu á áhættu og áfallaþoli stærri eininga

 

   Almannavarnarnefnd

   Almannavarnir

   Björgunarsveitir

   Fjarskiptastofa

   Fyrirtæki sem geta haft í för með sér verulega áhættu á landssvæðinu

   Geislavarnir ríkisins

   Heilbrigðisþjónustan (Embætti landlæknis, Heilsugæslan, einkarekin heilbrigðisþjónusta)

   Lögreglustjórar

   Matvælastofnun (MAST)

   Orkustofnun

   Rauði krossinn á Íslandi

   Samgöngustofa (Vegagerðin, Borgarlína, Landhelgisgæsla Íslands, ÍSAVIA)

   Samhæfingar- og stjórnstöð

   Samtök atvinnulífsins

   Sjálfboðaliðasamtök

   Slökkvilið

   Stór sveitarfélög

   Stjórnendur orkufyrirtækja

   Sýslumenn

   Sveitarfélög með sérstaka áhættuþætti sem einnig geta skipt máli fyrir svæðið í heild

   Vatnsveitur

   Veðurstofa Íslands

   Önnur fyrirtæki, stofnanir eða viðeigandi aðilar


 

 


Viðauki 2: Ýmsar upplýsingar

 

Tegund upplýsinga

Uppspretta upplýsinga

Skýringar

Áhættu- og viðkvæmnigreiningar, greiningar á viðbúnaði og viðbúnaðaráætlanir

Greiningar á áhættu og viðkvæmni

·        Greining hættusviðsmynda

·        Fyrri greiningar á áhættu og áfallaþoli

·        Greiningar sveitarfélaganna á áhættu og áfallaþoli

·        Greiningar ráðuneyta og stofnana á áhættu og áfallaþoli

·        Greining annarra aðila á áhættu- og viðkvæmni

Viðbúnaðaráætlanir

·        Viðbúnaðaráætlanir sveitarfélaga

·        Viðbúnaðaráætlanir tengdar einstökum faggreinum eða málefnasviðum í sveitarfélögum

·        Viðbúnaðaráætlanir sem tengjast starfsstöðvum með möguleika á stórslysum á svæðinu

·        Viðbúnaðargreiningar og áætlanir annarra aðila

Svæðisbundin skilyrði

Staðbundin þekking

·        Gögn og þekking á staðbundnum aðstæðum

·        Eftirlitsskoðanir

·        Skoðunarferðir

Eftirlits og úttektarskýrslur

·        Eftirlit annarra yfirvalda

Söguleg gögn, tölfræði og þjónustuaðilar mikilvægra innviða og mikilvægrar þjónustu.

·        Hagstofan

·        Landlæknir

·        Húsnæðis og mannvirkjastofnun:

·       Tölfræði um eldsvoða, rafmagnsslys, slys tengd hættulegum efnum.

·        Vinnueftirlitið:

·       Tölfræði um flutning á hættulegum varningi og hættuleg efni

·       Tölfræði um atvik í starfsstöðvum sem falla undir stórslysareglugerðina

·        Umhverfisstofnun:

·       Tölfræði um hættuleg efni

·        Neytendastofa:

·       Vöru- og neytendaþjónusta

·        Vegagerðin

·        Samgöngustofa

·        Orkufyrirtæki

·        Vatns- og fráveitur

·        Fjarskiptafyrirtæki

Náttúruvá og loftslagsbreytingar

Upplýsingar um náttúruvá og loftslagsmál veita:

·        Veðurstofa Íslands

·        Umhverfisstofnun

·        Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

·        Almannavarnir

·        Vinnueftirlitið

·        Neytendastofa

·        Orkustofnun

·        Jarðfræðistofnun

·        Hafrannsóknastofnun

·        Náttúrufræðistofnun Íslands

·        Íslenskar háskólastofnanir

Rannsóknir, leiðbeiningar og ýmsar skýrslur

 

 


 

Viðauki 3: Gagnasöfn, kort og tölfræði

 

Gögn koma frá

Tegund gagna

Notkunarsvið

Orkustofnun

Veðurstofa Íslands

Náttúrufræðistofnun Íslands

Kort með varúðarsvæðum, hættusvæðum og hættusvæðum vegna skriðufalla og flóða

 

Svæði þar sem hætta er á atvikum

Kort af fyrri atvikum t.d. skriðum

Atvik í raforkudreifingu

Almannavarnir

Umhverfisstofnun

Vinnueftirlitið

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Vefgátt Almannavarna er þróuð af Almannavörnum til að gera áhættu og viðkvæmni sýnilegri og aðgengilegri fyrir þá sem vinna við að tryggja öryggi borgaranna í héraði og á landsvísu.[7]

 

 

Tölfræði og kort um náttúruvá

Viðbragð og afleiðingar fyrri atvika

Forvarnir, viðbúnaður, innviðir og samfélagsleg verðmæti

Einnig er hægt að finna skýrslur t.d. mat á atvikum og æfingum ásamt greiningum á áhættu og áfallaþoli.

Kort sem sýna aðstöðu með hættulegum efnum, sprengiefnageymslur, fyrirtæki sem falla undir reglur um stórslys og flutning hættulegs varnings.

Gögn um hættuleg efni

Svæði þar sem hætta er á atvikum

Samgöngustofa

Vegagerðin

Kort með upplýsingum um sólarhringsumferð og umferðarslys

Hægt að nota við mat á hættu, líkum og afleiðingum

Hagstofan

Íbúafjöldi

Mat á afleiðingum

Minjastofnun

Kort yfir verndaðar menningarminjar og minjar sem eru verðugar verndar

Mat á afleiðingum

UAR

Umhverfisstofnun

Náttúrufræðistofnun

Kort yfir verndaða náttúru og náttúru sem er verðug verndar.

Mat á afleiðingum


 

Viðauki 4: Innihald í yfirliti yfir mikilvægar aðstæður

 

FLOKKUR

AÐSTÆÐUR (DÆMI)

Landfræðileg og staðfræðileg einkenni

Landslagstegundir, mikilvægar siglingaleiðir, firðir, vötn og eyjar, fjöll og dalir, borgir og bæir

Veðurfræðilegar aðstæður

Dæmigerð einkenni hvað varðar hitastig, úrkomu, vind

Útsetning fyrir ýmiss konar ofsaveðri, sjávarflóð o.fl.

Væntanleg áhrif loftslagsbreytinga

Jarðeðlisfræðilegar og jarðfræðilegar aðstæður

Útsetning fyrir eldgosum, jarðskjálftum og ýmiss konar skriðuföllum

Félagslegar aðstæður

Lýðfræði, hagfræði, félagslegar aðstæður

Samgöngur

Mikilvægir vegir, línur, hafnir og flugvellir

Viðskipti/iðnaður

Starfsemi með mögulega áhættu
(framleiðslufyrirtæki, ferðaþjónusta, reglulegir stórviðburðir)

Samfélagslega mikilvæg verkefni og mikilvægur innviði

Sjúkrahús, orkudreifing, fjarskipti, mikilvægar vatnsveitur, vöruskemmur fyrir matvæli, eldsneytisbirgðastöðvar o.fl.

Menningarleg verðmæti, náttúra og umhverfi

Sérstaklega mikilvægar menningarminjar og -umhverfi, þjóðgarðar og aðrar sérstakar náttúru- og umhverfisauðlindir

Viðbúnaðarúrræði

Lögregluumdæmi og -stöðvar, slökkvilið og björgunarsveitir, sjúkraflutningaþjónusta, almannavarnanefndir, annar viðbúnaður, sjálfboðaliðasamtök o.fl.

 


 

Viðauki 5: Dæmi um áhættuþætti og tegundir atvika

 

ÁHÆTTUÞÆTTIR

TEGUNDIR ATVIKA

Óveður

·        Hvassviðri

·        Mikil úrkoma (rigning, snjór, haglél)

·        Eldingar sem slær niður

·        Þurrkur

·        Hitabylgja

·        Kuldabylgja

Flóð

·        Vorflóð í stórum vatnsföllum

·        Rigningarflóð í minni vatnsföllum og þéttbýli

·        Sjávarflóð/flóðbylgjur

·        Uppistöðulón brestur

Skriður

·        Skriður

·        Snjóflóð

Sjúkdómar

·        Heimsfaraldur

·        Veikindi vegna matarsýkinga eða smits sem berst í vatni

·        Sjúkdómur með sýklalyfjaónæmum bakteríum

·        Aðrir smitsjúkdómar

·        Eitrun

·        Dýrasjúkdómar

Eldar

·        Gróður- eða skógareldur

·        Eldur í þéttri timburhúsabyggð (t.d. sumarhúsabyggð)

·        Eldur í skólum, hjúkrunarheimilum, hótelum o.s.frv.

·        Eldur í iðnaði

Vegur

·        Meiriháttar umferðarslys

·        Slys í göngum

·        Rútuslys

Línur[8]

·        Slys þar sem önnur umferð þverar línu

·        Útafakstur af línuleið

·        Árekstur

Flug

·        Flugslys (á flugvellinum, á landssvæðinu)

·        Árekstur flugvéla á jörðu niðri

·        Þyrluslys

Sjó

·        Árekstur skipa

·        Strand

·        Önnur skipbrot

·        Frístundabátaslys

Viðskipti/iðnaður

·        Losun á gasi

·        Losun öðrum hættulegum efnum

·        Sprenging

·        Slys með hættulegum farmi (vegur, lína, sjó)


 

 


Viðauki 6: Áhættustjórnun

 

A picture containing timeline

Description automatically generated

Mynd 7: Skrefin í áhættustjórnun

Áhættustjórnun byggir á þeirri sýn að samfélagið geti dregið úr líkum og afleiðingum óæskilegra atvika í samfélag­inu með markvissri og kerfisbundinni vinnu og þannig lágmarkað tjón og skaða fyrir einstaklinga og samfélagið. Staðallinn ISO 31000: 2018 lýsir líkani sem er víða notað fyrir heildstæða áhættustjórnun sem hægt er að nota sem útgangspunkt fyrir vinnu við að tryggja öryggi borgaranna að því marki sem það er viðeigandi innan einstakra málefnasviða. Mynd 7 er byggð á þessu líkani.

Áhættustýringarferlið inniheldur fimm megin skref og þrjú gegnumgangandi ferli:

Samhengi: Fyrsta skref í áhættustjórnunarferlinu er að ákveða ramma að stjórnun. Þá þarf að skilgreina og afmarka hvaða starfsemi og þáttum á að stjórna og á hvaða stigi í stjórnsýslunni það á að eiga sér stað. Löggjöfin og ákvæði í henni sem varða það að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað ákvarða að hluta til rammann fyrir vinnu stofnana.

Bera kennsl á hættu: Næsta skref í áhættustjórnunarferlinu er að greina hvaða ógnir eða hættur geta undir vissum kringumstæðum leitt til taps eða tjóns innan þeirra þátta sem falla undir áhættustjórnunina. Ógnir eða hættur geta verið náttúruvá, bilanir í tæknikerfum og skipulagi (þ.e. slys) eða ásetningur.

Áhættugreining er þriðja skrefið í áhættustjórnunarferlinu og jafnframt lykilatriði í áhættustjórnun. Greiningin verður að byggja á skýrt skilgreindum forsendum og áhættu­greining verður að gefa mynd af því hversu líkleg atvikin sem eru greind eru og hvaða afleiðingar þau geta haft fyrir mismunandi verðmæti í samfélaginu. Taka þarf fram hvaða óvissuþættir tengjast matinu á líkum og afleiðingum. Greiningin þarf að vera nægilega nákvæm til þess að hægt sé að fá hugmynd um hvaða úrbætur sem þjóna þeim tilgangi að draga úr líkum og afleiðingum geti verið mikilvægar í framkvæmd til að draga úr áhættunni þannig að hún verði viðunandi.

Mat á áhættu er fjórða skrefið í áhættustjórnunarferlinu en þá er afstaða tekin til þess hvort áhættan sem hefur verið skilgreind sé samþykkjanleg eða hvort gera verði úrbætur (þ.e. ráðstafanir) til að draga úr henni. Á þessu stigi greiningar á áhættu og áfallaþoli þarf mat á áhættu oft að fara fram hjá öðrum en þeim sem ber ábyrgð á greiningunni. Ábyrgð­ar­aðilinn getur átt frumkvæði að samstarfi og þrýst á aðila um framkvæmd mats­ins. Sem dæmi um þetta má nefna að ef sameinuð almannavarnanefnd er ábyrgðaraðili að grein­ingu er líklegt að matið þurfi að fara fram hjá einstökum sveitar­fé­lög­um sem eiga aðild að nefndinni.

Áhættustýring er fimmta og síðasta skrefið í áhættustjórnunarferlinu. Hér eru úrbætur, ákveðnar og framkvæmd­ar til að koma áhættunni niður á viðunandi stig. Þetta geta verið úrbætur til að draga úr líkum á atviki og/eða ráðstafanir sem geta dregið úr afleiðingum atviks ef það gerist. Áhrif aðgerðanna eru metin miðað við það sem hlutaðeigandi aðilar telja að sé viðunandi áhætta.

Gegnumgangandi í öllu starfinu þarf að gæta að eftirtöldum atriðum:

Samskipti og samráð, þ.e. að festa vinnu í sessi í þeirri starfsemi sem áhættustjórnunin hefur áhrif á (innri og ytri hagsmunaaðilar). Þetta þarf að gera á öllum stigum áhættustjórnunarinnar en tilgangurinn er m.a. að tryggja að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra sem hlut eiga að máli, að aðilarnir skilji grundvöll ákvarðana sem teknar eru og hvað liggur að baki aðgerðum og úrbótum.

Vöktun og skoðun, þ.e. eftirlit með því hvort hin ýmsu skref í áhættustjórnuninni séu af viðunandi gæðum, séu framkvæmd á skilvirkan hátt og að úrbætur séu viðeigandi. Þetta þarf að vera samfelldur og skipulagður hluti af áhættustjórnuninni.

Skjalfesting og upplýsingamiðlun, þ.e. verkefni og niðurstöður áhættustjórnunar þurfa að vera skjalfest hlutaðeigandi aðila þurfa að fá skýringu á þeim. Tilgangurinn er að tryggja stuðning við ákvarðanir,  góða stjórn­un og bætta áhættustjórnun. Það þarf að ákveða hverjir fái upplýsingar um hvað, hversu oft og með hvaða hætti.


 

 


Viðauki 7: Gæðakröfur

 

Tilgangur greiningarinnar á áhættu og áfallaþoli er að veita góðan grundvöll undir ákvarðanir sem miða að því að standa vörð um og tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Almannavarnir mæla með því að við gerð greiningar á áhættu og áfallaþoli séu gæðakröfur settar. Almenn krafa er að allar heimildir, forsendur og rök á bak við niðurstöðurnar þurfi að vera skjalfestar, rekjanlegar og endurtakanlegar. Gera þarf eftirfarandi kröfur til greiningar á áhættu og áfallaþoli:

Í upphafi:

   Gera þarf lýsingu á innihaldi, kaflaskiptingum og afmörkun greiningarinnar á áhættu og áfallaþoli. Greiningin á áhættu og áfallaþoli snýst aðallega um öryggi samfélagsins, þ.e. atvik sem hafa afleiðingar fyrir allt samfélagið og íbúana.

   Lýsa þarf skriflega á hvaða þekkingu greiningin á áhættu og áfallaþoli byggir, t.d. fyrri greiningum á áhættu og áfallaþoli innan málefnasviðsins.

Á meðan á greiningu stendur:

   Skjalfesta þarf hvernig staðið hefur verið að skrefunum í greiningunni á áhættu og áfallaþoli; sjá Mynd 7.

   Lýsa þarf hvernig gætt er að því að greiningin sé þverfagleg og að þátttaka viðeigandi sérþekkingar sé tryggð (sbr. Kafla 3 í skjali Almannavarna Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu).

   Útskýra þarf hvaða mögulegu óæskileg atvik hafa verið metin (sbr. Kafla 3 í skjali Almannavarna Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu).

   Fyrir þau atvik sem borin eru kennsl á, þarf að tilgreina alla atburðarásina; orsakir atviksins, hugsanleg afleidd atvik og afleiðingar fyrir íbúana (sbr. kafla 3 og greiningarform í Viðauka 2 í skjali Almannavarna Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu).

   Setja þarf upp mælikvarða til að meta líkur (tímabil) og meta afleiðingar (áhrif) atvikanna (sjá Viðauka 2 í skjali Almannavarna Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu).

   Tilgreina þarf mat á óvissu sem tengist þeirri þekkingu sem greiningin á áhættu og áfallaþoli byggir á (sjá Viðauka 2 í Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu).

   Tilgreina þarf heimildir og forsendur greiningarinnar. Lýsa þarf rökunum sem notuð eru þar sem það á við.

Í skjölunum:

   Lýsa þarf því sem greiningin á að taka til.

   Kynna þarf niðurstöður greiningar á áhættu og áfallaþoli hvað varðar mat á óæskilegum atvikum. Áhættu og viðkvæmni vegna hinna ýmsu atvika þarf að meta og kynna hvert fyrir sig og sem heildarmynd (sjá Viðauka 2 og kafla 3 í skjali Almannavarna Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu).

   Lýsa þarf hugsanlegum úrræðum (þ.e. forvörnum og ráðstöfunum) til að draga úr áhættu og viðkvæmni og tillögum um eftirfylgni (sjá kafla 4 í skjali Almannavarna Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu). Einnig þarf að koma fram hvernig úrbætur (þ.e. forvarnir og ráðstafanir) eiga að koma til framkvæmda (sbr. Kafla 4 í skjali Almannavarna Leiðbeiningar við greiningu á áhættu og áfallþoli í sveitarfélaginu) og að hve miklu það leyti dregur úr áhættu og viðkvæmni með úrbótunum.

   Benda þarf á úrbætur (forvarnir og ráðstafanir) sem fylgja þarf eftir en eru á ábyrgð annara aðila.

Greiningin á áhættu og áfallaþoli er ekki markmið í sjálfu sér. Greiningin er mikilvægur grunnur til að fá yfirsýn yfir áhættu og viðkvæmni og til að forðast að ákvarðanataka skapi nýja eða aukna áhættu og viðkvæmni. Þekkingu sem aflað er með greiningu á áhættu og áfallaþoli nýtist öllum aðilum sem hlut eiga að máli til að taka góðar ákvarðanir.

Mynd 8: Hin ýmsu skref í framkvæmd greiningar á áhættu og áfallaþoli


 



[1] Hér er embættið sýslumaður notað sem dæmi um stjórnsýsluhlutverk undirstofnunar ráðuneytis. Hafa þarf í huga að um aðra yfirstjórnendur er að ræða í öðrum undirstofnunum ráðuneyta. Hér á eftir er talað um þennan aðila sem ábyrgðaraðila greiningarinnar.

[2] Með hugtakinu neyðarstjórn er hér átt við neyðarstjórn undirstofnunar eða sameinaða almannavarnanefnd eftir því sem við á.

[3] Sjá einnig: Íðorðabankinn. Ágústa Þorbergsdóttir (ritstjóri). Úr orðaskrá úr uppeldis- og sálarfræði. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt 23.08.2021 af https://idordabanki.arnastofnun.is/leit/geta/ordabok/SAELA

[4] Sjá einnig: Íðorðabankinn. Ágústa Þorbergsdóttir (ritstjóri). Úr orðaskrá úr uppeldis- og sálarfræði. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt 23.08.2021 af https://idordabanki.arnastofnun.is/faersla/469017

[5] Sbr. að hægt sé að horfa jafnt á stærri og minni skipulagseiningar sem einhverskonar kerfi, hvort sem um er að ræða landssvæði eða aðrar stærri einingar.

[6] Sjá: DSB (2019).

[7] Sjá einnig: https://kunnskapsbanken.dsb.no/

[8] Með hugtakinu lína er hér átt við almenningssamgöngukerfi, sbr. Borgarlínan.