Ferðamenn

Samkvæmt áhættuskoðun almannavarna sem unnin var á árunum 2008 – 2011 þarf að greina þolmörk ferðaþjónustunnar víða um landið og hver þau geta verið. Koma erlendra ferðamanna til Íslands hefur margfaldast á síðustu árum. Mörg umdæmi landsins eru greinilega vanbúin til að taka á móti þessari miklu aukningu ferðamanna.

Umdæmin skilgreina í skýrslum sínum helstu ferðamannastaði. Áætlanir þarf að gera á fjölmennum ferðamannastöðunum með fræðslu, öryggi, vöktun og viðbúnað í huga. Ferðamenn á Íslandi ferðast um landið á eigin ábyrgð, en öryggisatriði og aðstaða þurfa að vera í lagi og til staðar á skilgreindum ferðamannastöðum.

Jarðhitasvæði, jöklar og víðerni landsins og hálendi hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, sem oft þekkja ekki til aðstæðna. Mjög margir ferðamenn dvelja á vinsælum ferðamannastöðum yfir sumartímann og víða er komið að þolmörkum. Í flestum umdæmum er óskað eftir leiðum til að koma viðvörunum til ferðamanna vegna yfirvofandi hættu. Öryggismál ferðamanna þarf að skoða nánar á landsvísu.
Almannavarnir geta sent viðvörunarskilaboð (SMS) í farsíma  til ferðamanna vegna yfirvofandi hættu.

Ferðamálastofa fer með framkvæmd ferðamála og stuðlar að þróun þeirra og skipan á landinu samkvæmt lögum nr. 73/2005, ásamt útgáfu leyfa, skráningu og eftirlit. Einnig sér Ferðamálastofa um samræmingu umhverfis- og fræðslumála, miðlunar upplýsinga og svæðisbundinnar þróunar. Lögin um Íslandsstofu nr 38/2010 hafa það meðal annars að markmiði sínu að laða erlenda ferðamenn til landsins með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi.