Klæðist góðum hlífðarfötum
Farið í góða skó og hlífðarföt, ef glerbrot eru á gólfum eða brak að falla.
Neyðarkassinn
Náið í neyðarkassann, ef hann er fyrir hendi og ef þörf er fyrir hann.
Slys – Meiðsli
Athugið hvort einhver hefur slasast og ef þörf er fyrir aðstoð þá hafið samband við Neyðarlínuna í síma 1-1-2.
Upplýsingar.
Reyndu að afla þér upplýsinga um jarðskjálftann, umfang hans og upptök á vef Veðurstofunnar og fylgstu með ráðleggingum Almannavarna í fjölmiðlum. Samfélagsmiðlar eru fljótir að taka við sér.
Síminn virkar ekki
Ef ekki er hægt að ná í hjálp símleiðis, skal auðkenna slysstað með hvítri veifu. Síminn er öryggistæki og þegar neyðarástand hefur skapast getur álag á símkerfið leitt til þess að þeir sem þurfa á hjálp að halda ná ekki sambandi. Sendu frekar SMS í stað þess að hringja, til að láta þína nánustu vita af þér, til að minnka álag á símkerfi. Einnig getur verið gott að eiga hleðslubanka, hleðslurafhlöður og hleðslutæki til að nota í bifreið til að hlaða rafmagnstæki (síma og tölvur) í rafmagnsleysi, sem oft fylgir jarðskjálftum.
Lyftur
Notið ekki lyftur í háhýsum þar sem hætta er á að þær hafi skekkst. Látið yfirfara lyftur í kjölfar jarðskjálfta.
Neysluvatn
Drekkið ekki kranavatn fyrr en tryggt er að það hafi ekki mengast í jarðskjálftanum. Tilkynningar koma frá almannavörnum.
Vatnsleki – Rafmagn
Lokið fyrir vatnsinntak ef leki er óviðráðanlegur og slökkvið á aðalrofa í rafmagnstöflu ef húsið er skemmt.
Eldur – eldmatur
Athugið hvort eldur er laus og notið ekki opið ljós eða eld ef hætta er á að eldfim efni hafi hellst niður.
Rýming
Farið rólega út eftir skjálfta. Mörg slys verða þegar fólk hleypur út í óðagoti eftir jarðskjálfta. Gott er að vera vel klæddur ef yfirgefa þarf húsið, sérstaklega að vetri til. Sjá Brottflutningur – Rýming.
Söfnunarstaður
Farið á fyrirfram ákveðinn söfnunarstað utanhúss og ráðfærið ykkur við fjölskylduna áður en næsta skref er tekið.
Bíllinn oft fyrsta skjólið
Munið að bifreið er oft fyrsta upphitaða skjólið sem völ er á ef húsnæði hefur skemmst og þar er almennt útvarp. Akið með fyllstu aðgát og athugið að vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta. Munið eftir fjöldahjálparstöðvum í skólum.
Útvarp – tilkynningar
Hlustið eftir tilkynningum og fréttum í fjölmiðlum. Farið eftir þeim fyrirmælum sem kunna að vera gefin. Gott er að hafa útvarp með langbylgju ef FM sendar detta úr.
Fallnar raflínur
Aldrei snerta fallnar raflínur.
Nágrannahjálp
Athugið hvort nágrannar ykkar þarfnist aðstoðar. Ef þu veist af öldruðum eða fötluðum einstaklingum í næsta nágrenni er mikilvægt að huga að þeim. Munið, að ef margir slasast þá getur orðið bið á því að hjálp berist.
MUNIÐ:
Á neyðartímum er síminn öryggistæki
og skal einungis notaður í neyð. Hafið símtöl eins stutt og hægt er eða sendið SMS!
Eftirskjálftar
Eftir jarðskjálfta fylgja jafnan eftirskjálftar. Verið viðbúin slíkum skjálftum. Jarðskjálftar geta komið af stað skriðum, grjóthruni, flóðbylgjuum, stíflurofi, brunum og spilliefnaleka.
Myndir af skemmdum.
Ef mögulegt, takið myndir af skemmdum sem verða á húsnæði áður en farið er í viðgerð og gerið lista yfir það sem eyðileggst til að fá tjón bætt og haldið til haga kvittunum. Náttúruhamfaratrygging tryggir brunatryggðar eignir (skyldutrygging) gegn skemmdum vegna jarðskjálfta og einnig innbú, ef keypt hefur verið valfrjáls brunatrygging á innbúi. Mikilvægt er að tilkynna tjón til Náttúruhamfaratryggingar eins fljótt og auðið – sjá nánar á vefsíðu Náttúruhamfaratryggingar Íslands https://nti.is/. Tjónaskoðunarmenn á vegum Náttúruhamfaratryggingar þurfa að koma á vettvang til að meta tjón vegna jarðakjálfta. Samkvæmt reglugerð nr. 700/2019 þá tryggir Náttúruhamfaratrygging skemmdir eða eyðileggingu á vátryggðum eignum, sem verða vegna jarðskjálfta.
Þjónustumiðstöðvar
Þjónustumiðstöðvar eru opnaðar þegar ljóst er að jarðskjálfti eða aðrar hamfarir hafa áhrif á íbúa, byggð, umhverfi og eignir. Þar geta íbúar á áhrifasvæði hamfara leitað aðstoðar.
Samkvæmt 14. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008 er ríkislögreglustjóra heimilt, þegar hættu ber að garði eða hún um garð gengin, að stofna tímabundið þjónustumiðstöð vegna tiltekinnar hættu eða hættuástands. Þjónustumiðstöðvar voru opnaðar á Selfossi og Hveragerði í kjölfar jarðskjálfta árið 2008. Þjónustumiðstöðin var starfrækt á Selfossi í Tryggvaskála til ársloka 2009, en starfstöðinni í Hveragerði var lokað 1. júlí 2008.
Þjónustumiðstöð vegna jarðskjálfta á Suðurlandi 29. maí 2008
Skýrsla verkefnisstjóra, 2010
höfundur: Ólafur Örn Haraldsson
útg. Forsætisráðuneytið
Einnig voru þjónustumiðstöðvar almannavarna starfræktar í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins 2010, Grímsvatnagossins 2011 og snjóflóða á Vestfjörðum 2020.