Hraði hraunrennslis fer eftir hitastigi kvikunnar, efnainnihaldi og seigju, svo og halla í landslagi. Basísk hraun eru fremur þunnfljótandi, eru frekar kísilsnauð, hafa litla seigju og geta runnið langar leiðir ( >50 km) á meðan súr hraun eru almennt kísilrík (líparít, andesite) og seigfljótandi og renna frekar stutt (5 – 10 km). Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg.
Hættan frá hraunrennslinu sjálfu er almennt frekar litil og almennt er svigrúm til að forða sér . Hættan eykst verulega ef um er að ræða mikið gasútstreymi og grjótkast. Mikill hiti í hrauninu getur skapað hættu ef farið er of nálægt hraunjaðrinum, þannig hafa menn brennt sig. Hraunrennsli getur valdið miklu tjóni á mannvirkjum eins og þekkt er frá eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973. Mikið var lagt í að hægja á framrás hraunrennslisins og breyta stefnu þess til að verja höfnina, sem er lífæð Vestmannaeyja. Hraunjaðarinn var kældur niður með því að dæla á hann sjó með afkastamiklum dælum. Hraunkælingin tókst vel og höfninni var bjargað.