Flóð af völdum leysinga og mikilla rigninga hafa valdið tjóni á ræktarlandi, vegakerfi og byggð. Veðurstofan er með kerfisbundinn og samfelldan rekstur vatnamælingastöðva í ám, stöðuvötnum, lónum og grunnvatni og fylgst er náið með vatnshæð og viðvörunum er komið til almennings við ákveðinn viðmiðunarmörk.


Ef hætta er á flóði

  • Fylgist með fjölmiðlum og veðurspám
  • Hreinsið rennur og haldið niðurföllum  hreinum
  • Skoðið rýmingarleiðir frá heimili, skóla og vinnustað
  • Er heimilið tryggt fyrir skemmdum vegna flóða
  • Takið rafmagn af, ef vatn flæðir inn í hús
  • Sandpokar geta tímabundið varið, að vatn flæði inn í hús
  • Varist að setja raftæki, eiturefni og verðmæti þar sem þau geta blotnað
  • Hugið að búfénaði og gæludýrum þegar hætta er á flóðum
  • Útbúið  neyðarkassa/viðlagakassa með helstu nauðsynjum og neyðarbúnaði

Náttúruhamfarir sem vátryggt er gegn með Náttúruhamfaratryggingu Íslands eru sbr. 4. gr. laga nr. 55/1992  , en samkvæmt reglugerð nr. 700/2019 eru flóð vátryggð, þ.e. þegar flóð verða vegna þess að ár eða lækir sem renna að staðaldri flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga skyndilega á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum eignum. Það er einnig vatnsflóð þegar skyndileg flóð koma frá jökli vegna bráðnunar íss. Flóð vegna úrkomu og leysingavatns sem falla ekki undir 1. málsl. teljast ekki vatnsflóð. Sama á við um flóð, sem að einhverju eða öllu leyti verður af mannavöldum, t.d. þegar vatnsgeymar, stíflugarðar eða önnur mannvirki bresta af öðrum ástæðum en náttúruhamförum.
Sjá nánar á vef Náttúrhamfaratryggingar Íslands