Á Íslandi er fólk oft ekki á varðbergi gagnvart hættunni sem af eldingum stafar, þar sem þrumuveður eru ekki algeng á Íslandi. Samkvæmt Veðurstofunni er fjöldi eldinga á bilinu 250 – 600 á ári.

Eldingahætta á Íslandi skapast aðallega við þrumuveður en einnig við eldgos.
Þegar eldgos verður undir jökli, sjó eða vatni verða meiri eldingar en ella. Eldingar í slíkum gosum verða vegna rafhleðslu í gosmekkinum. Hleðslan verður til í gígnum við samspil vatns og kviku. Gosmökkurinn verður rafhlaðinn og hleðslan losnar í eldingar; eða með öðrum orðum, það verður skammhlaup.

Oftast hlaupa eldingar milli staða í mekkinum sem hafa misjafna rafhleðslu en stundum til jarðar.  Eldingahætta frá gjósandi eldstöð er mest í gosmekkinum sjálfum og getur náð í allt að 30 – 40 km. undan vindi frá eldstöðinni. Farið ekki undir gjóskufall, vegna eldingahættu og munið að algert myrkur getur verið í öskumekki.  Eldingahætta er mest í eða við gosmökk og öskufallsgeira og getur náð í allt að 30 – 40 km. undan vindi frá eldstöðinni.  Komið ykkur stystu leið út úr gjóskufalli með því að fara þvert á vindátt.

Utanhúss

Reynið að koma ykkur strax í skjól í þrumuveðri

  • Forðist vatn, hæðir í landslagi og berangur.
  • Forðist alla málmhluti svo sem, raflínur, girðingar, vélar, tæki o.s.frv.  Haldið ykkur fjarri stórum trjám. Forðist að vera í nánd við loftlínur, hávaxin tré, staura, þvottasnúrur, rafmagnsvirki, möstur og landbúnaðartæki hvers konar.  Varist jafnframt mýrlendi, vötn og læki.
  • Losið ykkur við bakpoka, byssur, veiðistangir, garðyrkjuáhöld og annað það sem leitt getur rafmagn.
  • Leitið skjóls, ef unnt er, í stærri byggingum eða yfirbyggðu ökutæki úr málmi.  Hafið glugga lokaða.
  • Ef grunur leikur á að eldingu slái niður nærri ykkur komið ykkur í skjól það er besta vörnin.
  • Í algjörri neyð: Krjúpið niður, hafið hæla og hné saman, beygið ykkur fram og haldið höndum yfir eyrun. Hafið sem minnstan snertiflöt við jörðina  Leggist ekki flöt.
  • Ef í hópi – haldið ykkur í að minnsta kosti í 5 metra fjarlægð frá þeim sem eru með ykkur úti í eldingaveðri. Það minnkar áhættuna ef eldingu slær niður.

Innanhúss

Þar sem eldingu getur slegið niður í rafleiðandi lagnir utanhúss og leitt þær inn í hús þá skal:
Forðist að nota vatn úr vatnsleiðslum  (hvort sem er við uppvask, handþvott, svo og klósett, sturtu eða bað).
Í eldingaveðri skal hafa í huga:

  • Haldið ykkur fjarri útidyrum, gluggum og lagnakerfum.
  • Forðast skal að nota tæki sem eru í sambandi við rafmagn. Ef farsími er notaður þá varist að hafa hann í sambandi við hleðslu hvort sem er í bifreið eða innan húss. Takið öll rafmagnstæki s.s. tölvur, rafmagnsverkfæri, ísskáp og sjónvarpstæki úr sambandi frá straumgjafa og loftneti.  Notið inniloftnet sé þess kostur. Munið einnig að að aftengja brynningartæki, mjaltarkerfi og rafmagnsgirðinar þar sem það á við.
  • Ef leitað er skjóls í bifreið hafið hurðir og glugga lokaða.
  • Notið ekki talstöðvar eða annan fjarskiptabúnað og varist málmhluti sem geta leitt rafmagn

    Rafspenna situr ekki í þeim sem hefur orðið fyrir eldingu og því má veita nauðsynlega aðstoð strax.  Veitið skyndihjálp og hringið í 112.

    Vegna eldinga sem fylgja eldgosum er ástæða til að setja eldingavara á hús til að minnka líkur á að eldingum slái niður í þau.  Leitið til rafvirkja vegna uppsetningar á eldingavara og rafveitur vegna rafskauta.

    Eldingavarar á byggingum  (frá Mannvirkjastofnun)

    Varnir gegn eldingum

    Tvær megin aðferðir eru nýttar til að verjast tjóni af völdum eldinga.

    Í fyrsta lagi eru eldingar fangaðar, ýmist með stöngum eða vírum og leiddar beint til jarðar.  Hins vegar eru til sérstakir yfirspennuvarar (e.  surge arrester,  n. overspennings beskytter) sem eru tengdir við rafleiðara og leiða straum til jarðar ef spenna fer yfir ákveðin mörk.

    Í báðum tilvikum er byggt á því að leiða strauminn til jarðar í gegnum jarðskaut.  Jarðskaut húsa eru venjulega útfærð með koparleiðurum og eða stöngum sem eru grafin og rekin í jörðu auk sambindingar við pípukerfi húss og járnabindingu í sökkli.

    Jarðbindikerfi bygginga eru hluti af raflögn og því ætti öll vinna við tengingingar eða breytingar á jarðbindikerfi að vera unnin af löggiltum rafverktaka eins og önnur vinna við raflögn bygginga.