Eldgos geta hafist fyrirvaralaust, en gera þó oftast boð á undan sér, t.d. með jarðskjálftum og óróa sem greinast á mælum.  Viðbragðsáætlanir hafa verið gerðar vegna eldgosa frá Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli og Vatnajökli og tilheyrandi jökulhlaupum

Innandyra
Viðbrögð við eldingum
Innandyra skal aftengja öll rafmagnstæki og talstöðvar frá straumgjafa og útiloftnetum þegar gosmökk leggur yfir byggð. 
Forðist að vera í nánd við loftlínur, hávaxin tré, staura, þvottasnúrur, rafmagnsvirki, möstur og landbúnaðartæki hvers konar.  Varist jafnframt mýrlendi, vötn og læki. Losið ykkur við bakpoka, byssur, veiðistangir, garðyrkjuáhöld og annað það sem leitt getur rafmagn
Forðast skal að nota síma.  Munið einnig að aftengja brynningartæki, mjaltakerfi og rafmagnsgirðingar þar sem það á við.

Viðbrögð við jökulhlaupum
Eldgosum undir jökli fylgir jafnan jökulhlaup.  Dveljið ekki á flatlendi meðan hætta er talin á jökulhlaupi.  Leitið á hátt liggjandi staði.  Ef svæðið verður umflotið vatni, tilkynnið það til 112 ef hægt er en ef sá möguleiki er ekki fyrir hendi setjið þá upp hvíta veifu til merkis um að aðstoðar sé þörf.

Viðbrögð við öskufalli
Komið ykkur stystu leið út úr öskufalli með því að fara þvert á vindátt.

Byrgið glugga sem snúa að eldstöð meðan gos varir og lokið fyrir reykháf vegna gjóskufalls. Lokið dyrum og gluggum.

  • Lokið hurðum og gluggum. Þéttið glugga ef með þarf.
  • Setjið rök handklæði fyrir þröskulda og annars staðar til að koma í veg fyrir dragsúg og haldið ykkur sem mest innandyra í öskufalli. Setjið grímu, vasaklút eða fatnað fyrir nef og munn, og augnhlífar fyrir augu ef nauðsynlegt er að vera úti í öskuregni.
  • Hlífið viðkvæmum raftækjum t.d.  með plasti eða álíka umbúðum  og takið ekki utan af þeim fyrr en búið er að hreinsa upp alla ösku í kringum þau.
  • Aftengið rör frá þakrennum til að koma í veg fyrir að niðurföll stíflist. Askaog vatn geta þá runnið úr þakrennum og niður á jörð.
  • Fólk sem þjáist af langvinnum hjarta- og lungnasjúkdómum haldi sig innandyra og forðast að komast í snertingu við ösku að óþörfu. Utandyra er notkun gríma og gleraugna ráðlögð.
  • Sjáið til þess að búfé komist í hreint vatn og fóður.

Ef börn eru á heimilinu skuluð þið kynna ykkur neyðaráætlun skólans og verið búin að hugsa um afþreyingu barna ef til lokunar kemur.

Banvænt gas
Haldið ykkur þar sem vindur blæs og farið alls ekki niður í lægðir og djúpar lautir, þar sem gas kann að safnast fyrir.  Gasið er banvænt eitur og í flestum tilvikum lyktarlaust og ósýnilegt.

Útvarp – tilkynningar í fjölmiðlum
Hlustið eftir tilkynningum og fréttum í fjölmiðlum og farið eftir þeim fyrirmælum sem kunna að vera gefin.  Fylgist vel með veðurfregnum og öskufalls- og gasspám.