Heimilin eru einn af hornsteinum samfélagsins og því betur sem heimilin eru undir það búin að mæta áföllum því betur er samfélagið undir það búið að takast á við áföll. Mikilvægt er að fólk sé vel undir það búið að bjarga sér sjálft, þar til hjálpin berst, og vita hvað hægt er að gera til að draga úr líkum á slysum og tjóni.

Náttúruvá

Náttúruvá er órjúfanlegur þáttur í lífi okkar. Fegurðin í landslaginu getur verið afleiðing hamfara eins og eldgosa og jarðskjálfta. Það sem einnig einkennir íslenskt náttúrufar eru þau vályndu veður sem hér geta orðið, t.d. með snjóflóðum og aurskriðum.

Forvarnir og áætlun fyrir heimilið

Til að draga úr líkum á slysum eða tjóni að völdum náttúrhamfara er mikilvægt að undirbúa sig vel meðal annars með því að gera viðbragðsáætlun og undirbúa heimilisfólk til að bregðast við þegar slys eða náttúruhamfarir hafa áhrif á heimili, vinnustaði, skóla eða aðra dvalarstaði heimilisfólks. Hver og einn aðlagar áætlun sína miðað við þarfir og aðstæður hvers og eins.

Viðlagakassinn

Viðlagakassi ætti að vera til staðar á hverju heimili, þ.e. kassi sem inniheldur þá hluti sem íbúar gætu þurft á að halda í kjölfar hamfara. Við vitum aldrei hvenær við gætum þurft að grípa til hans þegar náttúran gerir vart við sig svo best er að útbúa slíkan kassa ef hann er ekki nú þegar til staðar. Athugið að geyma kassann þar sem öll fjölskyldan getur nálgast hann og gættu þess að hlutirnir í honum séu ekki útrunnir. Nánari upplýsingar og er að finna á vefnum www.3dagar.is

Viðbragðsáætlun heimilisins

Í viðbragðsáætlun heimilisins á að fara yfir hugsanlegar hættur sem steðja að þeim og hvaða úrræði eru til staðar og hvað skuli gera til að vera viðbúinn. Æfið viðbragðsáætlunina reglulega og uppfærið hana eftir þörfum.

Hættumat

  • Heimilisfólk skoðar þær hættur sem geta ógnað heimilinu svo sem af völdum jarðskjálfta, eldgoss, snjóflóða eða annarra ógna.

Viðbragðsáætlanir

  • Heimilisfólk gerir viðbragðsáætlun, hvernig það ætlar að takast á við hugsanlegar hættur.
  • Hafa neyðarsímanúmer og tengiliði á einum stað.
  • Gera lista yfir nauðsynlegar birgðir eins og vatn, mat og lyf.

Viðbrögð og æfingar

  • Heimilisfólk kynnir og skipuleggur æfingar og viðbrögð við hugsanlegt hættuástand og æfir viðbrögð ásamt framkvæmd rýmingar.
  • Æfa reglulega hvernig á að nota slökkvitæki og eldvarnarteppi.
  • Uppfæra viðbragðsáætlunina reglulega og tryggja að allir séu meðvitaðir um breytingar.

Heimilið yfirgefið

Ef hættuástand skapast og yfirgefa þarf heimilið er nauðsynlegt að vita hvað ber að gera.

Þegar íbúum á tilgreindum reitum/svæðum hefur borist tilkynning um rýmingu ber þeim að fara í öruggt húsnæði fyrir skilgreinda tímasetningu. Tryggja þarf að öll þau sem í húsinu búa eða vinna fái vitneskju um að rýma skuli húsnæðið. Heimilisfólk þarf að ákveða hver eða hverjir það eru sem tryggja það.

Gott er að hafa hugað að því hvað nauðsynlegt sé að taka með sér þegar rýma þarf. Til að mynda er ágætt að miða við að hafa fatnað og nauðsynjar til nokkurra daga, ásamt því að taka með sér eigur sem erftt er að bæta.

Taka með:

  • Lyf, fatnað, snyrtivörur og nauðsynleg hjálpartæki, t.d. gleraugu og heyrnartæki.
  • Hleðslutæki og/eða hleðslubanka fyrir farsíma.
  • Nauðsynjar fyrir ungbörn ef þau eru á heimilinu.
  • Mat og búr fyrir gæludýr ef þau eru tekin með.

Ekki gleyma að:

  • Ganga tryggilega frá helstu verðmætum eða hafa þau meðferðis. Helstu verðmæti eru til að mynda verðmætir pappírar sem erfitt getur verið að fá endurútgefna, hlutir með tilfinningalegt gildi, vottorð, vegabréf o.fl.
  • Loka öllum gluggum og hurðum.
  • Tryggja að matvæli liggi ekki undir skemmdum á meðan rýmingu stendur.
  • Ganga úr skugga um að hiti sé á húsinu.
  • Gott er að skilja efir ljós í forstofu og við útidyr.
  • Setja rýmingarskiltið út í glugga þegar heimili hefur verið rýmt þannig að það sjáist sem best frá götu.

Að þessu loknu skal halda til fjöldahjálparstöðvarinnar til móttöku-/skráningarfólks eða hringja í 1717 og halda til þess dvalarstaðar sem ákveðinn hefur verið. Fólk er hvatt til þess að fylgjast vel með tilkynningum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Lögreglustjóri og/eða Veðurstofa Íslands ákveður rýmingu. Rauði krossinn hefur það hlutverk að opna fjöldahjálparstöð þar sem fólk skráir sig og upplýsir hvar það dvelur á meðan rýming er í gildi. Skráning getur einnig farið fram í hjálparsímanum 1717.

Nánari upplýsingar um rýmingu má sjá hér.

Munið að 1-1-2 er númer sem allir geta haft samband við í neyð.