Viðvörun
Búist er við suðvestan storméljum sunnan- og vestantil á landinu í dag. Einnig er búist við norðan hvassviðri eða stormi með talsverðri ofankomu norðan- og austantil á landinu seint á morgun og á fimmtudag.
Nánar um útlitið:
Veturinn boðar nú komu sína og vill Veðurstofan vekja athygli á þessum miklu veðrabreytingum eftir milt haust. Suðvestan hvassviðri eða stormur og él sunnan- og vestantil á landinu í dag, en lægir talsvert í nótt. Vaxandi norðanátt á morgun og éljagangur fyrir norðan. Norðan 15-23 m/s annað kvöld og á fimmtudag og snjókoma eða talsverð snjókoma norðan- og austanlands. Búast má við vetrarfærð á heiðum suðvestan- og vestantil á landinu þegar líður á daginn. Einnig má búast við lélegu ferðaveðri norðan- og austantil á landinu seint á morgun (miðvikudag) og á fimmtudag. Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðri og fært og að vera ekki á vanbúnum bifreiðum á þessum slóðum.