Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa gefið út Viðbragðsáætlun vegna sóttvarna alþjóðaflugvalla, landsáætlun, en vinna við áætlanagerðina hófst í apríl 2017. Áætlunin tekur til alþjóðaflugvalla landsins en það eru Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Egilsstaða- og Akureyrarflugvöllur.
Innleiðing áætlunarinnar fór fram í október 2017 en þá voru lokadrög kynnt starfsmönnum og viðbragðsaðilum hlutaðeigandi flugvalla. Stutt skrifborðsæfing var haldin í kjölfarið á hverjum flugvelli. Á þessum æfingum voru lagðar fram þrjár sviðsmyndir frá raunverulegum atvikum er tengdust nefndum flugvöllum og fundarmenn beðnir um að leggja fram ábendingar um fyrstu viðbrögð viðbragðsaðila og starfsmanna.
Viðbragðsáætlunin byggir á áætlun sem gerð var fyrir Keflavíkurflugvöll árið 2015 og æfð sama ár. Helstu breytingar frá þessari áætlun er að nú hefur hlutverk flugrekenda verið skráð og einnig hlutverk heilbrigðiseftirlits á hverjum flugvelli, Ferðamálastofu, Matvælastofnunar, Geislavarna ríkisins, Umhverfisstofnunar og Samgöngustofu. Þá hefur aðdraganda virkjunar verið breytt á þann veg að lögreglustjórar og umdæmislæknir sóttvarna hafa fulla heimild til virkjunar og er það í samræmi við það verklag sem almennt er í gildi