Á morgun, fimmtudaginn 28. apríl klukkan 13:00 verður ráðstefnan „Við erum öll almannavarnir“ haldin á Hilton Reykjavík Nordica.
Á ráðstefnunni, sem verður streymt hér og á facebooksíðu Almannavarna verður fjallað um almannavarnamál á Íslandi frá ýmsum hliðum. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra opnar ráðstefnuna en á eftir honum kemur Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna og segir frá áherslum Almannavarna á næstu árum. Næst þar á eftir verður „3 dagar“ verkefni Rauða krossins kynnt, en þar er gert ráð fyrir að hvert og eitt heimili þarf að geta verið sjálfu sér nægt í 3 daga ef hamfarir og neyðarástand dynur yfir.
Á ráðstefnunni verður einnig talað um áhættustjórnun og gagnsemi áhættustjórnunar og fer bæjarstjóri Reykjanesbæjar yfir hvernig er að stýra bæjarfélagi í almannavarnarástandi. Einnig ætlar íbúi og foreldri í Grindavík að gefa ráðstefnugestum innsýn í hvernig fjölskyldulífið var þegar jarðskjálftar gerðu íbúum lífið leitt og þegar eldgos birtist í bakgarðinum.
Fyrir nokkrum vikum opnuðu Almannavarnir vefgátt þar sem sveitafélögum í landinu er einfölduð sú vinna að greina og leysa þær krísur sem upp koma á hverju svæði fyrir sig. Þar er einnig að finna leiðbeiningar til að einfalda og hjálpa til við að greina og draga fram þá vá og/eða verkefni sem upp geta komið. Þetta verkefni verður kynnt á morgun. Í lokin verður farið yfir hver tilgangurinn með þessu öllu er og hví þetta skiptir okkur öll máli. Hvert og eitt getum við eitthvað, en saman getum við allt.
Það er enn hægt að skrá sig á ráðstefnuna en eins og áður segir verður henni einnig streymt. Meira um ráðstefnuna.