Unnið að uppsetningu mælitækja við Öskju. Vísindaráð almannavarna fundaði um stöðuna.
Vísindaráð almannavarna hittist í gær á reglulegum fundi til að ræða virknina á Reykjanesskaga og við Öskju.
Hrinan við Keili heldur áfram
Skjálftahrina hófst 27. september SV af Keili. Skjálftarnir í hrinunni eru staðsettir í norðurenda kvikugangsins sem myndaðist fyrr á árinu leiddi til eldgoss við Fagradalsfjall. Í dag hafa um 2.000 skjálftar mælst í hrinunni það sem af er, 6 af þeim hafa verið yfir 3 að stærð. Enginn gosórói mælist, en skjálftavirknin í þessari hrinu er áþekk því sem sást við Fagradalsfjall í aðdraganda eldgossins þar. Á þessu stigi er hinsvegar ekki hægt að útiloka að skjálftarnir getir verið vegna spennubreytinga á svæðinu, en ekki vegna kvikuhreyfinga.
Nýjustu mælingar á jarðskorpuhreyfingum sýna engin skýr merki um að kvika sé við það að brjóta sér leið til yfirborðs á slóðum skjálftahrinunnar. Það útilokar hinsvegar ekki að kvika sé á hreyfingu á miklu dýpi sem ekki sæist í mæligögnum og því nauðsynlegt að fylgjast enn frekar með þróun virkninnar við Keili.
„Við þurfum í raun að fá meiri gögn“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands. „Von er á nýjum gervitunglamyndum í næstu viku sem vonandi varpa skýrara ljósi á þróun mála við Keili og hvort að kvika er þarna á ferðinni nálægt yfirborði“, segir Sara.
Hraunflæðilíkan sem sýnir mögulegt hraunflæði ef til eldgoss kæmi suður af Keili. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri) Í líkaninu er gert ráð fyrir gosi á um 1.5km langri sprungu sem liggur N-S og er á svæðinu þar sem skjálftahrinan á upptök. Til að skoða möguleg áhrif frá eldgosi á þessum slóðum er gert ráð fyrir 10-falt meira hraunflæði (100m3/s) en mælst hefur að meðaltali í eldgosinu við Fagradalsfjall. Líkanið sýnir hvert hrauntungan myndi ná eftir ákveðinn dagafjöld, frá 1 upp í 14 daga. Líkanið gefur til kynna að miðað við margfalt hraunflæði á við það sem líklegt er, mun það taka hraunflæði frá gosi á þessum slóðum meira en 2 vikur að ógna innviðum. (Mynd/Líkan: Veðurstofa Íslands/Háskóli Íslands/Gro Birkefeldt Möller Pedersen)
Ekki ráðlagt að vera á ferðinni í nágrenni Keilis
Lítil virkni hefur verið sýnileg úr aðalgígnum við Fagradalsfjall síðan 18. september og minni gosórói hefur mælst. „Hegðun gossins hingað til hefur einkennst af slíkum hléum“ segir Sara. „Breyting á hegðun gossins samfara aukinni skjálftavirkni við Keili gæti þýtt að kvika leiti annað, en upptök skjálftahrinunnar við Keili er á svæði sem tengist kvikuganginum sem myndaðist í vor. Þannig að við fylgjumst áfram vel með þróun mála og vísindamenn og viðbragðsaðilar eru undir það búin ef kvika nær til yfirborðs við Keili“, segir Sara að lokum.
Ef kæmi til eldgoss við Keili yrði það að svipuðum toga og eldgosið við Fagradalsfjall. Svæðið er vel vaktað og er utan alfaraleiðar en vinsælt útivistarsvæði. Á þessu stigi er fólki ráðlagt að vera ekki á ferðinni í nágrenni vil Keili.
Eins er mælst til þess að fólk hugi að forvörnum gegn skjálftum á heimilum sínum á meðan að á hrinunni stendur.
Land rís áfram við Öskju
Vísindamenn fylgjast grannt með jarðskorpuhreyfingum við Öskju, en land hefur tekið að rísa þar eftir langt tímabil þar sem þrýstingur minnkaði og landsig átt sér stað. Á fundi vísindaráðs var farið yfir nýjustu mælingar sem benda til þess að land haldi áfram að rísa í vesturjaðri Öskjuvatns og með nokkuð jöfnum hraða.
Jarðskjálftavirknin við Öskju síðustu vikur er meiri en að öllu jöfnu mælist á svæðinu. Skjálftarnir eru þó á þekktum slóðum og af svipaðri stærð og alla jafna, en tíðni skjálfta hefur aukist og haldist jöfn frá því í byrjun ágúst.
Veðurstofan vinnur að því að auka vöktun við Öskju með uppsetningu á nýjum mælabúnaði, en aðstæður þar eru mjög erfiðar vegna veðurs og mikilla snjóa eftir óveðrið fyrr í vikunni. Nú þegar hefur einum GPS mæli til viðbótar verið komið upp.
Vísindaráð mun funda aftur eftir tvær vikur um virknina við Öskju og í framhaldinu stilla upp mögulegum sviðsmyndum um þróun mála við eldstöðina.