Eins og fram hefur komið í fréttum er búist við austan ofsaveðri á morgun og fram á þriðjudag á öllu landinu með snjókomu og byl. Mikill vindhraði er í kortunum. Veðrið skellur fyrst á Suðurlandi og er ekki ráðlegt að vera á ferðinni þar eftir klukkan 12:00 á hádegi. Á öðrum stöðum á landinu og þar með talið á höfuðborgarsvæðinu er ráðlegt að vera ekki á ferðinni eftir klukkan 17:00. Gera má ráð fyrir mikilli ófærð á landinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi hefur verið ákveðið að loka þjóðvegi 1 frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni fyrir allri umferð klukkan 12:00 á hádegi. Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði verða að öllum líkindum lokað klukkan 16:00 ef veðurspá gengur eftir og fleiri leiðir í framhaldinu, en frekari upplýsingar verða birtar á vefsíðu Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is og í upplýsingasíma 1777 og 1779. Ekkert ferðaveður verður ef spár ganga eftir.
Talið er að snjóflóðahætta muni aukast hratt samfara veðrinu en mikil úrkoma fylgir veðrinu í formi snjókomu sérstaklega á Norðurlandi og Austurlandi, frekari upplýsingar á vefsíðu Veðurstofunnar http://www.vedur.is/ofanflod/snjoflodaspa/.