Í gær lauk framkvæmdum við leiðigarð sem er syðst við Geldingadali. Sá garður beinir hraunrennsli úr Geldingadölum frá Nátthagakrika og áfram niður í Nátthaga. Þessi aðgerð er liður í því að seinka því, eins og hægt er, að hraun fari að renna í Nátthagakrika. Frá Nátthagakrika opnast landslagið meira í átt á mikilvægum innviðum sem eru vestan og norðan við svæðið. Þegar framkvæmdir hófust stóð tæpt að hægt væri að klára garðinn vegna hraunrennslis á svæðinu. Eftir að það hætti var hægt að klára framkvæmdina eins og lagt var upp með í upphafi og er garðurinn nú um 5 metra hár og 200 metra langur.
Miðað við núverandi virkni í eldgosinu mun hraunrennsli, að öllum líkindum, ná niður á Suðurstrandarveg í gegnum Nátthaga á næstu vikum.
Eftir samráð við hagsmunaaðila hefur verið ákveðið að setja upp lágan varnargarð í dalsmynni Nátthaga. Garðurinn verður 3-5 metra hár og er honum ætlað að seinka framrás hrauns úr Nátthaga niður að Suðurstrandarvegi og Ísólfsskála.
Með þessari ráðstöfun verður hægt að safna meira af hrauni í Nátthaga. Þannig verður vonandi hægt að halda Suðurstrandarvegi opnum nokkuð lengur en í stefndi. Um leið seinka hraunrennsli yfir ljósleiðara sem er á þessum slóðum og jörðina Ísólfsskála.
Að óbreyttu mun hraunrennslið á endanum fara yfir garðinn og fela ummerki hans á leið sinni til sjávar.
Í síðustu viku var tilkynnt að fallið hafi verið frá því að setja upp varnargarð á sömu slóðum en sá garður átti að vera mun stærri og umfangsmeiri. Þar réð mestu umfang framkvæmda, kostnaður og sú staðreynd að það muni á endanum flæða yfir varnargarðinn ef um langtímaatburð er að ræða.