Í dag uppfærði Veðurstofa Íslands hættumat sitt vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Helsta breytingin á hættumatinu er sú að Grindavík (svæði 4) hefur verið fært niður í appelsínugulan flokk, sem þýðir að töluverð hætta er á því svæði.
Þrátt fyrir þessa breytingu er áfram talin mjög mikil hætta sem nú er kölluð „jarðfall ofan í sprungu“, þar sem sprungur leynast undir ótraustu yfirborði sem gæti gefið sig.
Eins og fram kemur í frétt Veðurstofunnar þá heldur landris áfram vegna kvikusöfnunar undir svæðinu við Svartsengi. Síðustu daga hefur land risið um 8 mm á dag sem er örlítið hraðara landris en mældist fyrir gosið 14. janúar sl.
Áfram er unnið að skönnun á sprungum með jarðsjám og viðgerðum á götum. Á morgun, föstudaginn 26. janúar verður lagt mat á hvort íbúar vestan Víkurbrautar geti vitjað eigna sinna. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður það vel kynnt. Mikil áhersla er lögð á að íbúar fái skýrar upplýsingar um tilhögun á skipulaginu sem framundan er. Einnig verður það vel kynnt þegar íbúar annars staðar í Grindavík komast inn í bæinn.
Síðustu daga og vikur hafa iðnaðarmenn farið að minnsta kosti tvisvar inn í öll hús vestan Víkurbrautar og má reikna með að sama eigi um hús sem standa við götur austan megin við Víkurbrautina. Reiknað er með að sú vinna gæti klárast bráðlega. Um 70 manns voru að störfum við ýmis verkefni í Grindavík í dag.