Spurt og svarað vegna heitavatnsleysis á Suðurnesjum

Spurt og svarað / Reykjanes  

Hvernig get ég best haldið hitanum í íbúðinni hjá mér? 

Á heimasíðu Almannavarna má finna góðar leiðbeiningar varðandi húshitun við þessar aðstæður. Draga þarf úr loftskiptum í íbúðinni nema ef verið er að nota gas til hitunar þá þarf að lofta.  

Hvaða rafmagnstæki má ég nota? 

Núna munar um allt til að draga úr rafmagnsnotkun. Mikið álag er á dreifikerfi rafmagns í öllum hverfum á Suðurnesjum svo Almannavarnir mælast eindregið til þess að fólk bíði með notkun á ryksugum, þvottavélum, þurrkurum og öðrum tækjum sem taka mikla orku. Eðlileg notkun bakaraofna skilar varmanum inn í íbúðina svo ekki þarf að draga úr slíkri notkun. 

Ég náði ekki að kaupa hitara, hvernig á ég þá að hita mína íbúð? 

Verið er að vinna í að koma fleiri rafmagnshiturum til landsins. Algengt er að fólk eigi slíka hitara til svo gott er að kanna meðal vina og vandamanna hvort þeir geti lánað tæki. Hitablásararnir eru væntanlegir til landsins í dag. Hægt er að fylgjast með hjá helstu söluaðilum.  

Er ekki hægt að nota bakaraofninn, samlokugrillið eða eitthvað slíkt til að hita? 

Bakaraofnar, brauðristar, samlokugrill og sambærileg heimilistæki eru ekki hönnuð til þess að vera höfð í gangi í margar klukkustundir og því getur fylgt eldhætta að nota þau með slíkum hætti. Best er að nota til þess gerða hitara. Ef ekki er möguleiki að verða sér út um hitara er skást að notast við bakaraofn en gæta þarf þess að hafa hitastigið ekki hærra en um 100 gráður (1000-1200 W), hafa hurð ofnsins opna og fylgjast vel með vegna mögulegrar ofhitnunar á innréttingunni þar sem ofninn er. Gott er að slökkva á ofninum eftir 3 klst keyrslu og leyfa honum að kólna í 1 klst áður en hann er settur í gang aftur. Of löng notkun bakaraofns á of háum hita bæði styttir líftíma tækisins mjög sem og veldur hættu á íkveikju vegna ofhitnunar innréttingar. 

Ég á gasgrill, get ég hitað íbúðina mína með því? 

Sjá leiðbeiningar Almannavarna um notkun á gasi innandyra sem getur verið mjög varasamt vegna bæði eitrunar og íkveikjuhættu. Hins vegar er góð hugmynd að nota grillin til eldunar til að draga úr rafmagnsnotkun. 

Ég er með snjóbræðslu, hvað þarf ég að hafa í huga varðandi hana? 

Ef snjóbræðslan notar affall af húsinu er hætt við því að frotskemmdir myndist innan sólarhrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón. 

Ég er með heitan pott, er eitthvað sem ég þarf að hafa í huga varðandi hann? 

Ef heiti potturinn notar afall úr hitaveitu er hætt við því að frostskemmdir myndist innan sólarhrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón. 

Ég get farið í sumarbústað, er eitthvað sem ég þarf að hafa í huga áður en ég fer? 

Ef íbúð er yfirgefin er mjög mikilvægt að tryggja að skrúfað sé fyrir heita neysluvatnskrana því þegar hitaveitan kemst í lag byrjar vatnið að streyma aftur. Æskilegt er að lækka á ofnum til að spara notkun á heita vatninu. 

Ég næ ekki í píparann minn, hvað skiptir máli varðandi hitakerfið í íbúðinni minni? 

Á vef HS Veitna er að finna góðar leiðbeiningar varðandi hitakerfi húsa við þessar aðstæður. Einnig hefur Félag pípulagningameistara og Samtök rafverktaka tekið saman ábendingar sem má lesa hér að neðan.  

——————————————————————————————————————–
 
Leiðbeiningar til íbúa ef hitaveita bregst tímabundið  
 
Af gefnu tilefni hafa Félag pípulagningameistara og Samtök rafverktaka tekið saman eftirfarandi ábendingar til íbúa sem að kunna að lenda í tímabundinni skerðingu á hitaveitu vegna náttúruhamfara á Reykjanesinu.  
 
Fylgist vel með fréttum og tilmælum frá hitaveitu og Almannavörnum.  
 
Frostskemmdir í húsum fara fyrst að gera vart við sig ef húshiti fer niður fyrir 4 gráður. Við núverandi veðurfar er almennt hægt að gera ráð fyrir að slík kólnun eigi sér stað í húsum eftir 3-4 daga án hita. 

Snjóbræðsla: Ef um er að ræða snjóbræðslu sem notar affall af húsinu er hætt við því að frostskemmdir myndist innan sólarhrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón.  

Heitur pottur: Ef affall hitaveitu fer í lögn fyrir heitan pott þá er hætt við því að frostskemmdir myndist innan sólarhrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón.  

Gluggar: Varmastreymi er mest í gegnum glugga húsa og því þarf að hafa glugga lokaða og draga gluggagjöld fyrir ef hægt er og jafnvel að verja með teppum eða dýnum til að hindra varmasteymið.  

Rafmagns- og olíuhitarar Takmarka skal notkun hitablásara sem ganga fyrir rafmagni eftir fremsta megni. Best er að staðsetja slíka hitablásara í tækjarýmum húsa til að koma í veg fyrir frostskemmdir í tækjarými en ekki að notast við þá til húshitunar. Gott er að hafa í huga að olíufylltir rafmagnsofnar skapa minna álag á rafveitukerfi svæðisins.  

Gashitarar: Ef notast er við gashitara er mjög mikilvægt að huga að loftræstingu og ekki loka gluggum þar sem gashitarinn er staðsettur. Ekki yfirgefa hús með gashitun í gangi og farið eftir leiðbeiningum Almannavarna við notkun þeirra.  

Gólfhitakerfi: Ef um er að ræða gegnumstreymiskerfi með uppblöndun er æskilegt að taka hringrásardælur úr sambandi. Ekki þarf að taka hringrásardælur úr sambandi ef hitakerfi eru lokuð og á það við um bæði gólfhita og ofnakerfi.  

Mat á ástandi fasteignar: Til viðmiðunar um kulda í húsum er hægt að setja upp hitamæla eða setja glas með vatni á gólf við útvegg til að fylgjast með því hvort vatn sé farið að hríma.