Uppfærsla á netöryggiskerfi Neyðarlínunnar í dag hafði þau áhrif að hluti símanotenda náði ekki sambandi við neyðarnúmerið 112 í um klukkustund. Tölvukerfi Neyðarlínunnar datt einnig út um tíma en öll starfsemi er nú komin í samt lag.
Ástæða uppfærslunnar er sú að tilkynning barst í morgun frá sérfræðingum sem sjá um netöryggismál Neyðarlínunnar um að öryggisgalli hafi fundist í eldveggjum sambærilegum þeim sem Neyðarlínan notar.
Netöryggismál eru Neyðarlínunni afar mikilvæg og því var talið rétt að ráðast í uppfærslu öryggiskerfisins án tafar eins og regla er við þessar aðstæður.
Öryggiskerfi eru í sífelldri endurskoðun og eru uppfærð reglulega. Ekki er vitað hvað leiddi til þessa sambandsrofs en það verður rannsakað svo unnt verði að koma í veg fyrir truflanir sem þessa í framtíðinni.