Verið að flytja síðustu farþegana af slysstað á Þingvallavegi þar sem rúta fór á hliðina um klukkan 10.30 í morgun. Flestir farþeganna hafa verið fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Mosfellsbæ, þar sem þeir njóta aðhlynningar. Verið er að flytja aðra á sjúkrahús til skoðunar. Meiðsl þeirra eru ekki ljós á þessari stundu.
Lögreglan ítrekar að þeir sem kunna að hafa tekið upp farþega á svæðinu láti tafarlaust vita af því í síma Neyðarlínunnar 112.
Leiðsögumaður og ökumaður rútunnar eru íslenskir, en meirihluti farþeganna kínverskir. Viðbragðsaðilar, lögregla, sjúkraflutningamenn, slökkvilið, læknar og björgunarsveitir eru að störfum á vettvangi og Þingvallavegur lokaður.