Um klukkan fjögur í dag barst tilkynning til Neyðarlínu um að rúta hafi oltið með 26 franska skólakrakka og kennara þeirra innanborðs, alls 32 með bílstjóra og leiðsögumanni. Slysið varð á Borgarfjarðabraut rétt sunnan við veginn að Heggstöðum. Í fyrstu leit út fyrir stórslys en betur fór en á horfðist. Einungis var um að ræða minniháttar meiðsli. Einn var fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnunina á Vesturlandi í Borgarnesi og síðar á Landspítala vegna einkenna frá hálsi. Aðrir sem voru í rútunni fóru með björgunarsveitarbílum í fjöldahjálparstöð Rauða krossins, sem opnuð var í Menntaskólanum í Borgarnesi. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð vegna rútuslyssins, ásamt aðgerðastjórninni á Vesturlandi í Borgarnesi.