Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Suðurlandi, aflýsir óvissustigi almannavarna vegna jökulhlaups úr Grímsvötnum. Óvissustigi var lýst yfir 10. október síðastliðinn en þá var vatn tekið að renna undan íshellunni í Grímsvötnum.
Vatnið kom fram í Gígjukvísl 12. október og náði flóðtoppurinn hámarki við þjóðveg 16. október. Þá dró hratt úr flóðtoppnum og náði rennsli venjulegu vetrargildi á ný 18. október. Óvissustig var þó áfram í gildi vegna jarðskjálftavirkni í Grímsvötnum en ekki dró til frekari tíðinda. Áfram er fylgst vel með virkni í Grímsvötnum og verður almannavarnastig endurmetið ef breytingar verða á henni.
Á vef Veðurstofu Ísland má lesa frekar um atburðinn.