Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórana á Höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum, Vesturlandi, Vestmannaeyjum og Vestfjörðum á landinu hefur ákveðið að fara af óvissustigi Almannavarna, sem sett var á vegna óveðurs sem gekk yfir landið í dag.
Óvissustigi var lýst yfir 25.febrúar þegar veðurspá Veðurstofu Íslands sýndi ofsaveður um allt land með mikilli hættu á foktjóni og ófærð. Veðurspáin gekk eftir og gætti áhrifa veðursins. Viðbragðsaðilar voru að störfum um allt land. Talsvert var um foktjón og mikið mæddi á rekstraraðilum raforku.
Rafmagnsleysi var á Vesturlandi um tíma og rafmagnstruflanir á höfuðborgarsvæðinu. Veðurstofa Íslands lýsti einnig yfir hættustigi vegna snjóflóða á sunnanverðum Vestfjörðum og íbúðahús voru rýmd á Patreksfirði og Tálknafirði vegna snjóflóðahættu. Því hefur nú einnig verið aflétt. Flugsamgöngur lágu niðri um tíma og eins voru miklar truflanir á vegasamgöngum milli landshluta.