Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum aflýsir óvissustigi vegna eldgoss í Geldingadölum. Eldgosið hófst 19. mars síðastliðinn og var þá lýst yfir neyðarstigi, en áður hafði verið í gildi óvissustig vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Degi eftir að eldgosið hófst var almannavarnastig lækkað úr neyðarstigi í hættustig eftir að ljóst var að eldgosið var fjarri þéttbýli og helstu mannvirkjum. Fjórum vikum eftir að síðast sást til elds í Geldingadölum var almannavarnastig fært aftur niður á óvissustig.
Ekki hefur sést til hraunflæðis frá gígnum í Geldingadölum frá 18. september og þær jarðskjálftahrinur sem hafa orðið síðan þá hafa ekki leitt til frekari atburða. Engin merki eru um að grunnstæð kvika sé á ferðinni, né að kvika sem liggur mun dýpra (~15 km) sé að leita upp. Reykjanesskaginn er virkur með tilliti til jarðskjálfa- og eldvirkni og verður áfram fylgst vel með þróun atburða og almannavarnastig reglulega endurmetin.
Vakin er athygli á því að varhugavert getur verið að fara inn á hraunbreiðuna við Geldingadali og að gígum. Töluverðan tíma getur tekið fyrir hraun að kólna og ennþá er yfirborð og gígar óstöðugir, hrun getur orðið eða sprungur geta myndast. Auk þess má búast við að afgösun hraunsins haldi áfram um einhvern tíma og hættulegar aðstæður myndast þar sem gas getur safnast saman.
Óvissustigi aflétt vegna eldgoss í Geldingadölum.
3. desember 2021 12:06