Á norðanverðum Vestfjörðum hefur snjóað og skafið í NA-átt frá því á miðvikudagskvöld. Talsverður snjór hefur safnast bæði í fjöll og á láglendi. Snjóalög hafa verið nokkuð stöðug og aðeins er vitað um eitt flóð í veðrinu. Það féll úr Norðurgili í Súgandafirði og náði út í sjó. Það var ekki stórt og olli ekki flóðbylgju.
Spáð er áframhaldandi NA-skafrenningi í dag með ofankomu þótt úrkomuákefð ætti ekki að verða mjög mikil. Mögulegt er talið að fleiri meðalstór eða stór snjóflóð falli. Ekki er talin vera hætta í byggð eins og er, en fylgst er náið með stöðunni.
Heldur ætti að draga úr úrkomu og vindi síðdegis og í kvöld, og í fyrramálið ætti veður að mestu að hafa gengið niður, vindur orðinn hægur og úrkomulítið.