Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Suðurlandi, Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu aflýsa óvissustigi Almannavarna. Óvissustigið var sett á í gær 29. desember vegna slæmrar veðurspár á Suðurlandi, Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu. Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð kl. þrjú í nótt en um klukkan 13:00 í dag var henni lokað.
Horfur næsta sólarhring í veðrinu: Breytileg átt 3-10 m/s en norðaustan 10-15 m/s á Vestfjörðum. Snjókoma eða él í flestum landshlutum. Gengur í norðvestan 10-18 m/s á vestanverðu landinu í nótt með éljum. Norðlæg átt 5-13 á morgun og él en vestlægari seinnipartinn og styttir þá upp um landið austanvert. Frost víðast hvar á bilinu 3 til 13 stig.
Aldrei er góð vísa of oft kveðin og því biðja Almannavarnir ferðamenn að skoða vefsíðurnar www.umferdin.is (www.road.is) og www.vedur.is áður en farið er af stað.
Almannavarnir þakka landsmönnum öllum fyrir árið sem er að líða með von um rólegheitarár sem hefst á miðnætti. Árið sem hófst í enn einni covidbylgjunni og endaði með hvelli.
Einnig viljum við hjá Almannavörnum þakka fjölmiðlum fyrir ánægjulegt og frábært samstarf á árinu sem er að líða, mikilvægt samstarf sem á sér stað allan sólarhringinn, allt árið í kring þar sem tilgangurinn er að miðla upplýsingum til almennings á sem skemmstum tíma.
Gleðlegt ár.