Ríkislögreglustjóri í samráði við netöryggissveit CERT-IS og Fjarskiptastofu lýsa yfir óvissustigi Almannavarna vegna netárása sem tengja má við leiðtogafund Evrópuráðsins sem nú fer fram í Reykjavík. Í aðdraganda fundarins hefur orðið vart við aukningu í netárásum á íslenska hýsingaraðila, fyrirtæki og stofnanir. Embætti ríkislögreglustjóra og netöryggissveitin CERT-IS hafa átt í náinni samvinnu í aðdraganda fundarins og fylgst með stöðu mála, en á hádegi í dag var ákveðið að færa vinnuna á óvissustig í samræmi við viðbragðsáætlun Almannavarna og CERT-IS um verndun ómissandi upplýsingainnviða.
Þær álagsárásir sem hafa átt sér stað fyrr í dag ullu tímabundinni truflun á netsambandi hjá afmörkuðum hópi aðila, þar á meðal heimasíðu Alþingis, stjórnarráðsins og CERT-IS teymisins. Unnið hefur verið að uppfærslu varna og því að færa viðkomandi vefsíður í fulla virkni. Rétt er að taka fram að umfang og eðli þessara árása er í samræmi við það sem búist var við í aðdraganda fundarins.
Þá er búist við því að framhald verði á álagsárásum gegn íslenskum net- og tölvukerfum í tengslum við leiðtogafundinn. Hópurinn NoName057(16) hefur lýst ábyrgð á álagsárásinni og kallað eftir liðsauka til þess að halda áfram frekari árásum á íslenska innviði.
Á síðustu vikum hafa fulltrúar CERT-IS og Ríkislögreglustjóra fundað með lykilaðilum sem gegna hlutverki við rekstur net- og tölvukerfa og þeim aðilum sem hlutverki hafa að gegna á grundvelli sviðsábyrgðar í tengslum við vernd ómissandi upplýsingainnviða. Gripið hefur verið til ráðstafana til að styrkja varnir til þess að koma í veg fyrir truflanir á þjónustu, en áfram er hvatt til þess að gæta fyllsta öryggis í stafrænum samskiptum. Þá eru rekstrar- og þjónustuaðilar sérstaklega hvattir til þess að viðhalda öflugri varðstöðu og tilkynna grun um árásir eða öryggisbresti til CERT-IS eins fljótt og verða má.
Frekari upplýsingar veitir: Guðmundur Arnar Sigmundsson, sviðsstjóri netöryggissveitarinnar CERT-IS, GSM: 859 1010 og netfang: gudmundur@fjarskiptastofa.is