Óvissustig Almannavarna vegna jökulhlaups úr Grímsvötnum

Ríkislögreglustjóri,  í samráði við Lögreglustjórann á Suðurlandi, lýsir yfir óvissustigi Almannavarna vegna jökulhlaups úr Grímsvötnum.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að undanfarna daga hefur mælst hægt vaxandi hlaupórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli. Jökulhlaup úr Grímsvötnum koma fram undan Skeiðarárjökli og renna í Gígjukvísl. Hlaupin eru vanalega hægt vaxandi og geta liðið nokkrir dagar þangað til fyrstu merki um hlaupvatn mælast á Vatnamælingastöðinni í Gígjukvísl og aftur nokkrir dagar til viðbótar þangað til hámarksrennsli næst.  Grímsvatnahlaup hafa orðið nærri árlega síðan í nóvember 2021 en þar áður 2018.

Dæmi eru um að eldgos verði vegna þrýstiléttis í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Þó hafa jökulhlaup orðið mun oftar án þess að til eldgoss komi.  Ef atburðarás verður svipuð og í síðustu hlaupum mun hámarksrennsli líklega mælast í lok vikunnar og ætti hlaupið ætti ekki hafa nein áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.  Eins og segir á vef Veðurstofunnar þá eru Grímsvötn ein virkasta megineldstöð landsins og eru nærri miðjum Vatnajökli.

Í síðustu hlaupum hafa myndast nýir sigkatlar á yfirborði jökulsins yfir hlaupfarveginum SA við Grímsfjall. Því ætti ferðafólk á Vatnajökli að gæta ítrustu varúðar ef það er á ferðinni nærri Grímsfjalli. Einnig er hætta á því að gasmengunar gæti orðið vart við jökulsporð Skeiðarárjökuls þar sem hlaupvatnið kemur undan jöklinum.

Mynd: Tekin af vef Veðurstofunnar. Kort af áætlaðri hlaupleið úr Grímsvötnum niður í Gígjukvísl á Skeiðarársandi. Vatnamælingastöð VÍ í Gígjukvísl (V159) er merkt á kortinu..