Enn er óveður víða á landinu, norðlæg átt 18-25 m/s, hvassast norðantil á landinu. Hægari austantil fram undir kvöld. Norðan 15-25 m/s í nótt, hvassast austast, en heldur hvassara um tíma austan Öræfa. Snjókoma eða él, en úrkomulítið á Suður- og Suðausturlandi.
Tvær rútur hafa farið út af Suðurlandsvegi í dag.Önnur fór út af við Kirkjubæjarklaustur í hádeginu með 20 farþega og hin við Steina undir Eyjafjöllum með 12 farþega. Í seinni útafkeyrslunni slasaðist einn minniháttar. Flughált er á Suðurlandsvegi á þessum slóðum og bálhvasst. Hellisheiði, Mosfellsheiði og Þrengsli hafa verið lokuð frá því í morgun. Lýst hefur verið yfir óvissustigi á norðanverðum Vestfjörðum og þá hefur verið lýst yfir hættustigi á Ísafirði og reitur 9 sem er iðnaðarhverfi hefur verið rýmdur. Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu og lokað er til Flateyrar vegna snjóflóðs.
Frekari upplýsingar um færðina er hægt að nálgast á vef Vegagerðarinnar www.vegagerðin.is og upplýsingar um veður á vef Veðurstofunnar www.vedur.is.