Nýtt áhættumat – 9. apríl 2025

Samkvæmt c. lið 3. gr. laga nr. 40/2024 um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ er eitt verkefna nefndarinnar gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Áhættumat þetta snýr fyrst og fremst að þéttbýli Grindavíkur í samræmi við áður tilgreint ákvæði laga um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavík en önnur svæði eru einnig nefnd.

Síðasta áhættumat var gefið út þann 2. apríl sl.

Hættumat Veðurstofu Íslands sem gefið var út þann 2. apríl í kjölfar eldgossins þann 1. apríl gilti aðeins í tvo sólarhringa vegna þeirrar óvissu sem ríkti um þróun mála. Nýtt hættumat var svo gefið út þann 4. apríl og gilti það til 8. apríl. Loks var svo enn gefið út nýtt hættumat þann 8. apríl og gildir það að óbreyttu til 15. apríl.

Forsendur
Örugg verkfræðistofa metur í áhættumati frá 8. apríl að áhætta á þéttbýlissvæði Grindavíkur sé miðlungs fyrir alla aðila, en þó að nóttu til fyrir íbúa, ytri aðila og ferðamenn sem skýrist fyrst og fremst af takmarkaðri viðveru og viðbragði slökkviliðs/ sjúkraflutninga í Grindavík um kvöld og nætur. Hættu­mat Veðurstofu frá 8. apríl varðandi Grindavík (svæði 4) færist úr töluverðri hættu (appelsínugult) í nokkra hættu (gult) en lætur þess getið að þrátt fyrir að hættustig á því svæði hafi verið lækkað sé enn talsverð hætta á jarðfalli ofan í sprungur.  Rétt er að taka fram að svæði 4 samkvæmt svæðisskiptingu Veðurstofunnar nær nokkuð út fyrir þéttbýli Grindavíkur, sér í lagi til austurs.

Í fréttatilkynningu Lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 4. apríl segir að „Lögreglustjóri hefur í samráði við sína viðbragðsaðila opnað fyrir alla umferð til og frá Grindavík.  Metur hann áhættu inn í þéttbýlinu í Grindavík ásættanlega við núverandi aðstæður.  Áhættan er hins vegar óásættanleg fyrir alla inn á gos-/sprengjusvæði.“

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 8. apríl að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Mótvægisaðgerðir
Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að viðgerðum á innviðum innan þéttbýlis Grindavíkur í samræmi við aðgerðaráætlun þar að lútandi sem staðfest var af innviðaráðherra í júlí sl. Jarðkönnun hefur verið framkvæmd, hættuleg svæði verið girt af og unnið að viðgerðum og álagsprófunum á götum og opnum svæðum  sem sprungur og aflaganir gatna ná inn á. Jafnframt er nokkuð stöðugt eftirlit, m.a. af hálfu slökkviliðs, lögreglu, Grindavíkurbæjar og annarra viðbragðsaðila, til þess að tryggja að girðingar séu traustar og reynt að koma í veg fyrir óviðkomandi umferð á svæðum þar sem hætta er til staðar innan bæjarins.  Ástæða er til að vekja athygli á að veðuraðstæður hafa áhrif á áhættumat og nauðsynlegt er að viðbragðs- og eftirlitsaðilar geri viðeigandi ráðstafanir til að vöktun og viðbragð sé með fullnægjandi hætti og flóttaleiðir tryggðar. Í kjölfar eldgoss og jarðskjálftahrinu sem hófst í gær, 1. apríl, hafa aðstæður innan Grindavíkur verið skoðaðar á nýjan leik með tilliti til hugsanlegra áhrifa jarðskjálftanna nú á jarðveg og innviði og þar með öryggi í bænum. Frumathugun sýnir að litlar sprunguhreyfingar hafa átt sér stað í austurhluta Grindavíkur.

Niðurstöður
Á grundvelli áhættumats verkfræðistofunnar, sem m.a. tekur tillit til hættumats Veðurstofunnar og þeirra varna sem eru til staðar og unnið er sífellt að, er það niðurstaða Framkvæmdanefndarinnar og Almannavarnadeildar að áhætta allra aðila sé miðlungs, sem þýðir að til staðar séu góðar varnir gegn hættum en þó ákveðin óvissa.

Áhættumat verkfræðistofunnar Örugg er unnið fyrir þrjú svæði, þ.e. 1) gossvæði/sprengisvæði, 2) Svartsengi og 3) Grindavík (þéttbýli). Matið er unnið fyrir fjóra hópa, þ.e. 1) viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, 2) íbúa, 3) fyrirtæki og 4) ytri aðila og ferðamenn.

Í Grindavík er áhætta metin miðlungs fyrir alla aðila, en þó að nóttu fyrir íbúa, ytri aðila og ferðamenn. Á Svartsengissvæðinu er áhætta talin miðlungs fyrir alla aðila. Á gos-/sprengisvæði er áhættan hins vegar mjög há fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka og óásættanleg fyrir ytri aðila og ferðamenn. Mælt er gegn því að óviðkomandi fari inn á gos- og sprengisvæði.

Farið er í eftirlitsferðir hvern morgun, og yfir daginn, til að kanna hvort einhverjar varnir hafi gefið sig og gert við lokanir þar sem þess kann að gerast þörf.

Áhættumatið gildir þar til nýtt áhættumat er gefið út.

Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ                         

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra