Meðfylgjandi er uppfært áhættumat sem meðal annars tekur tillit til hættumats Veðurstofu Íslands frá 4. mars, sem er óbreytt frá fyrra hættumati.
Samkvæmt c. lið 3. gr. laga nr. 40/2024 um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ er eitt verkefna nefndarinnar gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Áhættumat þetta snýr fyrst og fremst að þéttbýli Grindavíkur í samræmi við áður tilgreint ákvæði laga um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavík en önnur svæði eru einnig nefnd.
Síðasta áhættumat var gefið út þann 10. mars sl.
Kvikuhlaup hófst á Svartsengissvæðinu snemma morguns þann 1. apríl og eldgos hófst kl. 09:43. Þrátt fyrir að gosið hafi að mestu fjarað út um kvöldið er enn mikil skjálftavirkni og aflögun vegna kvikuhreyfinga. Vegna mikillar óvissu um þróun mála gilti uppfært hættumat Veðurstofu frá 1. apríl aðeins í um sólarhring, til kl. 15:00 2. apríl, en þá tók við nýtt hættumat sem gildir til 4. apríl kl. 15:00.
Forsendur
Örugg verkfræðistofa metur í áhættumati frá 2. apríl að áhætta á þéttbýlissvæði Grindavíkur sé há fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, mjög há fyrir íbúa og fyrirtæki og óásættanleg fyrir ytri aðila og ferðamenn. Hættumat Veðurstofu frá 2. apríl varðandi Grindavík (svæði 4) er með töluverða hættu, þar sem mikil hætta er vegna jarðfalls ofan í sprungur, sprunguhreyfingum, og töluverð hætta á gosopnun og hraunflæði. Rétt er að taka fram að svæði 4 samkvæmt svæðisskiptingu Veðurstofunnar nær nokkuð út fyrir þéttbýli Grindavíkur, sér í lagi til austurs.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum áréttar í tilkynningu frá 2. apríl að Ríkislögreglustjóri hafi í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið þann 1. apríl að færa almannavarnastig af hættustigi á neyðarstig.Á hádegi í dag, 2. apríl, var almannavarnastig fært niður af neyðarstigi á hættustig. Að mati vísindamanna flæðir kvika enn inn í kvikuganginn. Svæðið er óstöðugt og varasamt. Íbúar Grindavíkur og starfsmenn þar hafa heimild til að fara inn fyrir lokunarpósta inn til Grindavíkur um Grindavíkurveg, Nesveg og Suðurstrandarveg. Lokunarpóstar ná ekki til orkuversins, Bláa lónsins og Northern Light Inn. Flóttaleiðir eru um Bláalónsveg og Grindavíkurveg. Sem stendur er ferðamönnum ekki hleypt inn til Grindavíkur.
Mótvægisaðgerðir
Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að viðgerðum á innviðum innan þéttbýlis Grindavíkur í samræmi við aðgerðaráætlun þar að lútandi sem staðfest var af innviðaráðherra í júlí sl. Jarðkönnun hefur verið framkvæmd, hættuleg svæði verið girt af og unnið að viðgerðum og álagsprófunum á götum og opnum svæðum sem sprungur og aflaganir gatna ná inn á. Jafnframt er nokkuð stöðugt eftirlit, m.a. af hálfu slökkviliðs, lögreglu, Grindavíkurbæjar og annarra viðbragðsaðila, til þess að tryggja að girðingar séu traustar og reynt að koma í veg fyrir óviðkomandi umferð á svæðum þar sem hætta er til staðar innan bæjarins. Ástæða er til að vekja athygli á að veðuraðstæður hafa áhrif á áhættumat og nauðsynlegt er að viðbragðs- og eftirlitsaðilar geri viðeigandi ráðstafanir til að vöktun og viðbragð sé með fullnægjandi hætti og flóttaleiðir tryggðar. Í kjölfar eldgoss og jarðskjálftahrinu sem hófst í gær, 1. apríl, hafa aðstæður innan Grindavíkur verið skoðaðar á nýjan leik með tilliti til hugsanlegra áhrifa jarðskjálftanna nú á jarðveg og innviði og þar með öryggi í bænum. Frumathugun sýnir að litlar sprunguhreyfingar hafa átt sér stað í austurhluta Grindavíkur.
Niðurstöður
Á grundvelli áhættumats verkfræðistofunnar, sem m.a. tekur tillit til hættumats Veðurstofunnar og þeirra varna sem eru til staðar og unnið er sífellt að, er það niðurstaða Framkvæmdanefndarinnar og Almannavarnadeildar að áhætta allra aðila sé mjög há, sem þýðir að varnir gegn hættum séu til staðar en mikil hætta sé á alvarlegum atburðum. Því er fólki, öðrum en viðbragðsaðilum og þeim sem starfa sinna vegna þurfa að vera á ferðinni í Grindavík, ráðið frá því að vera á svæðinu.
Áhættumat verkfræðistofunnar Örugg er unnið fyrir þrjú svæði, þ.e. 1) gossvæði/sprengisvæði, 2) Svartsengi og 3) Grindavík (þéttbýli). Matið er unnið fyrir fjóra hópa, þ.e. 1) viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, 2) íbúa, 3) fyrirtæki og 4) ytri aðila og ferðamenn.
Í Grindavík er áhætta metin há fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, mjög há fyrir íbúa og fyrirtæki og óásættanleg fyrir ytri aðila og ferðamenn. Á Svartsengissvæðinu er áhætta talin miðlungs fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka en há fyrir fyrirtæki, ytri aðila og ferðamenn. Á gos-/sprengisvæði er áhættan hins vegar óásættanleg fyrir alla aðila. Mælt er gegn því að óviðkomandi fari inn á gos- og sprengisvæði.
Farið er í eftirlitsferðir hvern morgun, og yfir daginn, til að kanna hvort einhverjar varnir hafi gefið sig og gert við lokanir þar sem þess kann að gerast þörf.
Áhættumatið gildir þar til nýtt áhættumat er gefið út.
Fréttatilkynning frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum