Í gær fór hraun að renna úr syðsta hluta Geldingadala, yfir gönguleið A og áfram niður í Nátthaga. Þessi framvinda var fyrirséð en nokkru fyrr en búist var við. Í kjölfarið var farið betur yfir hermanir á hraunflæði frá þessu svæði. Út frá því má reikna með frekara hraunflæði á þessu svæði og líka niður í Nátthagakrika en þaðan er opið svæði í norður, vestur og suður.
Því var ákveðið eftir samráð við Grindavíkurbæ og aðgerðarstjórn að ráðast í gerð leiðigarðs syðst í Geldingadölum og varnargarðs sem minnki líkur á, eða seinki verulega, að hraun fari niður í Nátthagakrika. Leiðigarðurinn verður með sömu hönnun og varnargarðarnir sem voru reistir ofan við Nátthaga á sínum tíma. Hann verður fyrst um sinn settur í fjóra metra hæð en lengd hans liggur ekki alveg fyrir á þessum tímapunkti. Framkvæmdir eru þegar hafnar en byrjað verður á því að setja neyðarruðning upp við núverandi hraunrönd til að stöðva frekari framgang. Framkvæmdatíminn liggur ekki alveg fyrir en búast má við að framkvæmdir taki nokkra daga. Sem fyrr verður notast við efni sem er fyrir á svæðinu og því engir efnisflutningar inn á svæðið. Öll framkvæmd á svæðinu er með þeim hætti að hægt verður að slétta úr þeim aftur og færa svæðið til fyrra horfs.
Aðgerðin í dag er eins og áður, til að verja mikilvæga innviði á Reykjanesi. Það er verkfræðistofan VERKÍS sem var fengin til að halda utan um þessa vinnu fyrir almannavarnir.