Lokaskýrsla um jarðkönnun í Grindavík. Unnin af Verkís.

Samkvæmt e-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2024 um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa við Grindavíkurbæ er eitt af verkefnum nefndarinnar að annast um könnun á jarðvegi/jarðskoðun vegna jarðhræringanna sem skekið hafa Grindavíkurbæ og nágrenni. Þetta er verkefni sem Almannavarnir/Embætti ríkislögreglustjóra hóf áður en nefndin tók til starfa þann 1. júní 2024, en nefndin og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa síðan haft samstarf um verkefnið.

Verkfræðistofan Verkís hefur haft með höndum verkefnisstjórn jarðkönnunarinnar en átt samstarf við fleiri aðila þar um. Markmið verkefnisins var að meta umfang sprunguhreyfinga og áhrif þeirra á innviði, auk þess að leggja grunn að áframhaldandi vöktun og viðbrögðum.

Sú skýrsla sem hér er birt er lokaskýrsla eftir þrjá fasa jarðkönnunar en fjórði fasinn nær til opinna svæða utan þéttbýlis Grindavíkur og verður ráðist í þann hluta síðar. Jarðkönnun Grindavíkur hefur veitt mikilvægar upplýsingar um ástand sprungna, jarðlaga og innviða. Þó að jarðkönnunarverkefnum sem skilgreind hafa verið innan Grindavíkur sé lokið er mikilvægt að hafa í huga að jarðhræringar í og við Grindavík eru enn í gangi og möguleiki á frekari sprunguhreyfingum í framtíðinni.

Mikilvægt er að undirstrika að niðurstöður jarðkönnunarinnar miðast við bestu fyrirliggjandi upplýsingar á þeim tíma sem rannsóknir fóru fram og ekki er útilokað að jarðvegur breytist og ný ummerki komi í ljós á svæðum þar sem jarðkönnun er lokið.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í reglubundnum tilkynningum sínum lagt áherslu á að íbúar og starfsmenn fyrirtækja dvelji inn á hættusvæði á eigin ábyrgð.   Hver og einn verði að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.  Það sama gildi um ferðamenn.   Vont veður og slæm færð geti dregið úr öryggi fólks inn á hættusvæðum jafnframt því að hafa áhrif á vöktunargetu Veðurstofu Íslands.

Skýrslan er eign íslenska ríkisins. Heimilt er að nýta efni úr skýrslunni en þá skal geta heimildar.