Leiðbeiningar frá HES til fyrirtækja vegna skorts á hitaveituvatni á Suðurnesjum

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafa sett fram leiðbeiningar til fyrirtækja vegna stöðunnar sem nú er uppi á Suðurnesjum, þegar ekkert heitt vatn er á svæðinu.  Leiðbeiningunum er ætlað að hjálpa fyrirtækjum að tryggja sem best hreinlæti og smitvarnir þegar hitaveitunnar nýtur ekki við.

Veitingaþjónusta
Mikilvægt er að hafa í huga að matvælareglugerðin (nr. 103/2010) gerir þá kröfu að nægt aðgengi sé að heitu og köldu vatni.  Heitu vatni til handþvotta, þvotta á borðbúnaði/áhöldum og til annarra þrifa.

Hægt er að ná góðum handþvotti með köldu vatni, handsápu og gerileyði.  Á vef sóttvarnalæknis má finna góðar leiðbeiningar um handþvott, bæði myndrænar og á íslensku og nokkrum erlendum málum: https://island.is/sykingavarnir-almennt/handthvottur

Veitingaþjónusta og flest matvælafyrirtæki búa yfir uppþvottavélum sem geta hitað kalt vatn.  Allur borðbúnaður og áhöld fara þá í gegnum uppþvottavélina.  Heitt vatn til annarra þrifa má hita í pottum eða kötlum.

Önnur fyrirtæki
Í fyrirtækjum sem hafa starfsleyfi skv. hollustuháttareglugerð (nr. 941/2002) er einnig gerð krafa um nægt heitt og kalt vatn.  Þar er heita vatnið ætlað til handþvotta, baða og ýmissa annarra þrifa.

Grípa má til sömu lausna varðandi handþvott með köldu vatni, handsápu og gerileyði.  Á vef sóttvarnalæknis má finna góðar leiðbeiningar um handþvott, bæði myndrænar og á íslensku og nokkrum erlendum málum: https://island.is/sykingavarnir-almennt/handthvottur.  Mikilvægt er að börn fái leiðsögn um handþvotti við þessar aðstæður.

Ekki er hægt að sjá að boðið verði upp á böð við þessar aðstæður.  Heitt vatn til annarra þrifa má hita í pottum eða kötlum.

Hér má finna sérstakar leiðbeiningar um handhreinsun, bæði handþvott og notkun sótthreinsandi efna, fyrir heilbrigðisstarfsfólk https://island.is/sykingavarnir-heilbrigdisthjonusta/handhreinsun-heilbrigdisstarfsfolks

Sjá frétt Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja

logo-hvitt