Á vefsíðu Veðurstofu Íslands kemur fram að landris heldur áfram á svæðinu við Svartsengi. Atburðarrásin heldur áfram og búast má við nýju kvikuhlaupi og eldgosi. Einnig hefur Veðurstofan uppfært hættumatskort vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Eins og áður sýnir kortið mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra. Heildarhættumat fyrir svæðin er óbreytt frá síðasta korti. Enn er talin hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum á svæði 4 (Grindavík). Kortið gildir, að öllu óbreyttu, til 15. febrúar næstkomandi.