Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, ÍSOR, KAUST háskóla, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingum Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur auk fulltrúa frá Embætti landlæknis, Isavia-ANS og HS-Orku. Á fundinum var farið yfir úrvinnslu á nýjustu mælingum og gögnum sem vísindamenn á Veðurstofunni, Háskóla Íslands og ÍSOR hafa unnið að.
Helstu niðurstöður fundarins:
- Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið minni síðasta sólarhringinn ef miðað er við virknina um helgina. Talsvert hefur verið um smáskjálfta síðasta sólarhringinn og er það merki um hversu kaflaskipt skjálftavirknin hefur verið í þessari hrinu sem hófst fyrir um þremur vikum síðan.
- Nýjustu gervihnattamyndir og GPS mælingar benda til þess að kvika haldi áfram að flæða inn í kvikuganginn. Gögn benda til þess að færsla kvikugangsins til suðurs hafi stöðvast.
- Mesta skjálftavirknin tengd kvikuganginum, hefur færst um 4-5 km í norðuraustur frá svæðinu við Nátthaga og er nú staðsett við norðaustanvert Fagradalsfjall, um miðbik kvikugangsins.
- Út frá skjálftavirkni síðasta sólarhringinn, úrvinnslu úr GPS mælingum og gervihnattamyndum hefur líklegasta gossvæðið færst frá Nátthaga norðuraustur eftir kvikuganginum að norðausturhluta Fagradalsfjalls.
- Kvikugangurinn hefur nú verið að myndast í um þrjár vikur og líklegt er að hluti hans hafi storknað. Það að kvika storkni í hluta gangsins, dregur hinsvegar ekki úr líkum á að það gjósi á svæðinu.
- Sviðsmyndir sem gefnar hafa verið út eru áfram í gildi, meðal annars sú að skjálfti geti orðið á svæðinu milli Kleifarvatns og Bláfjalla af stærð allt að 6.5.
Nánar um niðurstöðu fundarins:
Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið minni síðasta sólarhringinn ef miðað er við virknina um helgina. Talsvert hefur verið um smáskjálfta síðasta sólarhringinn og er það merki um hversu kaflaskipt skjálftavirknin hefur verið í þessari hrinu sem hófst fyrir um þremur vikum síðan.
Mesta skjálftavirknin tengd kvikuganginum, hefur færst um 4-5 km í norðuraustur frá svæðinu við Nátthaga og er nú staðsett við norðaustanvert Fagradalsfjall, um miðbik þess svæðis sem kvikugangurinn hefur haldið sig á frá upphafi hrinunnar. Dæmi eru um slíkt úr öðrum sprungugosum, til dæmis úr Holuhraunsgosinu þar sem skjálftavirkni færðist fram og tilbaka eftir kvikuganginum áður en gos hófst.
Nýjustu gervihnattamyndir og GPS mælingar benda til þess að kvika haldi áfram að flæða inn í kvikuganginn. Hinsvegar benda gögn til þess að færsla kvikugangsins til suðurs hafi stöðvast. Sá möguleiki er fyrir hendi að kvikan hafi mætt fyrirstöðu í syðri enda gangsins undir Náttahaga og leiti sér nú að auðveldari farvegi til yfirborðs norður eftir kvikuganginum. Þetta er í samræmi við þau dæmi sem þekkt eru úr gossögunni á Reykjanesskaga, sem sýna að sprungukerfi skagans austan Reykjaness ná ekki í fram í sjó.
Líkt og áður hefur komið fram í tilkynningum vísindaráðs, að meðan kvikugangurinn heldur áfram að stækka, þá þarf að gera ráð fyrir því að gosið geti á svæðinu. Eins er það mat vísindaráðs að þær sviðmyndir sem áður hafa verið gefnar út séu allar áfram í gildi, meðal annars sá möguleiki að skjálfti allt að 6.5 verði á svæðinu milli Kleifarvatns og Bláfjalla.
Áfram eru þessar sviðsmyndir líklegastar þegar kemur að framvindu atburða á Reykjanesskaga:
- Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur
- Skjálftar allt að 6 að stærð verða í nágrenni við Fagradalsfjall
- Skjálfti verður að stærð 6.5 sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
- Kvikuflæði heldur áfram inn í kvikuganginn í nágrenni við Fagradalsfjall:
- Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
- Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ná í byggð
Mesta skjálftavirknin tengd kvikuganginum, hefur færst um 4-5 km í norðuraustur frá svæðinu við Nátthaga og er nú staðsett við norðaustanvert Fagradalsfjall, um miðbik svæðisins milli Fagradalsfjalls og Keilis.
Nýjasta gervihnattamyndin sýnir breytingar á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga frá 9. mars til 15. mars. Gervitunglið flaug í norðurátt yfir landið klukkan 18.59, 15. mars.
(Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin og Michelle Maree Parks, byggt á gögnum frá Copernicus Sentinel)