Í hádeginu í dag 4. janúar byrjaði jarðskjálftahrina í Grafningnum um 3 km sunnan við Þingvallavatn. Stærsti skjálfti hrinunnar var rúmlega 3,7 að stærð kl 11:56 og fannst hann víða á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftinn var siggengisskjálfti en hann varð suður af Þingvallasigdældinni. Á þessu svæði eru Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn að færast í sundur og því eru skjálftar ekki óalgengir á þessu svæði. Alls hafa hátt í hundrað skjálftar mælst í hrinunni og eftirskjálftavirknin heldur áfram. Brotlausnirnar sem sýndar eru á seinni myndinni sýna siggengishreyfingu sem búast má við á rekbeltinu. Kortið (fyrri myndin) sýnir svo afstöðu áætlaðra sprungsveima sem tilheyra megineldstöðvunum við Hengilinn (merktur) og Hrómundartind. Veðurstofan og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgjast áfram vel með framvindunni.