Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi aflýsir hættustigi Almannavarna vegna veðurs sem gekk yfir Austurland síðasta sólarhringinn. Allar rauðar viðvaranir Veðurstofunnar hafa nú fallið úr gildi og núna síðasta hættustig Almannavarna.
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að veðrið sem gekk yfir landið síðasta sólarhringinn var afleiðing af djúpri lægð vestan við land, sem í samvinnu við háþrýstisvæði yfir Bretlandi myndaði afar kröftugan sunnan vindstreng yfir landið.
Í ljósi þess hversu mikill fjöldi sjálfboðaliða kom að hundruðum verkefna á síðasta sólarhring – þar sem markmiðið var að takmarka tjón eins og kostur var – er ástæða til að hrósa og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem komu að þessu langa og stranga verkefni út um allt land.
Það er ljóst að svona viðburðir minna okkur á mikilvægi þess að vera viðbúin fyrir það sem náttúran býður upp á og það að hafa svo öflugt net sjálfboðaliða og viðbragðsaðila sem geta brugðist hratt við á neyðarstundu, er ómetanlegt fyrir íslenskt samfélag.
Samhæfingastöð Almannavarna, sem virkjuð var í gær klukkan 14:00 hefur lokið störfum.