Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýsir yfir óvissustigi á Tröllaskaga vegna úrkomu á Norðurlandi eystra.
Þá er einnig lýst yfir hættustigi í Kinn og Útkinn vegna úrkomu og skriðuhættu. Tekin hefur verið ákvörðun um að rýma eftirtalda bæi í Útkinn: Björg, Ófeigsstaði, Rangá, Engihlíð og Þóroddsstaði.
Veðurstofa Íslands hefur sett út gula viðvörun vegna úrkomu á Norðurlandi eystra og gildir hún til hádegis á morgun, sunnudaginn 3. október.
Mikil úrkoma hefur verið á Norðurlandi í dag og mun svo vera áfram til morguns. Veginum í Útkinn frá gatnamótum við Norðausturveg hefur verið lokað vegna aurskriðna sem þar hafa fallið.
Borist hafa upplýsingar um grjóthrun á Siglufjarðarvegi í Almenningum vestan Siglufjarðar og eru vegfarendur beðnir um að hafa varann á séu þeir á leið þar um.