Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi lýsir yfir hættustigi almannavarna vegna Skaftárhlaups.
Síðustu daga hefur hlaupið úr Vestari skaftárkatli en nú sýna mælingar að hlaup er að vænta úr Eystri Skaftárkatli. Þau hlaup eru yfirleitt stærri en þau sem koma úr Vestari Skaftárkatli. Vatn getur náð meiri útbreiðslu en síðustu daga og má búast við einhverjum samgöngutruflunum á fjallvegum nærri Skaftá. Vegfarendur eru því beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum um færð á vegum.
Brennisteinsvetnismengun getur gætt þar sem hlaupvatn kemur undan jökli og getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum auk þess sem árnar geta flætt yfir bakka og vegi sem liggja þeim nærri. Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
Ítarlegri upplýsingar um Skaftárhlaup og framvindu þess má finna á vef Veðurstofu Íslands.
Hættustig almannavarna er sett á til að samhæfa aðgerðir og verklag ýmissa verklagsaðila og stofnana og hefur ekki áhrif á almenning. Hættustig er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.