Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (COVID-19). Smit hefur verið staðfest hjá einstaklingi á Íslandi.
Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir nýrri kórónaveiru (COVID-19). Maðurinn er ekki alvarlega veikur en sýnir dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms (hósti, hiti og beinverkir). Sýnataka og greining á veiru- og sýklafræðideild Landspítali staðfesti laust eftir kl. 13:00 í dag að maðurinn væri smitaður af COVID-19 kórónaveiru. Þetta er fyrsta staðfesta tilfellið hér á landi.
Í ljósi þessa mun ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni virkja hættustig almannavarna. Er þetta gert bæði vegna þess að ekkert lát er á hópsýkingu af völdum veirunnar ytra, þá sérstaklega í Evrópu, og að fyrsta tilfellið hefur nú verið staðfest hér á landi.
Maðurinn sem greindist var nýverið staddur á Norður-Ítalíu utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veiruna. Unnið er að rakningu smitleiða en markmið þeirra vinnu er að varpa ljósi hverjir gætu verið útsettir vegna þessa staðfesta smits.
“Um hættustig er að ræða ef auka þarf viðbúnað og sóttvarnarráðstafanir vegna yfirvofandi farsóttar. Almenningur er hvattur til þess að fara eftir leiðbeiningum frá Landlækni og fylgjast með tilkynningum á heimasíðum www.almannavarnir.is og www.landlaeknir.is ”