Upplýsingar til almennings vegna loftmengunar frá eldgosinu frá Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands.
Síðan eldgosið í Geldingadölum hófst hefur reglulega mælst nokkur gosmengun, sérstaklega á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Sú gosmengun hefur hingað til að mestu verið af völdum brennisteinsdíoxíðs (SO2) og hafa leiðbeiningar til almennings því verið settar fram í því sem hefur verið kallað SO2 skammtímatafla.
Þar hafa verið settar fram leiðbeiningar til almennings um viðbrögð við mismunandi háum toppum af SO2. Þær leiðbeiningar hafa miðað við útsetningu í 10 mínútur. Hingað til hafa þær leiðbeiningar dugað vel því háir toppar hafa venjulega staðið stutt yfir.Síðan í gær, 18. júlí hefur hins vegar verið viðvarandi gosmóða á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel víðar sunnan og vestanlands.
Þetta er lengsta samfellda mengunartímabilið með þetta háum toppum síðan eldgosið hófst.Í gosmóðunni er ekki aðeins brennisteinsdíoxíð (SO2) á gasformi heldur einnig súlfatagnir (SO4) sem mælast á svifryksmælum. Þegar bæði SO2 og SO4 eru til staðar og þegar mengunartoppar vara klukkustundum saman má búast má við að fólk geti fundið fyrir meiri einkennum heldur en lýst er í SO2 töflunni.
Þetta eru EKKI það há gildi að öllum almenning sé ráðlagt að halda sig innandyra.
- En ekki er ráðlagt að láta ungabörn sofi úti í vagni.
- Fólk sem viðkvæmt fyrir og finnur fyrir einhverjum einkennum ætti að hafa hægt um sig og forðast óþarfa áreynslu utandyra.
- En eins og gildin hafa verið í morgun er ekki hægt að mæla með því að heilbrigt fólk sé í mjög mikilli áreynslu utandyra. Þá er átt við mjög mikla áreynslu eins og t.d. að hlaupa langhlaup.
Vegna þessa ástands verður upplýsingamiðlun um gosmengun aukin. Formlegar viðvaranir verða þó ekki sendar út fyrr en þriggja klukkutíma meðaltal SO2 fer yfir 500 µg/m3. Hingað til hafa gildin ekki farið yfir þau mörk að degi til. (Fór reyndar yfir það í Norðlingaholti í nótt). Gildi þurfa þó ekki endilega að vera yfir 500 µg/m3 stöðugt í þrjá klukkutíma. Ef t.d. meðaltal eins klukkutíma fer yfir 1500 µg/m3 verður send út viðvörum.