Jarðvísindamenn hittust á vísindaráðsfundi almannavarna í dag og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni sem hófst seinni part janúar við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga.
Gasmælingar voru gerðar við Eldvörp í síðustu viku og mældust hættulega lág gildi súrefnis innan hellismunna. Almennt getur verið hættulegt að fara inní hella á jarðhitasvæðum og fólk beðið að sýna aðgát í slíkum ferðum.
Dregið hefur verulega úr jarðskjálftavirkni við Þorbjörn síðustu daga. Ekkert landris mælist lengur og líklegasta skýringin á þessari hegðun er að innflæði kviku sé lokið í bili.
Vísbendingar eru um lítilsháttar sig frá miðjum febrúar en of snemmt er að túlka mælingarnar og því mikilvægt að fylgjast áfram vel með atburðarrásinni. Áfram er í gildi óvissustig almannavarna sem lýst var yfir 26. Janúar 2020.
Næsti fundur vísindaráðsins verður haldinn 12 mars.
Fundinn sátu: Vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, HS-Orku Isavia ANS og Umhverfisstofnun.