Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram af fullum krafti og streymir mikið magn af brennisteisdíoxíði (SO2) frá eldstöðinni eins og margir landsmenn hafa orðið að þola síðustu vikurnar. Talið er að allt að 450 kg af brennisteini streymi á hverri sekúndu frá eldstöðinni. Á fundi sem haldinn verður í dag um mengunina munu fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun, Embætti sóttvarnalæknis og Vinnueftirliti ríkisins fjalla um þessi mál. Leitast verður við að svara spurningum um áhrif mengunarinnar á heilsufar, mælingar, spár og breytingar á veðurfari, vinnuverndarmörk og almennt um viðbrögð almennings og atvinnulífsins vegna mengunarinnar.Markmið fundarins er að miðla upplýsingum um gasmengunina til fulltrúa sveitarfélaga um land allt og samhæfa skilaboð til almennings.
Fundurinn verður haldinn í móttökusal Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7, þriðjudaginn 18. nóvember, klukkan 14:30 – 16:30. Fundinum verður streymt yfir netið þannig að þeir sem ekki hafa tök á að mæta á fundinn geta fylgst með honum á slóðinni http://www.ustream.tv/channel/ve%C3%B0urstofan
Einnig verður hægt að senda inn spurningar inn á fundinn í póstfangið so2fundur@gmail.com . Fundurinn er opinn á meðan húsrúm leyfir.