Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi miðvikudaginn 8. apríl og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Isavia-ANS og lögreglunni á Suðurnesjum.
Landris mælist enn með miðju vestan við Þorbjörn. Samtals nemur landrisið um 10 sm frá því í lok janúar á þessu ári. Líkön af kvikuinnskoti gefa til kynna sillu á 3-4 km dýpi sem framkallar umtalsverða jarðskjálftavirkni á stóru svæði norðan við Grindavík. Engin merki eru um að kvika sé að færast nær yfirborði.
GPS mælingar ásamt nánari úrvinnslu og líkanreikningum á fyrirliggjandi gögnum, gefa nú vísbendingar um nýtt kvikuinnskot vestast á Reykjanesskaganum undir Rauðhólum og Sýrfelli. Þetta staðfesta gögn sem safnað hefur verið í samstarfi Jarðvísindastofnunar Háskólans, ÍSOR, HS-orku og Veðurstofunnar eftir að virknin við Þorbjörn hófst. Þensla vegna kvikuinnskotsins mælist frá því um miðjan febrúar og fram í fyrstu vikuna í mars. Þessi mynd skýrðist betur þegar unnið var úr GPS mælingum Háskólans, sem ekki eru beintengdar vöktunarkerfinu. Líkan staðsetur kvikuinnskotið á um 8-13 km dýpi, sem er líklega við botn jarðskorpunnar á talsvert meira dýpi en kvikuinnskotin tvö við Þorbjörn. Á sama tíma mældist jarðskjálftavirkni á svipuðum slóðum, líklega til marks um sprennubreytingar í jarðskorpunni í kring.
Í þessum atburðum telja vísindamenn því að þrjú innskot hafi orðið á árinu. Fyrsta innskotið varð 21. janúar til 1. febrúar, silla vestan við Þorbjörn á um 4 km dýpi. Frá 15. febrúar til 7. mars varð innskot vestast á Reykjanesskaganum, en líklega er þeirri þenslu lokið í bili. Frá 6. mars til dagsins í dag er önnur rishrina í gangi vestan við Þorbjörn. Líkönin sýna sillu á um 3,5 km dýpi og um helmingi hægari rishraða en í fyrri hrinunni.
Jarðskjálftavirkni er enn mikil þó að dregið hafi úr stærri skjálftum á Reykjanesskaga. Náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa yfirfarið ríflega 8000 skjálfta á svæðinu síðan í lok janúar. Þetta er mesta hrina sem mælst hefur á Reykjanesskaga frá upphafi mælinga. Mest er virknin norðan Grindavíkur en undanfarið hefur mikil virkni mælst á stóru svæði milli Eldeyjar til Krýsuvíkur.
Á fundinum var farið yfir eldri jarðskjálftavirkni. Á síðustu öld mældist veruleg virkni víða á Reykjanesskaga á árunum 1927-1955 og 1967-1977. Snemma á þessum virknitímabilum urðu jarðskjálftar við Brennisteinsfjöll, þ.e. M 6.3 árið 1929 og svo M 6.0 árið 1968, sem eru stærstu skjálftar sem mælst hafa í grennd við höfuðborgarsvæðið og geta valdið tjóni.
Langflest hús á Íslandi er byggð þannig að þau eigi að standast þá skjálfta sem líkur eru á að hér geti orðið. Lausir munir, hillur, skápar o.s.frv.geta farið af stað og valdið hættu ef ekki er rétt frá þeim gengið. Því þarf reglulega að huga að forvörnum vegna jarðskjálfta. Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir tjón eða líkamsmeiðsl er að ganga vel frá húsgögnum og öðrum innanstokksmunum þannig að þau falli ekki ef jarðskjálfti ríður yfir. Áhrif jarðskjálfta, í hrinu eins og þeirri sem nú gengur yfir, getur gætt á öllum Reykjanesskaga, og er þá höfuðborgarsvæðið ekki undanskilið.
Vísindaráð almannavarna hvetur því fólk til þess að fara yfir heimili og vinnustaði og tryggja óstöðuga innanstokksmuni. Upplýsingar um forvarnir og viðbrögð vegna jarðskjálfta má finna á heimasíðu almannavarna: https://www.almannavarnir.is/forvarnir-og-fraedsla/fraedsluefni/.