Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi þriðjudaginn 13. október til að ræða nýjustu mæligögn frá Grímsvötnum og Bárðarbungu, en síðasti vísindaráðsfundur var 25. september síðastliðinn. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá Isavia-ANS, Landhelgisgæslunni, Landsbjörg, Umhverfisstofnun, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurlandi og Norðurlandi Eystra.
Grímsvötn
Skjálftavirkni er minni nú en var fyrr í haust en ekki er óeðlilegt að sveiflur séu í henni. Mest var hún 7.-14. september með yfir 15 skjálfta M>0.8 en þeim hefur fækkað jafnt og þétt síðan og voru í síðustu viku þrír (með M>0.8). Enn er nokkuð í að uppsöfnuð orkuútlausn vegna jarðskjálftavirkni nái því sem það var fyrir eldgosin 2004 og 2011, en nú eru liðin rúm níu ár frá síðasta gosi sem er lengsta goshlé í Grímsvötnum frá 1998.
GPS mælingar á Grímsfjalli sýna að færsla er nú til suðurs og upp á við, sem er breyting frá suð-suðaustur færslunni sem verið hefur lengst af frá síðasta eldgosi (2011). Ýmsar hugmyndir voru ræddar en engin augljós skýring er á þessari breytingu sem er ekki talin stórvægileg. Í ljósi þess að enn mælist marktæk færsla er líklegt að kvikusöfnun sé enn í gangi.
Íshellan í Grímsvötnum heldur áfram að rísa vegna vatnssöfnunar, en 5. október jókst rishraðinn skyndilega í um 15 klst. en leitaði síðan aftur í sama far og var áður. Nokkrar ástæður geta skýrt þessar mælingar eins og ísskrið sem þrýstir upp íshellunni, tæming jarðhitakatla innan vatnasviðs Grímsvatna, eða aukin bræðsla vegna jarðhita. Í síðustu viku var flogið yfir Grímsvötn og yfirborðið skoðað auk þess yfirborð var á nokkrum stöðum mælt með hæðarratsjá. Ekkert óvenjulegt kom fram í þeim mælingum.
Þann 30. september hækkaði Veðurstofa Íslands fluglitakóða eldfjalla í gulan í ljósi aukinnar virkni og líkum á hlaupi sem gæti leitt til eldgoss. Gulur kóði tryggir formleg samskipti og upplýsingaflæði á milli aðila í flugrekstri.
Vel er fylgst með Grímsvötnum með ýmsum aðferðum: Vefmyndavél á Grímsfjalli, jarðskjálftamælar, GPS landbreytingar og hækkun á íshellu, reglulegur samanburður á loftmyndum og flugmælingar þegar því verður komið við. Búast má við jökulhlaupi á næstunni og því gæti fylgt eldsgos.
Bárðarbunga
Jarðskjálftar verða reglulega í Bárðarbungu sem tengjast aukinni þenslu í eldstöðinni. Smáskjálftavirkni er viðvarandi og reglulega koma skjálftar af stærðinni 4-5, eða um 3-10 á ári. Skjálftarnir sjálfir skapa ekki hættu en benda til þess að kvika streymi inní eldstöðina á ný. GPS landmælingar sýna einnig færslur sem benda til þenslu í eldstöðinni. Þensla var hröðust í kjöfar gosloka, en dregið hefur úr þensluhraða síðan þá.
Þá var flogið yfir Bárðarbungu í síðustu viku og jarðhitakatlar mældir sem fóru að myndast eftir eldsumbrotin í Holuhrauni. Sumir grynnka á meðan aðrir dýpka, en meginþróunin er í átt að aukinni jarðhitavirkni og hefur verið svo að miklu leyti frá öskjusiginu 2014-2015. Kort sem gerð eru eftir gervitunglamyndum sýna sömu þróun. Gera verður ráð fyrir þeim möguleika að með tímanum gæti bræðsluvatn safnast fyrir undir kötlum og komið fram sem jökulhlaup. Nauðsynlegt er að hafa áfram sérstakar gætur á þessari þróun. Engin gögn benda þó til þess nú að vatn sé farið að safnast fyrir í neinum mæli eða að yfirvofandi hlauphætta sé þegar fyrir hendi.
Næsti fundur vísindaráðs hefur ekki verið boðaður