Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi fimmtudaginn 18. júní til að ræða nýjustu mæligögn frá Grímsvötnum. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá Isavia-ANS, Umhverfisstofnun, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurlandi.
Grímsvötn er virkasta megineldstöð Íslands, þar sem á virknitímabilum eins og verið hefur frá 1996, er algengt að 5-10 ár séu milli gosa. Um 20 gos hafa orðið í Grímsvötnum og nágrenni á síðustu 200 árum. Síðasta gos í Grímsvötnum var árið 2011 og var það nokkuð stórt og kröftugt en annars hafa síðustu gos verið fremur lítil og staðið yfir í nokkra daga. Eldgos í Grímsvötnum koma stundum í lok jökulhlaupa samfara þrýstingslétti vegna lækkunar vatnsborðs.
Á fundinum var farið yfir virkni í Grímsvötnum undanfarin misseri og fjallað um mælingar í og við Grímsvötn í byrjun júní. Skjálftavirkni hefur farið hægt vaxandi síðasta árið en er þó enn minni en var mánuðina fyrir gosin 2004 og 2011. Mælingar á landbreytingum í Grímsvötnum sýna að þensla sem hófst eftir síðasta eldgos heldur áfram, en ekki eru merkjanlegar breytingar á rishraða síðasta árið. Stærsta mælanlega breytingin er sú að brennisteinstvíildi (SO2) mældist ofan í Grímsvötnum skammt frá síðustu gosstöðvum. Útstreymi SO2 gefur sterka vísbendingu um afgösun kviku.
Mælingar Jarðvísindastofnunar á hæð íshellu Grímsvatna sýna að hún hefur risið jafnt og þétt um 10 m í vetur og hefur hún ekki mælst hærri síðan október 2010. Það verður því að teljast líklegt að það hlaupi úr Vötnunum í sumar eða haust. Því verður að telja nokkrar líkur á að þrýstingsléttir í vötnunum samfara jökulhlaupi komið af stað gosi. Þetta gerðist síðast árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Í þessum tilfellum fór af stað gos nokkrum dögum eftir að hlaup hófst, eða í seinni hluta hlaups.
Í ljósi þessa hefur Veðurstofan bætt vöktun Grímsvatna. Í byrjun júní var komið fyrir GPS tæki á íshellunni til að fylgjast með í rauntíma þegar hleypur úr Grímsvötnum, ásamt því að settar voru upp myndavélar á Hamrinum og á Skeiðarársandi sem horfa yfir Grímsvötn. Með sjálfvirkum ferlum er nú fylgst með breytingum á hæð íshellunnar, rauntímabreytingum á GPS stöðinni á Grímsfjalli, hallabreytingum á Grímsfjalli, ásamt því að fylgst er náið með skjálftavirkninni. Þetta er gert til að auka líkur á að hægt sé að vara við áður en hlaup og hugsanlegt gos hefst.
Þrýstingur vegna kvikusöfnunar hefur aukist undanfarin ár og líklegt að hann sé svipaður því sem var fyrir gosið 2011. Því eru eftirtaldar sviðmyndir taldar raunhæfar:
- Hlaup verður á næstu vikum-mánuðum, vatnsborð lækkar en það verður ekki gos (gerðist 2010).
- Hlaup verður á næstu vikum-mánuðum, vatnborð lækkar og gos brýst út. Sennilegt að það gos verði lítið til meðalstórt með verulegu gjóskufalli á Vatnajökli en tiltölulega litlu utan hans (gerðist síðast 2004). Sennilegast að gos hefjist 5-8 dögum eftir upphaf hlaups.
- Gos hefst áður en kemur til hlaups.
Í ljósi þessa, er rétt að benda ferðalöngum á Vatnajökli, sérstaklega þeim sem dvelja á Grímsfjalli, á að hafa þetta í huga þegar ferðir eru skipulagðar og að vera í reglulega sambandi við tengiliði. Einnig þarf að varast að gasútstreymi í Vötnunum getur farið yfir hættumörk, sérstaklega í lægðum og þar sem stillur myndast. Í kjölfar jökulhlaups má ennfremur búast við gasmengun sem er sterkust næst jökuljaðrinum.