Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi föstudaginn 22. janúar síðastliðinn. Reykjanessskaginn og Grímsvötn voru efst á baugi, en auk þess var litið til annarra skjálfta- og eldvirknisvæða. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, HS-Orku og ÍSOR ásamt fulltrúum frá Isavia-ANS, Umhverfisstofnun, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fulltrúum almannavarna frá öllum lögregluumdæmum á Íslandi.
Reykjanessskagi
Óvenjumikil jarðskjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaganum frá lokum janúarmánaðar 2020. Virknin einkennist af hrinum á svæðinu frá Reykjanestá að Kleifarvatni og einstaka stærri jarðskjálftum. Í heildina hafa mælst 13 skjálftar stærri en 4 sem allir hafa fundist vel á öllum Reykjanesskaganum og varð stærsti skjálftinn þann 20. október 2020, M5,6 vestan við Krísuvík. Áberandi lítil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu austan við Kleifarvatn að Þrengslum og er ekki hægt að útiloka að spenna sé að safnast þar upp. Skjálftasaga Reykjanesskaga sýnir að stærstu skjálftarnir á því svæði hafa orðið við Brennisteinsfjöll (eða á milli Brennisteinsfjalla og Bláfjalla) og verið allt að M6,0-M6,5 að stærð og orðið samfara tímabilum mikillar skjálftavirkni á Reykjanesskaga. Ef slíkur skjálfti yrði nú, myndi hann valda verulegum hristingi næst upptökunum á Bláfjallasvæðinu og á höfuðborgarsvæðinu, sér í lagi syðri jaðri þess, en minni hristingi fjær þar sem áhrif jarðskjálfta dvína hratt með fjarlægð frá upptökum. Hús á höfuðborgarsvæðinu eru vel byggð en á svæðum þar sem jarðskjálftaáhrifa gætir er jafnan ráðlegt að huga reglulega að innanstokksmunum og innréttingum til að lágmarka hugsanlegt tjón í jarðskjálftum, sbr. leiðbeiningar Almannavarna um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta. https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/varnir-gegn-jardskjalfta/.
Ekki hafa mælst afgerandi landbreytingar í grennd við Grindavík frá því síðasta ristímabili lauk í júlí. Landris mælist í Krísuvík sem bendir til þess að innskotavirkni sé enn í gangi á Reykjanesskaganum.
Grímsvötn
Vel hefur verið fylgst með Grímsvötnum og síðan í júní á síðasta ári hefur hæð íshellunnar verið vöktuð með nákvæmum GPS mælingum. Hún hefur nú náð hæstu stöðu sem mælst hefur síðan í jökulhlaupinu sem kom í kjölfar Gjálpargossins 1996. Vatnsmagn í Grímsvötnunum er þó heilli stærðargráðu minna en 1996. Síðasta sumar var meðalrishraðinn um 9 cm á dag, en síðustu mánuði hefur hann verið um 2 cm á dag. Í byrjun október varð snöggt ris (20-30 cm) í Grímsvötnum og sýna ratsjármælingar úr flugvél (TF-FMS) sem gerðar voru í október að grunnur sigketill norðaustan við Grímsvötn hafi sigið um 10 m á þessu tímabili. Talið er að vatn undir katlinum hafi hlaupið niður í Grímsvötn.
Jarðskjálftavirkni á síðustu mánuðum hefur verið lítil í Grímsvötnum. Frá ársbyrjun hafa einungis mælst 15 skjálftar, sá stærsti 1,5 að stærð. Jarðskjálftavirkin undanfarna mánuði er að mestu bundin við suðurrima öskjunnar.
Síritandi GPS mælir á Grímsfjalli bendir til þess að eldstöðin þenjist út, væntanlega vegna kvikusöfnunar eins og verið hefur síðasta aldarfjórðunginn milli eldgosa. Vísbendingar eru um að rismiðjan sé nú austar en verið hefur lengst af. Óljóst er hvaða merkingu þessi breyting hefur. Hún gæti þó þýtt að kvika safnist nú fyrir á nýjum stað, norður af Eystri Svíahnjúk. Mælingar á næstu vikum og mánuðum munu leiða í ljós hvort þessi túlkun er rétt. Í vor verða 10 ár liðin frá síðasta Grímsvatnagosi og hefur eldstöðin þanist út nær stöðugt á þeim tíma. Fylgjast þarf vel með Grímsfjalli og landhreyfingum þar næstu misserin.
Önnur svæði í Vatnajökli
Reglulega eru jarðhitakatla í Bárðarbungu mældir með flugratsjármælingum. Þær sýna langtímaþróun í kötlunum og hvort breyting er á dýpt þeirra. Jarðskjálftavirkni virðist haldast í hendur við þenslu og kvikusöfnun sem hefur staðið yfir frá því að eldgosi í Holuhrauni lauk. Nokkuð stöðug þensla hefur verið frá þeim tíma og henni fylgja jarðskjálftar, allt að M4,9 að stærð. Töluverð skjálftavirkni hefur verið suðaustan við Bárðarbunguöskjuna á 20-30 km dýpi þar sem talið er að rætur eldstöðvakerfisins liggi. Hugsanlega endurspeglar hún innflæði kviku í kvikuhólf Bárðarbungu.
Skjálftavirkni í Lokahrygg og við Hamarinn hefur smámsaman aukist frá lokum 2019 og er um 50% meiri undanfarið ár en árin á undan. Ekki er ljóst hvað veldur þessari aukningu.
Næsti almenni vísindaráðsfundur verður haldinn á vordögum.