Jarðvísindamenn hittust á vísindaráðsfundi Almannavarna í dag og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga.
Rýnt var í þau gögn sem safnast hafa síðustu vikuna, annars vegar frá þeim mælitækjum sem fyrir voru sem og þeim sem sett hafa verið upp síðustu daga. Nýjustu gögn gefa til kynna að kvikan sem um ræðir sé á 3-5km dýpi, en dýpið var áður áætlað 3-9km. Einnig var farið yfir hugsanlega atburðarás sem gæti farið í gang ef til eldsumbrota kæmi.
Vísbendingar eru um breytt mynstur í jarðskorpuhreyfingum. Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni undanfarna tvo sólarhringa, en enn má sjá merki um áframhaldandi landris en það er nú orðið 5 sentimetrar þar sem það er mest. Um er að ræða langtímaatburð og er reynslan af öðrum sambærilegum atburðum sú að breytingar geta orðið í landrisi viku frá viku án þess að hægt sé að fullyrða um að virknin sé að fjara út.
Á næstu dögum verður metið hvort nauðsynlegt sé að fjölga mælitækjum til að fá betri mynd á þróun mála.
Næsti fundur vísindaráðsins verður haldinn eftir viku að öllu óbreyttu.
Fundinn sátu: Vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, HS-Orku, Umhverfisstofnun, ÍSAVÍA og lögreglunni á Suðurnesjum.