Þrjú tilfelli veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómi voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í dag. Heildarfjöldi staðfestra tilfella er núna sex. Einstaklingarnir sem greindust með veiruna dag komu til landsins á laugardaginn með flugi Icelandair til Keflavíkurflugvallar frá Veróna.
Þessir þrír einstaklingar, tvær konur og einn karl, eru allir á sextugsaldri og búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þau eru ekki mikið veik en þó með dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms (hósti, hiti, beinverkir).
Maðurinn sem greindist fyrstur Íslendinga með veiruna hefur verið útskrifaður af Landspítala og er nú í heimaeinangrun. Allir sem hafa verið greindir með smit eru því í heimaeinangrum við sæmilega heilsu.
Flug frá München of Veróna
Smitrannsóknateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sóttvarnalæknis vinnur nú að því að rekja smitleiðir í tengslum við þessi nýju tilfelli. Á síðustu tveimur dögum hefur teymið haft samband við um 115 einstaklinga. Mikill meirihluti þeirra var um borð í flugvél Icelandair sem kom frá Veróna (skilgreindu hættusvæði) á laugardaginn.
Meirihluti þeirra farþega sem komu frá München með Icelandair á sunnudaginn hafði verið í Austurríki. Hvorki Þýskaland né Austurríki eru skilgreind hættusvæði fyrir COVID-19 og því þurfti um 30 manna hópur að fara í sóttkví eftir flugið frá München. Allir farþegarnir sem komu frá Veróna fóru hins vegar í sóttkví.
Staðan í dag
Í dag voru 19 sýni rannsökuð á Landspítala, þar af reyndust þrjú fyrrnefnd tilfelli jákvæð. Frá upphafi hafa um 150 sýni verið rannsökuð. Í kringum 260 manns eru í sóttkví á landinu öllu. Nánari upplýsingar um heimasóttkví má nálgast á vef landlæknis. Svo gæti farið að fleiri muni þurfa að fara í sóttkví á næstu dögum. Atvinnurekendur og stjórnendur á vinnumarkaði eru hvattir til að sýna stöðu þessa fólks skilning.
Það er vitað að fjöldi heilbrigðisstarfsmanna, ekki síst af Landspítala er á faraldsfæti en af hálfu Landspítala er verið að kortleggja um hve marga er að ræða. Því er líklegt að einhver fjöldi heilbrigðisstarfsmanna þurfi að fara í sóttkví sem varir í 14 daga. Þá er ljóst að íslenskt heilbrigðiskerfi er viðkvæmt og það gæti orðið afdrifaríkt ef upp kæmi smit hjá starfsmanni. Því vilja landlæknir, sóttvarnalæknir og almannavarnir biðla til heilbrigðisstarfsmanna að fresta öllum utanlandsferðum eftir því sem kostur er meðan það skýrist hvert umfang faraldursins verður.
Upplýsingateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vinnur að því að koma upplýsingum um COVID-19 til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa. Þetta eru t.d. aldraðir einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta verður gert í samráði við sjúklingasamtök, fagfélög og hagsmunahópa þessara einstaklinga.
Unnið er að opnun farsóttarhúss á Rauðarárstíg í Reykjavík. Tilgangur þess er að hýsa einstaklinga sem hafa verið útsettir fyrir smiti en eiga ekki greiðan aðgang að húsnæði hér á landi (t.d. ferðamenn). 70 herbergi verða í húsinu. Verkefnið er á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Rauða krossins. Í dag var kennsla og fræðsla fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins.
Sóttvarnalæknir minnir á að einstaklingar, með búsetu á Íslandi, sem hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum, það er Ítalíu, Kína, Suður Kóreu og Íran og snúa heim eru hvattir til að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir hafa yfirgefið skilgreind áhættusvæði. Erlendir ríkisborgarar þurfa hins vegar ekki að fara í sóttkví þar sem að talið er að þeir séu ólíklegri að vera í nánu samneyti við marga einstaklinga og auk þess dvelja þeir yfirleitt stutt á Íslandi. Smithætta frá þeim er því talin verulega minni en frá Íslendingum sem hér búa.
Ef ofangreindir einstaklingar fá einkenni frá öndunarfærum innan 14 daga, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslu símleiðis en ekki mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.