Fréttatilkynning vegna COVID-19

Í dag greindust sex einstaklingar með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi. Af þeim eru þrjú innanlandssmit. Eitt af þessum tilfellum sem greindust í dag er á forræði erlendra stjórnvalda, því er heildartala smitaðra hér á landi 55. Tíu smit hafa átt sér stað innanlands frá einstaklingum sem komu erlendis frá. Í kringum 500 manns eru í sóttkví, þar af langflestir á höfuðborgarsvæðinu.

Fimm starfsmenn (fjórir hjúkrunarfræðingar og einn almennur starfsmaður) á gjörgæsludeild Landspítala hafa greinst með veiruna og eru því í einangrun. Fimm aðrir á sömu deild eru í sóttkví. Þegar hafði verið gripið til öflugra ráðstafana á Landspítala til að stemma stigu við frekari smitum á gjörgæsludeildinni til að vernda starfsfólks spítalans. Farsóttarnefnd Landspítala er í stöðugri vinnu við að meta ástandið innan veggja spítalans.

Unnið er að margvíslegum aðgerðum til að undirbúa heilbrigðisþjónustuna fyrir það álag sem fyrirséð að verði vegna COVID-19. Á meðal annars er unnið að því að færa heilbrigðisstarfsfólk til innan kerfisins þannig að hægt verði að manna nauðsynlegar stöður, panta fleiri öndunarvélar í gegnum útboð, fá inn fólk sem vinnur á einkareknum stofum og jafnvel heilbrigðisstarfsfólk sem komið er á eftirlaun. Undirbúningur fyrir allar þessar aðgerðir er þegar hafinn.

Landlæknir átti í dag fund með Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, vegna hugmynda hans um að skima fyrir COVID-19 meðal almennings og er nú stefnt að því að hefja þá vinnu á næstu dögum. Verkefnið verður á forræði sóttvarnalæknis og mun vinnuhópur á vegum hans hefja vinnu við útfærslu þess og framkvæmd. Ljóst er að niðurstöður slíkrar skimunar mun reynast afar dýrmæt fyrir endurskoðun áhættumats og áframhaldandi opinberar sóttvarnaaðgerðir.

Norðurhéruð Ítalíu hafa nú verið sett í sóttkví. Ljóst er að hópur Íslendinga er á þessum svæðum og eru þeir hvattir til að skrá sig í gagnagrunn borgaraþjónustunnar á vef utanríkisráðuneytisins.

Neyðarstig almannavarna er enn í gildi en unnið er samkvæmt Landsáætlun um heimsfaraldur. Ekki hefur verið lýst yfir samkomubanni.

Sem fyrr er athygli vakin á síma 1700 sem veitir upplýsingar ef grunur vaknar um smit. Einnig er fólk hvatt til að nýta sér Heilsuvera.is sem er upplýsingagátt heilsugæslunnar fyrir einstaklinga, til að fá ráðleggingar frá heilbrigðisstarfsmanni.

Að óbreyttu verður upplýsingafundur fyrir blaðamenn á morgun klukkan 14:00 í húsakynnum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra við Skógarhlíð 14.