Frá og með 25. maí verður allt að 200 manns heimilt að koma saman í stað 50 áður samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Á líkamsræktarstöðvum verður, líkt og á sund- og baðstöðum, takmörkun á fjölda gesta, sem miðast við að þeir séu aldrei fleiri en nemur helmingi af leyfilegum hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi. Veitingastaðir, þar með taldar krár og skemmtistaðir, og spilasalir, verður heimilt að hafa opið til kl. 23.00.
Hvatt er til þess að viðhalda tveggja metra nálægðarmörkum eftir því sem kostur er. Með nýrri auglýsingu verður framkvæmd tveggja metra reglurnar breytt nokkuð. Horft er til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu. Þannig verði til dæmis á veitingastöðum, í leikhúsum og bíósölum boðið upp á að minnsta kosti nokkur sæti sem geri þetta kleift.
Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu, manna eða dýra. Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi satarfsemi, svo sem raforku, fjarskipta, samgangna, heilbrigðisstarfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða.